Af hnúkaþey

Sumir skrifa hnjúkaþeyr - alveg jafn rétt. Við lá að pistill dagsins yrði löng útlistun á fjölda afbrigða fyrirbærisins- en hér er flest í hófi. Fjalla má nánar um málið síðar. Hvað eru hungurdiskar oft búnir að lofa framhaldi sem ekki kemur?

En um hnúkaþey. Það er hlýr vindur sem stendur af fjöllum. Lítum á einfalda mynd. Hún er reyndar svo einföld að hún á það varla skilið að kallast skýringarmynd. Frekar er um minnisriss að ræða.

w-blogg280911ab

Myndin á að sýna þversnið af fjalli eða öllu heldur fjallgarði. Rauðu örvarnar sýna vindstefnu. Í efra tilvikinu fer loftið fyrst upp fjallið til vinstri og síðan niður það hinu megin. Í neðra tilvikinu kemur loftið að fjallinu frá vinstri og fer síðan niður það hægra megin.  

Sé einhver munur að ráði á hita sitt hvoru megin við fjall eða fjallgarð grípa menn ósjálfrátt til hugtaksins og segja hnúkaþey valda hitamuninum. Þetta er strangt tekið nokkuð subbulegt, því hér er í raun um fleiri en eitt fyrirbrigði að ræða.

Hinn sígildi hnúkaþeyr sem kynntur er í flestum kennslubókum er í raun og veru sjaldgæfur í hreinni mynd (efri hluti myndarinnar). Hann hefst með því að rakamettað loft er þvingað upp fjallshlíð, yfir fjallið og niður hinu megin. Rakamettaða loftið kólnar votinnrænt upp fjallið (hér á landi nokkurn veginn 0,6°/100m) og rakinn fellur út sem regn.

Ef fjallið er 1000 m hátt og loftið var upphaflega 10°C er það því 4°C uppi á fjallsbrún. Þegar það berst niður aftur hitnar það þurrinnrænt (um 1°C/100m). Hitinn við rætur fjallsins hlémegin er þá 14°C. Hitamunur áveðurs og hlémegin við fjallið er því 4°C. Ef fjallið er 1500 m verður munur í sama dæmi 6°C. Takið eftir því að gert var ráð fyrir því að loft væri rakamettað að sjávarmáli áveðurs við fjallið. Það er frekar sjaldgæft, þannig að oftast getur sá litli hitamunur sem þessi sígildi „kennslubókahnjúkaþeyr” orsakar ekki einu sinni orðið þetta mikill. 

Miklu algengara er að kalda loftið áveðurs við fjallið sé ekki sama loft og það sem streymir niður fjallshlíðina hinu megin. Áveðursloftið stígur þá ekki upp heldur stíflar fjallið framrás þess, við köllum þetta framrásarstíflu. Hitahvörf mynda eins konar lok yfir kalda loftinu og úrkoma þar er þá oft lítil sem engin, e.t.v. aðeins dálítil súld. Í þessari stöðu getur jafnvel verið mikill hitamunur á láglendinu sitt hvoru megin fjallsins þó vindur sé enginn á báðum stöðum. Samt heyrist orðið hnjúkaþeyr notað í tilvikum sem þessum, en sú notkun er tæknilega röng. Þessi staða er mjög algeng hérlendis.

Sé niðurstreymi á hlýju hliðinni (vindur af fjallinu) sem veldur því að loftið getur hitnað þurrinnrænt er hins vegar um „raunverulegan” hnjúkaþey að ræða þó ekki sé hann að kennslubókarhætti. Neðri hluti myndarinnar á að sýna þetta. Í þessu stífludæmi fer kalda loftið aldrei yfir fjallskambinn, en hlýja loftið sem streymir niður úr 1000 m hæð hlýnar jafn mikið og í fyrsta dæminu (10°C). Þá getur hitamunur milli láglendis áveðurs og hlémegin verið mun meiri en í sígilda hnjúkaþeynum.

Nú má flækja málið frekar - en lesendum látið það eftir. Til hugarhægðar má nefna að það tók mig talsverðan tíma á unglingsárum að átta mig á hnúkaþey að kennslubókarhætti og síðan aftur enn meiri tíma að átta mig á því að kennslubækurnar segðu ekki nema lítinn hluta sannleikans. Enn meiri tími fór síðan í afganginn (sem ekki er nefndur hér).

Hvað sem öðru líður: Við megum alls ekki gerast svo kröfuhörð að hugtakið detti úr notkun vegna þess að því fylgi svo mikill fræðilegur línudans að enginn þori að nota það af ótta við að verða sér til skammar. Nei, smáatriðin eru aðeins fyrir nördin. Hinir geta haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Ég held þrátt fyrir allt að rétt sé að skrifa orðið með j-i.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Getur verið að það sé landshlutabundið hvort fólk talar um hnúk eða hnjúk? Hér í Skagafirði tala innfæddir um Mælifellshnjúk án þess að blikna né blána.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 28.9.2011 kl. 05:36

2 identicon

E.t.v. hefði mátt minnast á hvaðan sú orka kemur sem veldur hækkuðu  hitastigi í hnúkaþey.

Sveinn Sigurjónsson (IP-tala skráð) 28.9.2011 kl. 08:50

3 identicon

..........við þéttingu rakans losnar orka sem skilar sér til baka þegar loftið

er á niðurleið í rússíbananum og það með vöxtum , það þornar og þenst út,

auk skriðþungans . Og það er réttara að tala um " hnjúkaþey" . ( sjá ágæta

grein á " vísindavefnum" ) Í Skaftafellsýslu , þaðan sem orðið er upprunið , er

sjaldan eða aldrei talað um " hnúka" , heldur  "hnjúka" . En greinin hér er

fróðleg og ekki verra að vita að þetta fyrirbrygði  býr yfir fleiri leyndardómum

en hér eru nefndir. Myndirnar eru snilldarskýrar.

óli Hilmar Briem Jónsson (IP-tala skráð) 28.9.2011 kl. 13:33

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Sveinn. Jú, ég hefði mátt minnast á það - en ætla samt að geyma nánari skýringu, þar kemur hinn hræðilegi mættishiti nefnilega við sögu. Óli Hilmar bendir réttilega á það að dulvarmalosun sú sem holdgerist í rigningunni er einkenni skólabókahnjúkaþeysins.

Trausti Jónsson, 29.9.2011 kl. 21:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 16
  • Sl. sólarhring: 211
  • Sl. viku: 981
  • Frá upphafi: 2420865

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 862
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband