Sveiflur í snjóhulu í byggð

Hungurdiskar hafa áður fjallað um snjóhulumat. Veðurathugunarmenn meta hana kl. 9 á hverjum morgni og gefa henni einkunn, alautt, flekkótt eða alhvítt. Þessu mati er síðan breytt í prósentur þannig að snjóhula er talin 100 prósent í mánuði þegar alhvítt er alla daga og 0% ef alautt er allan mánuðinn. Sé snjóhulan talin 50% að meðaltali í mánuði vitum við ekki (af tölunni einni) hvort alhvítt var hálfan mánuðinn og autt afganginn eða flekkótt alla daga mánaðarins. Eins og allir vita eru vetur missnjóþungir.

Þar sem sér til fjalla (en það er víðast hvar á landinu) meta veðurathugunarmenn einnig snjóhulu í 600 til 700 metra hæð á fjöllum í nágrenninu. Snjóhulan er mest á tímabilinu desember til mars. Nú má reikna snjóhulu ársins á ýmsa vegu. Hér er það gert þannig að snjóhula mánaðanna er einfaldlega lögð saman. Talan 300 jafngildir þá þremur alhvítum mánuðum. Líklegast er samt að snjóhula það árið hafi dreifst á fleiri mánuði þótt þeim sé hér þjappað saman i eina samfellu.

Ársmeðaltöl (eða summur) eru langoftast miðuð við almanaksárið. Við gerum hér þá undantekningu að miða við mánaðamótin ágúst/september. Við samanburð kemur reyndar í ljós að ekki munar mjög miklu á snjóhulu þessa árs og almanaksársins. Munurinn er mestur þegar miklar sveiflur eru í snjóhulu síðustu mánaða ársins. En lítum á myndina, hún sýnir meðalsnjóhulu landsins alls.

w-230911_snb_snar

Snjóhuluathuganir byrjuðu hér á landi 1921 en fyrstu þrjú árin voru stöðvarnar svo fáar að ekki er vitlegt að reikna meðaltal. Myndin byrjar því á september 1924 til ágúst 1925, en nær til hausts 2010. Ekki er búið að binda fyrir árið 2011. Rauða línan sýnir 7-ára keðjumeðaltöl (ekki 5 ára eins og misritast hefur á myndinni).

Snjóhulan sveiflast frá því að vera innan við 2 jafngildismánuðir veturinn 2002 til 2003 og upp í að vera meiri en fimm mánuðir 1948 til 1949 og 1950 til 1951. Við sjáum að fyrstu ár 21. aldarinnar voru mjög snjólétt, en jafnframt kemur í ljós að því er skákað af tímabilinu 1959 til 1965. Mér er það tímabil sérstaklega ríkt í minni. Auðvitað komu þá hríðargusur á stangli en sá litli snjór sem kom vestanlands bráðnaði umsvifalaust aftur.

Þá er það og í minni hvað næstu vetur á eftir komu á óvart. Mikill snjór var norðaustanlands 1965 til 1966 en alveg sáralítill suðvestanlands. En frá og með 1966 til 1967 fór aftur að snjóa um land allt - eins og verið hafði áður en snjóleysið skall á. Voru það mikil viðbrigði.

Við sjáum væga leitni niður á við á myndinni. Sé hún tekin bókstaflega hefur snjóatíminn styst um tæpan hálfan mánuð á síðastliðnum 90 árum tæpum. Ólíklegt er þó annað en að miklir snjóavetur birtist hér aftur á næstu árum. Það fer þó eftir því hvernig hitafar þróast.

Mikil tengsl eru á milli meðalhita og snjóhulu ársins. Fyrir hvert stig í hita breytist snjóhula um nærri þrjár vikur að meðaltali. Við sjáum á myndinni að meðalsnjóhula er um það bil 3,5 mánuðir - eða um 15 vikur, meðalhiti í byggðum landsins á því tímabili sem hér er undir er tæp 4 stig. Reikni nú hver sem vill. En trúlega kemur hér meira um þetta merkilega mál síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 19
  • Sl. sólarhring: 213
  • Sl. viku: 984
  • Frá upphafi: 2420868

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 863
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband