Másað um gervihnattarmynd

Hér verður másað um gervihnattamynd kvöldsins (fimmtudag 13. október 2011 kl. 23). Ekki verður margt skýrt út - en bent á því fleiri atriði sem geta gefið tilefni til frekari umhugsunar. Verst hvað myndin verður léleg hér á blogginu - en ég held samt að eitthvað sjáist.

w-blogg141011b

Lægð dagsins er á Grænlandshafi og kuldaskil yfir landinu á leið austur. Þetta er hitamynd, því kaldara sem svæði er - því hvítara sýnist það. Hvítustu skýin eru mjög hátt á lofti og mjög köld. Þau hæstu jafnvel uppi við veðrahvörfin.

Gulbrúnu örvarnar sýna háloftavindrastir. Þær þekkjum við á skörpum, til þess að gera beinum  háskýjabrúnunum. Ekki fylgja þeim alltaf skil við jörð, ef þau gera það eru þau ekki undir skýjabrúninni sjálfri heldur undir skýjaþykkninu - mislangt þó. Þetta vitum við.

Annað á myndinni er ekki alveg jafn augljóst. Pínulítil lægð (litla L-ið á myndinni) er langt suðvestur í hafi. Þrýstigreining bendir til þess að þarna sé að minnsta kosti ein lokuð þrýstilína. En lægðin á sér litla vaxtarmöguleika, ástæðan er ekki einföld - en þó er ljóst að hún nær ekki í neitt ferskt hlýtt loft. Hún strögglar þó, við sjáum votta fyrir blikuskildi með hæðarbeygju (litla, rauða örin), en skjöldur af þessu tagi (á undan lægðarmiðju og með hæðarbeygju) þýðir að loft er að bólgna og breiða úr sér í hlýju aðstreymi.

Nú kemur að dálítið erfiðum hlut. Lægðakerfi geta verið til og hreyfst án þess að inni í kerfunum séu lokaðar þrýstilínur. Þetta gerist þegar þau liggja í heilu lagi í yfirgripsmiklum vindstrengjum. Hringrásin sýnir sig ekki af því að vindar bera kerfið svo hratt áfram. Sé grannt skoðað kemur þó í ljós að austan við miðju kerfisins er vindhraði meiri en hann ætti að vera, en minni vestan þess (sé kerfið allt á leið norður).

Lægðin litla á þannig (sé að marka tölvuspár) að straujast út, en úrkomubakki tengdur henni á að fara yfir landið annað kvöld (föstudagskvöld) - spennandi að fylgjast með því - eða hvað.

Á myndinni ef ég einnig sett fullt af bókstöfum (a til f). Sé myndin skoðuð í smáatriðum má sjá að hver bókstafur um sig er tengdur ákveðnu útliti skýjanna á svæðinu. Svæðin a, b, c og d mynda öll aflöng belti skýja af svipuðu útliti, aflöng í stefnu vindáttarinnar. Svæði a sýnir risastóra flákaskýjabreiðu. Þar takast á niðurstreymi sem vill bæla skýin og uppstreymi sem myndar þau, toppar þeirra fletjast út. Á svæði b er uppstreymið nægilega mikið til að búa til skúra- eða éljaklakka. Eftir því sem austar dregur hvítnar í toppana og við bókstafinn f - skammt suðvestur af Íslandi eru þeir orðnir alveg hvítir. Hugsanlega ná þeir langleiðina upp í veðrahvörfin (varla þó).

Svæði c, d og e eru undir sterkum áhrifum Grænlands. Svæði c er tiltölulega skýlaust, ekki gott að segja hvort það er vegna þess að það er upprunnið í niðurstreymi yfir suðvestanverðu Grænlandi eða er tengt uppstreymislátum í kringum aðallægðarmiðjuna vestast á Grænlandshafi. Ekki veit ég hvers vegna svæði d er flákaskýjað (en c-skýlaust). Skýringar geta verið ýmsar. Vindhraði er ábyggilega mjög misjafn við Grænlandsströnd og við hafsvæðið þar utan við. 

Svæði e markar mesta niðurstreymið austan Grænlands. Sjá má fleiri smáatriði nærri lægðarmiðjuna á Grænlandshafi. Þegar myndarlegar lægðir eins og þessi grynnast myndast oft litlir sveipir í kringum miðjuna. Ég reyni að skýra það síðar - ef sérstaklega skýrt dæmi um það birtist einhvern tíma í vetur. En nóg að sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg140125b
  • w-blogg140125b
  • w-blogg140125b
  • w-blogg140125a
  • w-blogg130125f

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.1.): 415
  • Sl. sólarhring: 569
  • Sl. viku: 2318
  • Frá upphafi: 2432857

Annað

  • Innlit í dag: 364
  • Innlit sl. viku: 1952
  • Gestir í dag: 340
  • IP-tölur í dag: 328

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband