Norðanáhlaup - en hvaða gerðar?

Að sögn spámanna er talsvert norðanáhlaup í vændum, það á að byrja á Vestfjörðum á sunnudag (16. október) en breiðast síðan yfir mestallt landið á mánudaginn - en síðan ganga niður á þriðjudag. Hér þarf enn einu sinni að minna á að hungurdiskar gera ekki veðurspár - en fjalla um þær. Þeir sem eiga eitthvað undir veðri finna raunverulegar spár á vef Veðurstofunnar og víðar.

Norðanáhlaup eru margra gerða og mætti skrifa um þær langt mál - mjög langt mál. En það veður sem nú er spáð er ágætt dæmi um eina gerð þeirra, þá sem óformlega er nefnd Grænlandsstífla. Ef út í það er farið má flokka stíflu þessa í nokkra undirflokka, en við látum þau skemmtifræði liggja milli hluta að mestu.

Grænlandsstífla einkennist annars vegar af miklum norðaustanstreng í jaðarlaginu, neðstu 1 til 3 km lofthjúpsins meðfram Grænlandsströnd. Hins vegar ríkir flatneskja, mun minni vindhraði og oftast önnur vindátt þar fyrir ofan. Spákortin tvö sem við sjáum hér að neðan eru (saman) gott dæmi um þetta. Það fyrra er 500 hPa hæðar- og þykktarkort eins og hér hefur oft sést áður. Það gildir kl. 18 sunnudaginn 16. október.

w-blogg161011a

Svörtu heildregnu línurnar á kortinu sýna hæð 500 hPa flatarins í dekametrum , en rauðu strikalínurnar tákna þykktina, hún er einnig mæld í dekametrum (dam = 10 metrar). Því meiri sem þykktin er - því hlýrra er loftið. Því þéttari sem svörtu hæðarlínurnar eru því hvassara er í 500 hPa-fletinum en hann er, eins og kortið sýnir í 5 til 6 kílómetra hæð.

Lægðin suðaustur af Íslandi hreyfist hægt til austurs. Norðan við hana er langt bil á milli jafnhæðarlína (svartar). Vindur liggur samsíða línunum. Við sjáum vel hvernig hann liggur þvert á jafnþykktarlínurnar (rauðar) og ýtir þeim til norðvesturs, eins og litlu rauðu örvarnar eiga að sýna.

Af legu þykktarlínanna getum við séð hvar kalda loftið er, við Scoresbysund á Norðaustur-Grænlandi má sjá 5160 metra þykktarlínuna. Þar er frost og kuldi. Vön augu sjá af mynstri hæðar- og þykktarlína að talsverð norðan- og norðaustanátt er á því svæði þar sem jafnþykktarlínurnar liggja frá suðvestri til norðausturs. Hægt er að reikna út hversu mikil hún er með því að draga þykktargildin frá hæðargildunum. Það gerðu veðurspámenn oft og iðulega hér á árum áður - en nú nennir því ekki nokkur maður. Því við lítum bara á næsta kort úr tölvuheimum.

w-blogg161011b

Kortið er vinda- og hitaspá hirlam-líkansins fyrir 925 hPa-flötinn. Sá flötur er í um 600 metra hæð frá jörðu. Vindörvar (svartar) eru að hefðbundnum hætti, vindurinn liggur í stefnu langhliða örvanna en vindhraði er gefinn til kynna með þverstrikunum. Þverstrikin liggja ætíð inn að lægri þrýstingi. Þverstrikin eru þriggja gerða, mest áberandi eru fánar, svartir þríhyrningar og tákna þeir 25 m/s. Lengri þverstrikin tákna 5 m/s hvert og stutt eru 2,5 m/s.

Við sjáum vel hvernig gríðarlegur vindstrengur liggur frá Norðaustur-Grænlandi, þar er vindur 25 til 35 m/s á allstóru svæði. Strikin eru jafnhitalínur, bláar (strikaðar) þar sem hiti er undir frostmarki, græna línan sýnir frostmark en rauðar heildregnar línur sýna hita yfir frostmarki. Hitinn er hæstur fyrir austan land, þar er svæði þar sem hann er +4°C. Kaldast er við Norðaustur-Grænland, -14°C.

Í kalda loftinu er ás (merktur með stórri blárri ör), loft hlýnar þaðan til beggja átta. Yfir Vesturlandi má sjá að vindörvarnar liggja ekki samsíða jafnhitalínunum heldur ýtir vindurinn kaldara lofti til suðurs. Fyrir norðaustan land sjáum við vind ýta hlýju lofti til vesturs - og halda við norðaustanstrenginn. Nú á það að gerast að hlýja aðstreymið á að minnka, við það minnkar aðhaldið sem strengurinn hefur til austurs (annar stíflugarðurinn). Hann breiðir þá úr sér og kemst suður um allt Ísland. Aðalstíflan, vestan við kuldastrenginn, hreyfist auðvitað ekki neitt því það er Grænland sjálft.

Vindstrengur sem þessi er mjög algengur, oft þrýstir hlýja loftið honum vestur fyrir miðlínu milli Íslands og Grænlands en stundum nær hann hingað til lands. Á Vestfjarðamiðum er oft eins og veggur milli ofsaveðurs af norðaustri og hægviðris næst landi. Það er auðvitað mjög misjafnt hversu mikið er af köldu lofti á þessum slóðum og hversu ört það er endurnýjað. Aðhald hlýja loftsins er einnig misöflugt - auðvitað. En ættarmótið dylst varla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kærar þakkir fyrir þennan ágæta pistil. Svei mér þá ef maður telur sér ekki trú um að maður skilji eitthvað í mekanisma komandi norðangarðs!

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 16.10.2011 kl. 08:16

2 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Flottur!

Aðalsteinn Agnarsson, 16.10.2011 kl. 12:31

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mættir alveg skrifa langt mál um allar gerðir norðanátta og annarra átta.

Sigurður Þór Guðjónsson, 16.10.2011 kl. 15:09

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

-Með undirflokkum!

Sigurður Þór Guðjónsson, 16.10.2011 kl. 15:22

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Minnst var á fleiri flokka norðanveðra í framhjáhlaupi í pistlum hungurdiska 12. og 18. desember 2010 og líklega einnig í kringum 7. janúar 2011.

Trausti Jónsson, 17.10.2011 kl. 01:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg160125c
  • w-blogg160125b
  • w-blogg160125a
  • w-blogg140125b
  • w-blogg140125b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.1.): 33
  • Sl. sólarhring: 565
  • Sl. viku: 2302
  • Frá upphafi: 2433027

Annað

  • Innlit í dag: 29
  • Innlit sl. viku: 1947
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 28

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband