Ofviðrastefnur á Íslandi - áhrif Grænlands

Við lítum nú á einskonar vindrós. Hún á að sýna áttatíðni ofviðra hér á landi. Reikningurinn fór fram þannig að fyrst var ákveðið hverjir ofviðradagarnir eru. Það var gert með því að reikna hlutfall veðurathugana þegar vindur var meiri en 17 m/s og allra veðurathugana sama dags. Ef meir en 14% athugana náðu vindmörkunum var dagurinn talinn með. Eftir að dagarnir voru afhjúpaðir var meðalvindstefna þessara hvössu vinda dagsins reiknuð og flokkuð á 36 vindstefnur (10° nákvæmni). Þá kom út þessi mynd (hér lögð ofan á kort af svæðinu kringum Ísland - kortagrunninn gerði Þórður Arason).

w-blogg191011b

Tíðnin er sett fram í formi vindrósar, sem flestir ættu að kannast við. Tíðni vindáttar er því meiri sem brún vindrósarinnar nær lengra frá miðpunkti. Stefnur eru þannig að tíðni norðanáttar er beint upp á myndinni, sunnanáttar niður, austanáttar til hægri o.s.frv. Kvarðinn er ekki aðalmálið hér en þess skal samt getið að vindáttin 70° (austnorðaustur) er tíðust ofviðraátta með 7,3% ofviðradaga í sínum hlut.

Aðalatriðið á þessari mynd er að vindáttir í stefnu frá Grænlandi eru sárasjaldgæfar. Mjög fá ofviðri eru úr átt sem er vestan við Scoresbysund og norðan við stefnu að Hvarfi á suðurenda Grænlands. Þetta er varla tilviljun. Það kemur e.t.v. meira á óvart að ofvirðri úr stefnum til Grænlands eru líka fátíð, suðsuðaustanáttin er undantekning.

Reyndar er það þannig að stefnur í landslagi á Íslandi eru líka þessar. Ég held ég klæmist ekki mikið á staðreyndum með því að halda því fram að stefnan norðvestur til suðausturs sé sjaldgæfari heldur en aðrar í landslaginu. Mig minnir að ég hafi einhvers staðar séð landslagsrós sem sýnir þetta, en ég man ekki hvar (allmörgum berggangarósum man ég þó óljóst eftir). Kannski að hið góða misminni mitt sé enn að búa til myndir sem eru hvergi til. Ef út í það er farið ráðast strandarstefnur Grænlands mót austri af þeim sömu fyrirbrigðum og búa til landslag á Íslandi. Kannski að hin skarpa beygja við Scoresbysund sé sú sama og beygjan skarpa á gosbeltinu nærri Bárðarbungu og Kverkfjöllum - ekki veit ég um það.

Eftir að menn hafa séð þetta kort - sem byggir á vindáttum í athugunum en ekki lögun þrýstisviðsins sem skapar vindinn er eðlileg næsta spurning hvort það sama eigi við þrýstivindáttir - er líka eyða í þeim af völdum Grænlands? Við svörum því ekki að þessu sinni.

Áhrif Grænlands á stefnu vinds við Ísland eru því meiri eftir því sem vindur er hvassari. Vindrós sem sýnir vigurvindáttir alla daga (ekki aðeins illviðradagana) lítur ekki eins út og þessi. Þar eru norðvestan og suðaustanáttir til, norðvestanáttin þó mun sjaldgæfari heldur en suðaustanátt. Sömuleiðis er tíðni norðaustlægu áttanna áberandi meiri en þeirra suðvestlægu. Vestlægu illviðrin eru því tiltölulega algengari heldur en þau „ættu“ að vera miðað við hina almennu vindrós.

Höfum í huga að niðurstöður úr vigurvindáttatalningu og hefðbundinni áttatalningu eru ekki endilega eins. Kannski að við lítum á hefðbundnar hvassviðravindrósir síðar - .


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg170125ha
  • w-blogg160125c
  • w-blogg160125b
  • w-blogg160125a
  • w-blogg140125b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.1.): 405
  • Sl. sólarhring: 476
  • Sl. viku: 2674
  • Frá upphafi: 2433399

Annað

  • Innlit í dag: 364
  • Innlit sl. viku: 2282
  • Gestir í dag: 331
  • IP-tölur í dag: 321

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband