Dægurlágmörk september í Reykjavík (og smávegis af stafrófsstormunum)

Við segjum að kuldakastið þessa dagana (9. sept.) sé tilefni til að rifja upp dægurlágmörk Reykjavíkur í september. Með því er átt við hver sé lægsti hiti sem mælst hefur einstaka daga mánaðarins. Skipt er í þrjú tímabil - af upplýsingatæknilegum ástæðum (eða heitir það ekki eitthvað svoleiðis) - sjá má þá skiptingu á myndinni.

w-blogg090911

Lárétti ásinn sýnir daga septembermánaðar en sá lóðrétti er hitakvarði. Línur og tákn sýna síðan dægurlágmörkin. Við tökum strax eftir því að þau lækka mjög ört eftir því sem líður á mánuðinn. Frost eru mjög sjaldgæf fyrstu vikuna. Þá eru lægstu þekkt gildi jafnvel ofan frostmarks. Reyndar hefur frosið í ágúst í Reykjavík en það er afarsjaldgæft og telst til tíðinda.

Bláa línan sýnir tímabilið 1949 til 2010. Lægsta gildið er -4,4 stig þann 24. árið 1974. Þá haustaði hastarlega á Íslandi - reyndar hálfum mánuði fyrr ef mig minnir rétt - eftir afargott sumar. Yngsta gildi töflunnar er frá þeim 25. árið 2005 en þá var líka alvarlegt hret sem víða sló met í snjódýpt. Hartnær helmingur núverandi mælistöðva mun eiga sitt mánaðarsnjódýptarmet í þessu hreti, en margar þeirra hafa að vísu ekki mælt snjódýpt lengi.

Rauða linan sýnir met tímabilsins 1871 til 1948. Tuttugu þessara meta eru frá 19. öld og þar með er það sem við verðum að telja opinbert septemberlágmark Reykjavíkur, -4,8 stig frá þeim 29. árið 1899. Lægsta lágmarkið að tiltölu (það sem víkur mest frá meðalleitnilínunni) er frá þeim 13. árið 1882. ´

Græna línan er samsuða enn eldri talna. Jón Þorsteinsson mældi í Reykjavík og Nesi á árunum 1820 til 1854 og Rasmus Lievog í Lambhúsum við Bessastaði á 18. öld. Fáein ár af mælingum hans hafa varðveist, þar á meðal er lægsta septembertala allra tíma, -6,3 stig, frá þeim 30. árið 1782. Reyndar er rökstuddur grunur um að mælirinn sem Rasmus notaði á árinu 1782 hafi sýnt of lágt - þannig að tölurnar eru aðeins ótrúverðugar. Samræming mælinga Rasmusar og mælinga okkar tíma hefur staðið í hálsinum á mér í hátt i 20 ár. Vonandi hósta ég henni þó upp um síðir.

Af stafrófsstormunum er þetta að frétta: Katia er enn fellibylur en fellibyljamiðstöðin í Miami telur að umbreyting í riðalægð verði innan tveggja sólarhringa. Síðan er sama spá og í gær varðandi stefnuna, hún er á Skotland eða þar rétt norðan við. Nokkur munur er hins vegar á styrkspánni, evrópureiknimiðstöðin er aðeins linari heldur en bandaríska spáin. Skaðar gætu orðið miklir á Bretlandseyjum norðanverðum gangi harðari spárnar eftir. Einar Sveinbjörnsson fjallar um Katiu á bloggsíðu sinni.

Stormurinn María er enn í reifum og tekst á við sniðafenið norðaustur og austur af Antilleyjum. Sumar spár eru farnar að gefa í skyn að hann muni komast til Norður-Atlantshafs um síðir - en allt of snemmt er að fullyrða um það. Stormurinn Nate sem liggur í bæli í Campeche-flóa undan Yukatan á að verða að fellibyl hvað úr hverju og enginn veit hvað hann gerir af sér - auk fárviðris er aftakaúrkoma líkleg þar sem hann ber hjá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 90
  • Sl. sólarhring: 155
  • Sl. viku: 2011
  • Frá upphafi: 2412675

Annað

  • Innlit í dag: 87
  • Innlit sl. viku: 1761
  • Gestir í dag: 82
  • IP-tölur í dag: 76

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband