Lægðakerfi í endurskipulagningu

Kortið sem var sýnt hér á hungurdiskum í gær sýnir ástandið í 500 hPa fletinum á norðurhveli. Það er spá sem gildir á morgun (þriðjudaginn 27) kl. 12. Þar má m.a. sjá gríðarlegt lægðardrag yfir Norður-Atlantshafi. Við lítum nú aftur á þetta sama lægðardrag og á spá sem gildir aðeins sex klukkustundum síðar, þriðjudaginn 27. kl. 18. Á korti dagsins sjáum við lítið annað en lægðardragið enda er minna svæði undir.

w-blogg270911a

Svörtu heildregnu línurnar á kortinu sýna hæð 500 hPa flatarins í dekametrum , en rauðu strikalínurnar tákna þykktina, hún er einnig mæld í dekametrum (dam = 10 metrar). Því meiri sem þykktin er - því hlýrra er loftið. Því þéttari sem svörtu hæðarlínurnar eru því hvassara er í 500 hPa-fletinum en hann er, eins og kortið sýnir í 5 til 6 kílómetra hæð.

Smjöttum nú aðeins á kortinu. Heldur flöt lægð er á því miðju en kringum hana liggur þó vindstrengur og afmarkar hann lægðardragið í stórum dráttum. Ég hef merkt inn á kortið fjögur lægðardrög með gulbrúnum línum. Dragið sem er við Nýfundnaland hefur kalt loft í bakið en erfiðara er að sjá hvaða tak hin drögin hafa á jafnþykktarlínunum. Austan við kerfið er þó mjög ákveðið aðstreymi af hlýju lofti (rauð stór ör). Þar er 5460 metra þykktarlínan ákveðinni í framrás.

Þetta hlýja loft lendir yfir Vestur-Evrópu og veldur miklum hlýindum, jafnvel yfir 25 stigum þar sem best lætur. Mjög greinilega sést á myndinni að jafnþykktarlínurnar á þessum slóðum hafa ekki tekið á sig lögun jafnhæðarlínanna í kringum hæðina, enda er hún að byggjast upp og á (í 500 hPa) að ná upp undir 5900 metra síðar í vikunni - það er óvenjulegt.

Lægðardrögin þrjú, austan lægðarinnar eru í óþægilegri stöðu, vindur blæs að nokkru samsíða þeim og það er ekki hollustumerki. Skilafúsir teiknarar geta ef þeir vilja dregið margföld kulda- eða hitaskil eða eitthvað þarna undir. Tölvuspárnar eru meira að segja ekki mjög samstíga í því hve veigamiklar þær lægðabylgjur verða sem skjótast norður þetta flókna súpusvæði. En blaut er súpan á Suðurlandi næstu daga.

Það tekur sjálfsagt tvo til þrjá daga fyrir kerfið að endurskipuleggja sig þannig að einhverjar hreinar línur náist. Fyrir tíma tölvuspáa var nánast útilokað að segja til um þróun kerfis af þessu tagi meir en sólarhring fram í tímann. Tölvuspárnar næstu daga eru heldur ekki alveg vissar um hvernig fer með lægðardragið við Nýfundnaland. Nær það hingað til lands? Rignir mikið ef svo verður?

Mér þótti orðalag á veðurfréttavef BBC heldur óvenjulegt í gær. Spáð var miklum hlýindum á Bretlandseyjum - þó ekki methlýindum - en hiti yrði þó 10 stigum ofan við meðallag. Það þætti nú harla gott í Reykjavík að fá dag með 10 aukastigum upp á við, 16 stiga meðalhita og hámarki yfir 19 stigum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 13
  • Sl. sólarhring: 156
  • Sl. viku: 1934
  • Frá upphafi: 2412598

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 1687
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband