Snjókoma á Grímsstöðum á Fjöllum

Nú er allt í einu vaknaður áhugi um veðurfar á Grímsstöðum á Fjöllum. Rétt er að nota tækifærið og kanna fjölda snjókomudaga í septembermánuði á þeim slóðum í gegnum tíðina. Þar snjóar nefnilega þegar þetta er ritað (miðvikudagskvöldið 7. september 2011). Fáein orð eru um sögu veðurathugana þar á staðnum í fjögurra ára gömlum fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar.

Rétt er að taka fram að fjöldi snjókomudaga segir ekkert um það hversu oft snjó hefur fest á stöðinni. Á haustin er mjög algengt að það snjói án þess að hann festi. Snjókomudagafjöldi getur því miður verið háður athugunarmanni. Sumum finnst ekki taka því að nefna þegar slítur aðeins úr korn og korn og aðrir eiga erfitt með að greina mun á hagli (sem getur gert í talsverðum hita) og snjóéljum - enda getur slík aðgreining verið erfið í stöku tilviki. En lítum á línurit.

w-blogg080911

Lárétti ásinn sýnir ártöl en sá lóðrétti fjölda daga. Meðalfjöldi snjókomudaga í september á Grímstöðum er 4,8. Tvo mánuði vantar í röðina, 1918 og 1990.

Við tökum eftir því að engin leitni er sjáanleg, við fyrstu sýn virðist tíðnin vera tilviljanakennd. Með því að leggja inn síu sem þreifar á margra ára sveiflum (blár ferill) sést hins vegar að tíðnin er hvað lægst þegar hlýjast var á fjórða áratugnum, milli 1930 og 1940 og sömuleiðis nýliðinn áratug en hann hefur einnig verið afspyrnuhlýr. Tíðnihámarkið er hins vegar á árunum í kringum 1990 og annað um og upp úr 1920. Áratugasveiflur í veðurfari sýna sig hér að einhverju leyti.

Það er nýlegur september sem tekur metið, árið 2005, mjög sér á parti á þessum áratug með 18 snjókomudaga. September árið eftir, 2006, var engrar snjókomu getið á Grímsstöðum. Aðrir septembermánuðir með háa tíðni snjókomudaga eru 1979 (þegar ég hélt að ísöld hlyti að vera að skella á) og 1940 en þá var mikil umhleypingatíð um tveggja mánaða skeið frá því í ágúst og fram í október. Þetta var fyrsta hernámshaustið hér á landi.

Mesta snjódýpt á Grímsstöðum í september sýnist mér vera 21 cm sem mældist dagana 10. og 11. 1972, en þá var leiðinda norðvestankuldakast um landið norðaustanvert. Snjódýptarskrár þær sem ég hef við hendina á aðalskrifstöfu hungurdiska eru þó gloppóttar - lesendur virði það til betri vegar.

Fellibylurinn Katia er nú farinn að slappast eins og ráð var fyrir gert og fer að venda til norðurs og síðan norðausturs. Framtíðarspár eru svipaðar og í gær og stefna lægðinni til Hjaltlands. Fari svo fer illviðrið að mestu framhjá Íslandi. Tveir aðrir stafrófsstormar eru komnir til sögunnar: Mariasem er að verða til á svipuðum slóðum og Katia fæddist. Hann á að fara svipaða leið og virðist sömuleiðis lenda í sniðafeni á leið sinni. Hinn stormurinn sem er að myndast er staddur í krikanum norðan við Yúkatanskaga í Mexíkó. Hann hefur fengið nafnið Nate og á að grafa þar um sig í nokkra daga - óvíst er um frekari þróun þar um slóðir. Við gefum Katiu gaum áfram og síðan Maríu ef þannig horfir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Man vel eftir snjókomumánuðinum 1979 en þá fór ég til Grímsstaða til að sýna í sjónvarpsfréttum vetrarríkið, sem virtist vera skollið þar á snemma í september.

Ómar Ragnarsson, 8.9.2011 kl. 13:03

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Já, Ómar þetta er eftirminnilegt. Þann 14. september 1979 festi snjó í skamma stund að morgni hér í Reykjavík og sama dag var blindhríð og þæfingur vestur í Búðardal.

Trausti Jónsson, 9.9.2011 kl. 01:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 96
  • Sl. sólarhring: 156
  • Sl. viku: 2017
  • Frá upphafi: 2412681

Annað

  • Innlit í dag: 92
  • Innlit sl. viku: 1766
  • Gestir í dag: 86
  • IP-tölur í dag: 80

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband