María hresstist snögglega

Stafrófsstormurinn María náði skyndilega fellibylsstyrk í dag eftir að hafa nærri því geispað golunni í gær og fyrradag. En fellibylstilveran stendur ekki lengi því nú tekur kaldur sjór við og stefnumót við vestanvindabeltið. En í kvöld kom ljómandi falleg mynd á heimasíðu kanadísku veðurstofunnar og sýnir hún stöðuna á afskaplega skýran hátt. Textinn hér að neðan er nokkuð tyrfinn - en þið ættuð alla vega að dást að myndinni.

w-blogg160911a

Myndin sýnir norðvestanvert Atlantshaf. Ísland er alveg efst til hægri og ef vel er gáð má sjá austurströnd N-Ameríku til vinstri frá Norður-Labrador ofarlega rétt vinstra megin við miðju og suður að Virginíu í Bandaríkjunum lengst til vinstri.

Fellibylurinn er nú ekki langt frá Bermúda og stefnir á suðausturhorn Nýfundnalands - á annað kvöld (föstudagskvöld) að vera nærri þeim stað sem merktur er X á myndinni. Yfir V-Labrador er lægð (strikalínuhringurinn) sem hreyfist til austurs og verður miðja hennar annað kvöld nærri þeim stað sem merktur er Y á myndinni. Kerfin tvö eiga svo stefnumót á laugardag um það bil þar sem spurningarmerki er sett á myndina. Þá verður fellibylurinn orðinn sundurtættur af vindsniða.

Rétt er að taka eftir lagi skýjabreiðunnar norður af fellibylnum. Vestanvindabeltið er þegar búið að aflaga skýjakerfið í glæsilegan boga - boginn er í hæðarbeygju (fyllir upp í vinstrihandargrip með þumalinn upp - prófið bara). Hlýtt loft að sunnan lendir alltaf í hæðarbeygju. Skýjaröndin austan í Labradorlægðinni er háloftarastarættar. Það er reyndar ekki mjög skýrt á þessari mynd, en rastarkerfin einkennast af skörpum brúnum vinstra megin rastarinnar. Þetta höfum við áður kallað hlýtt færiband, nyrsti hluti þess myndar líka hæðarbeygjuboga. Skýjasveipur Labradorlægðarinnar er aftur á móti í lægðarbeygju (hægrihandargrip - þumallinn upp). Ég hef stækkað út hluta myndarinnar til að skýra þetta betur.

w-blogg160911b

Segja má að lægðin sé samsett úr tveimur minni kerfum með andstæðar beygjur. Skýjakerfi fellibylsins á myndinni er það líka, þar er mjög stórt hæðarbeygjukerfi sem má gróflega segja að gubbist upp og út úr mjög krappri lægðabeygju fellibylsins sjálfs. Það er ekki heiglum hent að segja til um hvernig þessi (fjögur?) kerfi síðan slá sér saman.  

Í fellibylnum er nú mjög hlýtt loft eins og vera ber. Mér sýnist á greiningarkortum mega sjá 5820 metra þykktarlínuna nærri miðju hans. Það er þó aðeins á litlu svæði. Hlýja loftið getur nýst lægðinni allvel en hversu vel verður bara að fá að sýna sig. Spár gera ráð fyrir því að þetta sameinaða kerfi komi hér við sögu á sunnudaginn - en hungurdiskar spá engu um það - en fylgjast með.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 48
  • Sl. sólarhring: 144
  • Sl. viku: 1969
  • Frá upphafi: 2412633

Annað

  • Innlit í dag: 48
  • Innlit sl. viku: 1722
  • Gestir í dag: 47
  • IP-tölur í dag: 46

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband