Vetur og sumar takast á

Á þessum tíma árs fara átök veðrakerfa vaxandi á Atlantshafi og gera spár ráð fyrir talsverðum hitasveiflum hér á landi næstu daga. Við skulum líta á stöðuna eins og henni er spáð á morgun (þriðjudag 11. október).

w-blogg111011a

Þetta er kort sem sýnir spá hirlam-líkansins um hæð 500 hPa-flatarins og þykktarinnar á hádegi 11. október. Svörtu heildregnu línurnar á kortinu sýna hæð 500 hPa flatarins í dekametrum , en rauðu strikalínurnar tákna þykktina, hún er einnig mæld í dekametrum (dam = 10 metrar). Því meiri sem þykktin er - því hlýrra er loftið. Því þéttari sem svörtu hæðarlínurnar eru því hvassara er í 500 hPa-fletinum en hann er, eins og kortið sýnir í 5 til 6 kílómetra hæð.

Mikill munur er á hæð 500 hPa flatarins syðst og nyrst á kortinu (rúmir 700 metrar). Þessi bratti á milli skapar mikinn vind. Hann er langmestur þar sem línurnar eru þéttastar yfir Norðursjó og Danmörku. Enn meiri munur er á þykktinni þar sem hún er mest og minnst, um 800 metrar. Það jafngildir um 40 stiga hitamun. Mest er þykktin við norðvestanverðan Pýreneaskaga, yfir 5700 metrar. Það er meira en mælst hefur hér á landi - rúmlega sumarblíða.

Minnst er þykktin aftur á móti yfir Norður-Grænlandi. Þar sjáum við í 4920 metra jafnþykktarlínuna. Minnsta þykkt sem vitað er um hérlendis er um 4900 metrar. Þar er veturinn mættur af fullum þunga. Þeir sem fylgst hafa vel með hjali hungurdiska um þykktina kannast við að alvöruvetur telst kominn á Íslandi þegar 5100 metra línan gerist nærgöngul við landið. Meðalþykkt á vetri er þó talsvert hærri - eða um 5240 metrar. En venjulegur vetur á Íslandi einkennist af eilífum sveiflum á milli 5100 og 5400 metra þykktar. En við getum vonandi fylgst með því öðru hvoru næstu mánuði.

En á korti dagsins má sjá leifar fellibylsins Philippe sem þröngan hring 5580 metra jafnþykktarlínunnar. Leifarnar hreyfast til norðnorðausturs fyrir vestan Ísland. Við Nýfundnaland er allöflug háloftalægð. Hún þokast austur í bili. Lokaðar háloftalægðir eiga alltaf í erfiðleikum að komast til norðurs og þessi getur það ekki á eigin spýtur. Það þarf tvö lægðardrög úr vestri til að hífa hana úr bælinu.

Við sjáum þau sem bláar línur sem merktar eru með tölustöfunum 1 og 2. Þau munu í sameiningu skafa lægðina upp úr farinu, grípa hana til norðnorðausturs, strauja úr henni mestu krumpuna og útkoman verður öflug háloftalægð á Grænlandshafi á fimmtudagskvöld eða þar um bil.

Við þessar aðgerðir berst mjög hlýtt loft úr suðri norður yfir landið. Bjartsýnustu þykktarspár nefna töluna 5580 metra sem möguleika í niðurstreyminu yfir Norðaustur- og Austurlandi um hádegi á fimmtudag. Ætli það sé ekki fullmikið í lagt - en alla vega góð skyndihlýindi þar um slóðir. Aðrir landshlutar mega sjálfsagt þurfa að þola hvassviðri og úrhellisrigningu í hlýja loftinu.

Svo tekur nokkra daga að hreinsa háloftalægðina frá landinu - framtíðarspám ber ekki alveg saman um það hvernig það fer fram. En á þessum tíma árs enda svona átök oftast með því að veturinn stykrkir stöðu sína. Ætli það kólni ekki fljótt aftur eftir skyndihlýindin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg140125b
  • w-blogg140125b
  • w-blogg140125b
  • w-blogg140125a
  • w-blogg130125f

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.1.): 52
  • Sl. sólarhring: 316
  • Sl. viku: 1955
  • Frá upphafi: 2432494

Annað

  • Innlit í dag: 50
  • Innlit sl. viku: 1638
  • Gestir í dag: 50
  • IP-tölur í dag: 48

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband