Höfuðdagurinn - enn og aftur

Þá er aftur komið að höfuðdeginum. Þá hafa hungurdiskar lokið sinni fyrri yfirferð um árstíðasveiflu veðursins því fyrsta færsla henni tengd birtist hér á höfuðdaginn 2010. Ekki er ég viss um að margir hafi lesið hana - en auðvitað ættu allir áhugamenn um veður að gera það. En þar með hefst síðari yfirferðin - sem gæti enst fram til höfuðdags 2012. Ekki er komist hjá einhverjum endurtekningum - en fylgir þeim þá eitthvað ítarlegra en áður - kannski líka erfiðara.

Þannig er það í dag - litið er hátt til lofts - alveg upp í 23 til 24 kílómetra hæð. Þar er loftþrýstingur aðeins 30 hPa og 97 prósent efnismagns lofthjúpsins eru neðan við. Þetta er í heiðhvolfinu - heldur neðan miðju þess. Á sumrin nær vestanvindabeltið ekki upp í þessa hæð heldur ríkir þar þá austanátt sem stöku sinnum teygir sig neðar. Við skulum nú kíkja á vindinn.

w-blogg290811_30hPa

Já, þetta er erfið mynd en þrjóskari hluti lesenda ætti nú samt að gefa henni þann gaum sem hún á skilið. Lárétti ásinn sýnir mánuði ársins, mánaðarnafnið er sett á 15. dag hvers mánaðar. Myndin nær yfir eitt og hálft ár. Lóðrétti kvarðinn sýnir vindhraða í metrum á sekúndu.

Lítum fyrst á gráu línuna. Hún sýnir meðalvindhraða. Hann er mikill á vetrum, á milli 20 og 40 m/s en dettur niður þegar nær dregur vori. Hér gerist það í tveimur áföngum, í kringum 25. mars og síðan þann 10. apríl. Þar sem hér er aðeins um meðaltal 11 ára að ræða er líklegt að lengri tími sýni ekki nákvæmlega þessi tvö þrep. En á tímabilinu frá 10 apríl til sumardagsins fyrsta er meðalvindhraði mjög lítill, en þá vex hann heldur og nær hámarki rétt fyrir sólstöður. Síðan minnkar hann aftur og fer nærri því niður í núll síðast í ágúst.

Það vekur athygli að vöxturinn á haustin er miklu jafnari heldur en hrapið á vorin. Á vorin er hreinlega drepið á vetrinum en mun lengri tíma tekur að gangsetja hann að nýju. Á myndinni sést að það hægir mjög á vextinum um miðjan nóvember - en ég veit ekki hvort það stæðist athuganir fleiri ára. Sama má segja um snögga aukningu vinds um áramótin. Ég tek hana vonandi fyrir síðar og kynni heimskautanæturröstina (e. polar night jet) til sögunnar (ef það þykir ekki of erfitt). 

Rauða línan sýnir styrk vestanáttarinnar. Mestallt árið fylgir hún rauðu línunni náið. Það þýðir að vestanátt er eina vindáttin í 30 hPa á þeim tíma. En á sumrin greinast línurnar að. Rauða línan tekur sér neikvæð gildi. Það þýðir á mannamáli að vindur blæs þá af austri.

Það er einmitt í námunda við höfuðdaginn sem vestanáttin kemur úr felum eftir sumarið og gangsetning vetrarins byrjar. Það er makalaust hversu hrein ástíðaskiptin eru í 23 til 24 kílómetra hæð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 154
  • Sl. sólarhring: 213
  • Sl. viku: 1119
  • Frá upphafi: 2421003

Annað

  • Innlit í dag: 136
  • Innlit sl. viku: 985
  • Gestir í dag: 130
  • IP-tölur í dag: 129

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband