Vetrarbyrjun í Norður-Íshafi

Nú mun óhætt að segja að vetur sé byrjaður í Norður-Íshafi. Frost er komið niður fyrir 10 stig á ísbreiðunni. Við sjáum nú bæði 5100 metra þykktarlínuna og 5100 metra hæðarlínuna í kuldapolli sem nú er á hefðbundnum stað við Norðvestur-Grænland. Kíkjum af því tilefni á 500 hPa Norðurhvelskort.

w-blogg170911b

Fastir lesendur kannast við kortið en aðrir verða að fá að vita að höfin eru blá og löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en sú mjóa sýnir hæðina 5820 metra.

Nú verður að bæta því við að mjóu rauðu línurnar eru orðnar tvær, 5820 metra línan er suður yfir Miðjarðarhafi og hörfar lítið, en ef kortið er skoðað í smáatriðum má sjá lítinn rauðan hring við undan Norðvestur-Grænlandi. Þetta er 5100 metra hæðarlínan. Hún hefur ekki sést á korti sem þessu í nokkra mánuði en mun smám saman fara að breiða úr sér á norðurslóðum. Hún mun einnig fara að sjást í djúpum lægðum í námunda við okkur.

Einnig er farið að sjást í 5100 metra þykktarlínuna á sömu slóðum, þar fer veturinn sjálfur. Vonandi mun það dragast langt frameftir hausti að hún komi í námunda við okkur - þykktin hefur t.d. aldrei orðið svo lág í september yfir Keflavík (þar eru háloftaathuganir). Lægsta septemberþykkt sem vitað er um þar í kring er 5130 metrar. Það var þann kalda merkisdag 26. september 1954 og nefndur var hér á hungurdiskum á dögunum. Slíkt ástand er harla óvenjulegt - en kemur auðvitað aftur síðar meir. Við megum vonandi bíða sem lengst.

Lægðabylgjan suðvestur af Íslandi inniheldur leifar fellibylsins Maríu sem vestanvindabeltið tók föstum tökum í dag. Ótrúlega föstum tökum reyndar því ekki tók nema um 4 klst að strauja hringrás Maríu til ólífis nálægt Nýfundnalandi. Hlýja loftið nýtist lægðarkerfinu og lægðarmiðjan á að dýpka um meir en 20 hPa næsta sólarhringinn og jafnframt valda fárviðri undan Labradorströndum. Hingað kemur á sunnundaginn mjó gusa af tiltölulega hlýju lofti (aðeins hlýrra heldur en var í dag - föstudag) með úrkomu og hvassviðri.

Lægðarmiðjan kemur ekki fyrr en síðar og þá væntanlega farin að grynnast verulega. En eins og má sjá á kortinu að ofan er bylgjan býsna stór um sig og ætli það taki ekki mestalla vikuna að losna við hana af svæðinu, hvort sem hún grynnist á staðnum eða fer austur fyrir land. Síðarnefnda kostinn nefna tölvuspár í dag (föstudag).  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8
  • Slide7

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.5.): 120
  • Sl. sólarhring: 136
  • Sl. viku: 1730
  • Frá upphafi: 2465794

Annað

  • Innlit í dag: 107
  • Innlit sl. viku: 1564
  • Gestir í dag: 99
  • IP-tölur í dag: 98

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband