Af norðurhvelsstandi rúma viku af nóvember

Kortið hér að neðan sýnir 500 hPa spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir fimmtudaginn 10. nóvember kl. 12 og nær um norðurhvelið allt suður undir 30. breiddarstig.

w-blogg091111a 

Fastir lesendur kannast við táknfræði kortsins en vegna hinna er rétt að koma hér með fastan kynningartexta: Höfin eru blá og löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, syðri mjóa rauða línan sýnir hæðina 5820 metra en sú nyrðri merkir 5100 metra. Sú fyrrnefnda er að nokkru komin suður úr kortinu, en 5100 metra línan er hægt og bítandi að breiða úr sér. Vantar ekki mikið upp á að faðma allt Norður-Íshaf.

Ísland er þarna í mikilli sunnanátt milli kröftugrar fyrirstöðuhæðar yfir Skandinavíu og nokkuð öflugrar lægðar nærri Suður-Grænlandi. Rétt sunnan við Ísland er nokkuð snarpt smálægðardrag sem í þennan mund hreyfist til norðvesturs. Sjá má önnur lægðardrög sunnar - þau eiga ekki að koma nema óbeint við sögu hjá okkur - og þá þannig að þau sleppa skömmtum af hlýju lofti norður í átt til okkar.

Því er spáð að fyrirstöðuhæðin styrkist lítillega fram á föstudag og nái þá upp í 5820 metra. Það er óvenjulegt svo norðarlega á þessum tíma árs. Metið yfir Keflavíkurflugvelli í nóvember sýnir svipaða hæð og endurgreiningin ameríska sem hér er oft til vitnað er sammála, þetta gerðist fyrstu daga nóvembermánaðar 1956. Þótt fyrirstaðan eigi aðeins að linast eftir þetta á hryggurinn sem við sjáum á kortinu yfir Labrador á að teygja sig austur um Ísland og endurnýja fyrirstöðuna - líklega vestar en hún nú er - en þá ekki eins öflug og hún nú er. Allt eru það vangaveltur og sýnd veiði en ekki gefin. Fyrirstöður hafa verið algengar yfir Skandinavíu nú í haust - ætíð komið aftur þótt þær hafi horfið - dularfullt mál.

Aðalkuldapollur norðurhvelsins er um þessar mundir yfir Austur-Síberíu - eiginlega eins langt frá okkur og hugsast getur á þessum árstíma. Gríðarlega snörp smábylgja er á kortinu yfir Alaska. Hún tengist fárviðrislægð sem þar er í þessum skrifuðum orðum að dýpka niður fyrir 950 hPa. Vindhraða í 850 hPa þar spáð upp í meir en 50 m/s.

Hluti vesturstrandar Alaska verður fyrir þessu mikla veðri. Bærinn Nome hefur nokkrum sinnum orðið fyrir veðrum af þessu tagi. Frægast þeirra gerði í október 1913. Svo slæmt varð það veður að fréttir af því bárust inn á siður íslenskra fréttablaða (sjá timarit.is). Erlendar bloggsíður segja illviðrið sem nú skellur þar á ekki eiga sinn líka síðan þá (er okkur bloggurum treystandi fyrir slíku mati?). En 1913 eyðilögðust 500 hús á sjávarkambinum í Nome en þá var þar nýlega gengið yfir gullæði - og fólksflótti var hafinn áður en veðrið gerði. Verslunarhverfi bæjarins rústaðist gjörsamlega (sjálfsagt tómt að hluta eftir bóluna). Að sögn eru strendur Alaska sérlega viðkvæmar fyrir sjávarflóðum á þessum tíma árs. Athyglisvert.

Fárviðri eru algengari á haustin og síðvetrar heldur en yfir háveturinn við norðanvert Kyrrahaf, Menn hafa þó mismunandi skoðanir á ástæðum þessa.

Einnig má á kortinu sjá öflugan kuldapoll í námunda við Kaspíahaf og Volgubakka. Hann hreyfist til vestsuðvesturs í stefnu á Balkanlönd - útlit er fyrir snarpa vetrarbyrjun þar um slóðir í kringum helgina. Hvort fréttist af því hér á landi fer eftir gúrkutíðinni á fjölmiðlunum - Balkan er það langt í burtu frá kastljósinu. Það er styttra til Kaliforníu á fjölmiðlakortinu - þeirra kuldapollur veldur væntanlega rigningum þar um helgina þegar hann fer hjá eða gengur á land - en of snemmt er nú að spá þar flóðum. Skammvinnt kuldakast gerir einnig í norðausturríkjum Bandaríkjanna næstu daga samfara lægðardraginu sem sjá má á kortinu. Svo er stafrófsstormurinn Sean í námunda við Bermúda - en er óttalegt örverpi.

Nóg er því um að vera víða um norðurhvel og sjálfsagt ekki nærri því allt talið. En hér á landi er spennandi að fylgjast með vinda- og hitafari næstu daga og síðan hvort til verður háþrýstibrú yfir Ísland, á milli hæðarhryggjarins í vestri og fyrirstöðunnar í austri eftir helgina.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Trausti

Varðandi óveðrið í Alaska:

Á vefsíðunni Live Science http://www.livescience.com/16941-alaska-dangerous-storm-explained.html  er grein frá því gær sem byrjar þannig:

"An extremely dangerous storm is slicing toward northwestern Alaska and is expected to bring blizzard conditions and hurricane-strength winds to the state's west coast. The storm, which formed from a mix of air masses over an area of ocean prone to spinning up strong storms, could be bigger than anything ever seen in the 49th state, the National Weather Service warned...

..."This will be extremely dangerous and life-threatening storm of an epic magnitude rarely experienced," read a statement from the NWS. "All people in the area should take precautions to safeguard their lives and property...""

Ágúst H Bjarnason, 9.11.2011 kl. 14:53

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka þér fyrir Ágúst. Fjölmiðlar hafa af einhverjum ástæðum sýnt þessu veðri áhuga. Ég hef ekki frétt svo mjög af vindhraðanum ennþá - hæsta talan sem ég hef séð eru 31,3 m/s í meðalvind - en nú veit ég ekki hvort alaskamenn miða við 1-mínútu eða 10-mínútna meðaltal. Þetta er svipaður vindhraði og mældist á Hólmsheiði í fyrrinótt. En mjög mikið tjón yrði hér niðri í bænum í vindhraða sem þessum. Sömuleiðis er afleitt að fá 30 m/s upp á land við lága strönd - eins og víða mun vera í byggðum Vestur-Alaska.

Trausti Jónsson, 10.11.2011 kl. 00:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 85
  • Sl. sólarhring: 151
  • Sl. viku: 2006
  • Frá upphafi: 2412670

Annað

  • Innlit í dag: 82
  • Innlit sl. viku: 1756
  • Gestir í dag: 78
  • IP-tölur í dag: 72

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband