Litið hátt í heiðhvolfið

Í tilefni glitskýjasýningar í dag (föstudaginn 9. desember) skulum við líta upp á við. Talið er að glitskýjamyndun þurfi afspyrnulágan hita, -80 stig eða lægra.

w-blogg101211a

Myndin sýnir hita (blár ferill, °C - neðri kvarði á myndinni) og vindhraða (rauður ferill, hnútar - efri kvarði myndar). Við jörð var hiti -6,3 stig. Hann fellur síðan ákveðið upp í um 4 kílómetra hæð en þar kemur hik á fallið. Þar eru hitahvörf - hiti hækkar lítillega með hæð. Þar ofan við fellur hann aftur að öðrum hitahvörfum í 11 km hæð. Þar eru veðrahvörfin. Hitafallið er minna þar ofan við, í heiðhvolfinu.

Mestan hluta ársins fellur hiti reyndar ekki neitt í neðst í heiðhvolfinu en hækkar frekar eftir því sem ofar dregur. Hér er því ekki að heilsa, hitinn heldur áfram að falla allt upp í 24 km hæð. Frostið fer í -80 stig í um 22 km hæð. Líklegast er því að glitskýin séu þar. Hugsanlegt er að þau hafi verið neðar ef mikill bylgjugangur hefur verið í neðri hluta heiðhvolfs. En við skulum ekki velta okkur upp úr því.

Vindhraðinn (rauði ferillinn) sýnir að í neðsta laginu er vindur á bilinu 15 til 25 hnútar, en vex síðan nokkuð snögglega í námunda við hitahvörfin og þar fyrir ofan. Hann nær hámarki nærri veðrahvörfunum og fer í 86 hnúta í kringum 10 km hæð. Eftir það helst hann svipaður upp í 20 km en vex síðan upp í hámark í 25 km þar sem hann er 104 hnútar.

Af þessu má ráða að mjög mikill bratti er á hæðarflötum í heiðhvolfinu. Við sjáum hann vel á næstu mynd. Hún er því miður tveggja daga gömul en það kemur ekki svo mjög að sök. Aðalatriðin eru svipuð og þau í dag.

w-blogg101211

Myndin er fengin af frábærri heiðhvolfsvefsíðu Andreas Dörnbrack. Þökk fyrir það. Greina má norðurskaut á miðri mynd en hún sýnir hæð 50 hPa flatarins og hita í honum yfir norðurhveli suður á 40°N á miðnætti aðfaranótt þess 8. Við sjáum hér hið gríðarmikla lægðasvæði sem á erlendum málum er kennt við heimskautanóttina (polar night vortex). Íslenskt nafn hefur ekki enn fest sig í sessi (enda hefur nær ekkert verið ritað um fyrirbrigðið á íslensku - hungurdiskar hafa þó nefnt það áður - að því er ritstjórann minnir).

Þessi lægð myndast á svæði sem er inni í jarðskugganum í mesta skammdeginu. Þar skín engin sól og engin inngeislun hitar ósonið og aðrar geislagleypnar sameindir með þeim afleiðingum að útgeislun nær undirtökum. Eins og lesendur hungurdiska vita falla hæðarfletir ofan við þegar loft kólnar. Tölurnar sem við sjáum eru hefðbundnir dekametrar háloftakorta, mér sýnist innsti hringurinn vera 1888 dekametrar = 18880 metrar. Hæð flatarins yfir Keflavík í dag var 19580 metrar. Í leynimetatöflum ritstjóra hungurdiska má sjá að þetta er óvenju lág staða flatarins,

Litirnir sýna hita, reyndar er kvarðinn í Kelvingráðum (K = °C-273). Kaldasta svæðið - yfir Norður-Grænlandi sýnist mér vera 192K, -81°C. Í háloftaathuguninni frá Keflavík í dag var hitinn í 50 hPa -76,5 stig.

Hvað eigum við eiginlega að kalla þessa stórmerku háloftalægð? Í íslensku getum við auðveldlega gripið til langyrða en þau eru ekki fögur þótt lýsandi séu: Skammdegisheiðhvolfslægðin? Í lengsta lagi - er það ekki?

En þessi lægð - hvað sem við svo köllum hana - er missterk og liggur misvel hringinn í kringum skautið. Hér hallar hún sér t.d. í átt til okkar. Hún endist líka mislengi. Heiðhvolfstrúarmenn segja hana hafa afgerandi áhrif á stöðu NAO-fyrirbrigðisins og myndun fyrirstöðuhæða niðri í veðrahvolfi. Hér verður ekki tekin afstaða til þeirra vangaveltna.

Það er hins vegar vitað að styrkur lægðarinnar hefur afgerandi áhrif á ósonbúskap heiðhvolfsins. Sé hún öflug - hiti mjög lágur - vaxa líkur á ósoneyðingu. Þau efnaferli sem við sögu koma eru afkastamest í mjög miklu frosti. Í ljós hefur komið að kuldinn merkir sig að nokkru með myndun glitskýja. Það að glitský myndist þýðir þó ekki endilega að ósoneyðing sé í gangi. Önnur heiðhvolfsský koma líka við sögu. Bíðum við - eru glitskýin ekki einu heiðhvolfsskýin? 

Hér er komið að smámunasemi sem skiptir litlu, enn er lag til að kalla öll heiðhvolfsský glitský á íslensku. En hvers eðlis voru t.d. hvítu skýjaböndin sem sáust rétt eftir sólarlag á Suðvesturlandi í dag (föstudag)? Litlaus glitský? Eða var þetta kannski einhver óværa í veðrahvörfunum? Er einhver óværa þar á sveimi? 

Það skal tekið fram að glitský sjást ekki á nóttunni - aðeins kvölds og morgna og líka yfir miðjan daginn þar sem sól er mjög lágt á lofti, t.d. norðanlands. Það eru silfurský sem sjást á nóttunni, síðsumars - ekki má rugla þessum tveimur ólíku skýjategundum saman.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

........sæll Trausti og takk fyrir kuldapistilinn ! 

Glitský , sem Páll Bergþórsson nefnir líka " snæský" , eru fallegt náttúrufyrirbrigði , en flagð undir fögru skinni.  Þau eiga tilveru sína að þakka fimbulkulda í

háloftunum . Og engin furða að forfeðurnir kættust lítt yfir þessarri sýn. Hún

var ávísun á leiðinada kuldatíð um nokkurt skeið - jafnvel vikur , oftast með ofankomu í formi snævar . ( sbr. nafnið) Mér sýnist að þessi " veðurfræði " forfeðranna hafi ekki brugðist hingað til , - amk. það  langt sem ég hef fylgst með.

óli Hilmar Briem Jónsson (IP-tala skráð) 11.12.2011 kl. 00:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 815
  • Sl. sólarhring: 879
  • Sl. viku: 2610
  • Frá upphafi: 2413630

Annað

  • Innlit í dag: 762
  • Innlit sl. viku: 2362
  • Gestir í dag: 741
  • IP-tölur í dag: 722

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband