Góður dagur á höfuðborgarsvæðinu - hvaðan kom loftið?

Hér var fyrir hálfum mánuði (18. ágúst) vísað á slóðareikni bandarísku veðurstofunnar (hysplit). Við gerum það aftur í þessum pistli og látum reikna hvaðan loftið sem var yfir Reykjavík í dag var komið - að mati líkansins. Myndin er dálítið erfið en menn ættu þó að átta sig á henni sé athygli stunduð. w-blogg030911

Ferlarnir þrír sýna loft í mismunandi hæð. Eins áður hefur verið sagt felst veðrið í endalausum stefnumótum lofts úr ólíkum áttum - misólíkum þó. Á þessari mynd má sjá að loftið í 300 metra og í 1599 metra hæð hefur undanfarna fjóra daga verið á leið frá Bretlandseyjum eftir að hafa hringsnúist þar. Ekkert fellibyljaloft það.

Ofar, í 5 km hæð, er loftið hins vegar komið að vestan. Neðri hluti myndarinnar sýnir í hvaða hæð loftið hefur verið á ýmsum tímum frá því kl. 6 að morgni 29. ágúst þar til kl. 6 að morgni 2. september - athugið að tímaásinn gengur frá hægri til vinstri. Blái ferillinn (1500 metra hæð) var fyrir fjórum dögum í svipaðri hæð og í lokin eftir að hafa fyrst lent í niðurstreymi og síðan uppstreymi. Uppstreymið er nokkuð mikið og á sér stað á frekar stuttum tíma. Kannski það hafi búið til regndropana síðastliðna nótt. Lægsta loftið er á niðurleið í endann - hefur þá hlýnað um 1 stig á hvert 100 metra sig.

Þegar leið á daginn hefur kannski enn hærra loft blandast inn þannig að hitinn komst í um 18 stig á höfuðborgarsvæðinu - en það er mjög mikið á þeim slóðum í september (samanber metalistann sem birtist í viðhenginu hér á hungurdiskum í gær - merkt 2, september).

Loftið í 5 kílómetra hæð er komið að vestan - reyndar mjög svipaða leið og leifar fellibylsins Irene. Það er gaman að sjá að það hefur verið í 5 km hæð í byrjun reikninganna síðan sigið verulega, allt niður fyrir 2 kílómetra á leiðinni en síðan risið aftur. Mér finnst ekkí ósennilegt að þetta loft hafi einmitt verið á niðurstreymissvæðinu sem við sáum svo vel á gervihnattamynd á dögunum (merkt 31. ágúst - innan rauða sporbaugsins á myndinni). Þetta loft er þó varla hitabeltiskyns þótt hlýtt sé, frostið í 500 hPa var þó aðeins -21 stig yfir Keflavík í dag en það telst hlýtt í þeirri hæð.

Fellibylurinn Katia hefur átt í ströggli í dag. Margs konar plágur herja á fellibylji. Tvær þeirra plöguðu Katiu í dag. Annars vegar þurrt loft og hins vegar vindsniði. Verði loft of þurrt bregst fóðrið  (losun dulvarma) og sé vindsniði of mikill sníðst fellibyljahringrásin bókstaflega í sundur. En ekki er skortur á hlýjum sjó á slóðum Katiu þannig að kannski tekst fellibylnum að hrista af sér þessa óværu.

Svo er vaxandi hitabeltisstormur á Mexíkóflóa og heitir nú Lee - gæti haft áhrif á örlög Katiu. Ég hef einnig séð á það minnst að hitabeltisstormurinn Talas (nú við Japan) muni hoppa á vestanvindabeltið um helgina og geti haft áhrif á langbylgjumynstur lofthjúpsins á Atlantshafi á ófyrirséðan hátt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eru ekki spár um loftslagsbreytingar að rætast? Að hlýnun sjávar muni auka tíðni fellibylja og þar með mun hlýtt loft streyma með þessum byljum norður á bóginn?

http://web.mit.edu/press/2010/hurricane-pliocene.html

Hermundur Sigurdsson (IP-tala skráð) 5.9.2011 kl. 00:42

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Fellibyljalægðir hafa verið mjög mistíðar hér á N-Atlantshafi í gegnum tíðina, stundum koma þær jafnvel fleiri en ein sama árið en stundum líða mörg ár án þess að þeirra verði var. Ekkert mynstur er sjáanlegt - eða ég sé það ekki.

Trausti Jónsson, 9.9.2011 kl. 01:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 96
  • Sl. sólarhring: 156
  • Sl. viku: 2017
  • Frá upphafi: 2412681

Annað

  • Innlit í dag: 92
  • Innlit sl. viku: 1766
  • Gestir í dag: 86
  • IP-tölur í dag: 80

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband