Af miklum háloftavindstreng sunnan við land

Við notum tækifærið og lítum á mikinn háloftavindstreng sunnan við land. Kortið sýnir hæð 300 hPa-flatarins ásamt vindhraða og vindátt mánudaginn 5. desember kl. 18 - eins og hirlam-líkanið segir til um. Vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum en sérstök áhersla er lögð á vindhraðann með því að sýna hann í mismunandi litum eftir því hversu sterkur hann er. Heildregnu línurnar sýna hæð 300 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam=10 metrar). Textinn hér að neðan er ekki sérlega aðgengilegur og er sem fyrr beðist velvirðingar á ósómanum. En það er ekki skylda að lesa hungurdiska.

w-blogg051211

Auk fastra merkinga hef ég sett inn nokkur áhersluatriði til viðbótar. Við lægðina yfir Norður-Grænlandi er hæð flatarins um 8140 metrar, en syðst á kortinu, vestur af Spáni, er hún rúmlega 9500 metrar, munar hér nærri 1,4 kílómetrum á hæstu og lægstu hæð flatarins. Það kann að virðast litið á 4000 kílómetra leið - en dugar samt til þess að búa til vindinn á milli sem nær meir en 330 km/klst (92 m/s) hraða þar sem hann er mestur.

Nú kemur tveggja málsgreina útúrdúr um orðanotkun - þeir sleppi þeim sem vilja.

Ég er hallur undir þá orðanotkun að tala um vindrastir þar sem vindur liggur í strengjum, hvort sem er háloftum eða lægra. Vindstrengur er þá aðeins almennari merkingar - við tölum varla um vindrastir við húshorn. Á háloftakortum sést að vindur leggst þar mjög í rastir sumar eru meira eða minna alltaf til staðar og hafa því fengið nöfn - ég nota nafnið heimskautaröst á þá sem á ensku nefnist polar jet stream. Þar er átt við röst sem hringar sig um mestallt norðurhvel (og önnur um suðurhvel). Vegna þess að heimskautarastirnar eru tvær ætti raunar að tala um heimskautaröst norðurhvels - en það er allt of langt - en síður vil ég tala um heimskautsröst.

En hvað um það. Heimskautaröstin er sjaldnast alveg samfelld - heldur er hún í bútum sem sveiflast út og suður í kringum lægðardrög og hæðarhryggi háloftanna. Innan hvers búts eru þröng svæði þar sem vindhraði er langmestur. Ég stel orðinu skotvindur sem nafni á þessi svæði. Þau hafa einnig verið nefnt rastarkjarni.

En aftur að myndinni. Við sjáum heimskautaröstina liggja nánast beint yfir Atlantshaf frá Labrador til Frakklands. Hún er reyndar aðeins stærri umfangs heldur en lituðu svæðin en að minnsta kosti svo stór. Sjá má að röstin fylgir jafnhæðarlínunum ekki alveg. Að þessu sinni munar þó ekki mjög miklu.

Af kortum sem sýna áframhaldandi þróun má sjá að svæðið þar sem skotvindurinn er snarpastur hreyfist til austurs með um 100 til 120 km hraða á klukkustund. Vindhraðinn er hins vegar miklu meiri, yfir 330 km/klst þar sem mest er. Þetta þýðir að skotvindssvæðið fylgir loftinu engan veginn eftir.

Sá bútur heimskautarastarinnar sem við sjáum á kortinu afmarkast af tveimur lægðardrögum austast og vestast á kortinu. Bláar strikalínur eru settar í miðjur þeirra endilangar. Á milli þeirra er veikur hæðarhryggur sem hér er merktur sem bogadregin rauð strikalína. Hryggurinn hreyfist austur. Óljóst er hvort hann slær tímabundið á smálægðamyndun sunnan og vestan við land.

Til að losna úr kuldanum sem ríkir nú hér á landi þarf hæðarhryggur að rísa upp úr heimskautaröstinni, helst fyrir austan okkur. Það gerir þessi hryggur ekki. Rétt sést í þann næsta efst til vinstri - margir dagar eru í að hann nái hingað til lands - sennilega 4 til 5 dagar. Stóru reiknimiðstöðvarnar eru mjög ósammála um ris hans - evrópureiknimiðstöðin segir hann gagnslítinn fyrir okkur en sú ameríska er mun bjartsýnni um norðurför hans.

Vestur-Evrópa er enn í skotlínu illviðra og verður það mestalla vikuna. Spár eru þó óræðar um það mál.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Flottur!

Aðalsteinn Agnarsson, 5.12.2011 kl. 14:20

2 identicon

Áhugavert. Takk :)

Hló að þessu :

"Textinn hér að neðan er ekki sérlega aðgengilegur og er sem fyrr beðist velvirðingar á ósómanum. En það er ekki skylda að lesa hungurdiska."

Ari (IP-tala skráð) 6.12.2011 kl. 03:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 282
  • Sl. sólarhring: 478
  • Sl. viku: 2077
  • Frá upphafi: 2413097

Annað

  • Innlit í dag: 268
  • Innlit sl. viku: 1868
  • Gestir í dag: 266
  • IP-tölur í dag: 264

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband