Hiti í mismunandi vindáttum í september

Við lítum á meðalhita septemberdaga í Reykjavík og á Akureyri þegar dagar hafa verið flokkaðir eftir meðalvindátt á landinu. Takið eftir því: Meðalvindátt á landinu.

w-blogg240911

Lóðrétti ásinn sýnir hitann í °C en sá lárétti 8 höfuðvindáttir. Miðað er við tímabilið 1949 til 2007 en aðeins í septembermánuði. Bláu súlurnar tákna meðalhita í Reykjavík, en þær rauðu meðalhita á Akureyri. Við sjáum strax að norðlægu áttirnar eru kaldari en þær suðlægu - hvað annað?

Hánorðanáttin er köldust á báðum stöðvum. Suðaustanáttin er hlýjust í Reykjavík, en suðvestanáttin á Akureyri. Sáralítill munur er á hita í sunnanáttinni - Akureyri er þó sjónarmun hlýrri. Suðvestanáttin er greinilega hlýrri á Akureyri heldur en í Reykjavík.

Mestu munar á hita stöðvanna í austanáttinni, en austanáttardagar í september eru nærri þremur stigum hlýrri í Reykjavík heldur en á Akureyri. Í austanátt er loftþrýstingur meiri fyrir norðan land heldur en syðra. Kalt loft norðurundan getur þá hæglega stungið sér undir austanáttina yfir Norðurlandi. Vindur stendur þá inn Eyjafjörð. Það kemur dálítið á óvart að litlu minni munur er í suðaustanáttinni. Hún ræður ekki heldur við stunguloftið.

Hitanum á Akureyri virðist sama um það hvort norðaustan- eða austanátt er ríkjandi á landinu enda er stunguloftið það sama. Norðan- og norðvestanáttin eru hins vegar eindregið kaldari.

Sunnanáttin ræður hins vegar við stunguna. Meir en tveimur stigum munar á hita sunnan- og suðaustanáttar á Akureyri. Myndin segir ekkert um hita þegar suðaustanátt er á Akureyri. Hér er miðað við meðalvindátt landsins alls.

Landslag ræður mjög miklu um vind. Þó er það þannig að vindur blæs trauðla gegn þrýstibratta og vindur blæs því inn Eyjafjörð svo lengi sem þrýstingur við mynni hans er hærri heldur en þrýstingur inni í Eyjafjarðarsveit. Það getur hann verið í suðaustanátt - en síður í sunnanáttinni.

Þetta veldur því að hitaspár fyrir Akureyri geta verið mjög snúnar, alla vega var það þannig þegar ég byrjaði að fást við veðurspár fyrir meir en þrjátíu árum. Var reynsluleysið þá erfitt ungum veðurfræðingnum. Ég geri mér hins vegar ekki grein fyrir því hvort tölvuspárnar hafa nú leyst þennan vanda eða ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Verð að viðurkenna að þetta kemur manni á óvart með suðaustan- og austanáttirnar á Akureyri. Fróðlegt væri að fá samanburð við t.d. Blönduós og Staðarhól í þessu samhengi. Hinsvegar kemur ekki á óvart að almennt séð er hitastig að meðaltali hærra syðra en nyrðra í september. Hafandi verið mikið á ferðinni milli Suður- og Norðurlands síðustu 40 - 50 árin eða svo, þá er tilfinning manns sú að sumarhitinn endist allt að þremur vikum lengur syðra en fyrir norðan. Þó hefði maður haldið að óreyndu að hitastig á Akureyri væri nokkru hærra en bæði austan og vestan Eyjafjarðar.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 24.9.2011 kl. 08:42

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í austan- og suðaustanátt í Reykjavík getur gætt áhrifa frá "hjúkaþey" af Hengli og Bláfjöllum, þótt ekki sé hann eins mikill hlýnunarvaldur og hnjúkaþeyrinn af háu fjöllunum fyrir suðvestan Akureyri.

Ómar Ragnarsson, 25.9.2011 kl. 00:41

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Þorkell. Meðalhiti á Akureyri í september er lítillega hærri heldur en á Bergstöðum, 1971-2000. Meðalhiti á Akureyri var þá 6,7 stig, en 6,4 á Bergstöðum. Á Staðarhóli er kaldara, meðalhiti var 5,6 stig í september sama tímabils. Ómar, það er rétt hjá þér að hafa hnjúkaþey í gæsalöppum. Þetta er mjög margslungið fyrirbrigði - en niðurstaðan er samt svipuð. Austanátt er hlý í Reykjavík m.a. vegna niðurstreymis vestan fjallanna í austri. Stundum er þá miklu hlýrra í Reykjavík heldur en hinn "klassíski hnjúkaþeyr" getur skýrt einn og sér.

Trausti Jónsson, 25.9.2011 kl. 01:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband