Óþægilega lág þykkt um þessar mundir

Landið er enn inni í leiðinlegum kuldapolli miðað við árstíma og spár gefa litla von um breytingar. Lítum á 500 hPa hæðar- og þykktarspákort sem gildir kl. 18 síðdegis á föstudag.

w-blogg190811

Fastir lesendur kannast við táknfræði kortsins en en svörtu heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa flatarins í dekametrum , en rauðu strikalínurnar tákna þykktina, hún er einnig mæld í dekametrum (dam = 10 metrar). Því meiri sem þykktin er - því hlýrra er loftið. Því þéttari sem svörtu hæðarlínurnar eru því hvassara er í 500 hPa-fletinum en hann er, eins og kortið sýnir í 5 til 6 kílómetra hæð.

Við sjáum allmikinn vindstreng liggja þvert yfir Bretlandseyjar og austur um. Hann veldur þar leiðindaveðri og berast þaðan fréttir af bæði flóðum og foktjóni. Við sitjum hins vegar innan við 5400 metra þykktarlínuna. Það þýðir að stórhætta er á næturfrosti á stöðum sem liggja vel við höggi, en það eru dældir og sléttur í landslagi undir heiðum himni og með þurra jörð.

Þessi lága þykkt er þó ekki sérlega óvenjuleg og er varla nógu lág til þess að snjói í fjöll - hvað sem síðar verður. Ameríska tuttugustualdarendurgreiningin giskar á að lágmarksþykktarmet ágústmánaðar hafi verið sett á miðnætti aðfaranótt 27. ágúst 1937 með gildinu 5223 metrum við Suðvesturland. Þar er þykktin nú mæld tvisvar á dag á háloftastöðinni í Keflavík og því notum við punkt þar nærri til metametings. Umræddan ágústdag 1937 mun hins vegar hafa frekar verið um útsynningskulda að ræða heldur en sömu stöðu og nú. En ég þyrfti að athuga það nánar áður en ég segi meira þar um.

Háloftabylgjur sem berast hratt til austurs fyrir sunnan land eins og lægðin vestan Bretlandseyja gerir hafa tilhneigingu til þess að draga veðrahvörfin niður fyrir norðvestan sig. Það styrkir hringrás kuldapolla sem fyrir eru eða býr til nýjar háloftalægðir.

Í þessu tilviki nær kuldapollur sem á kortinu er vestan Grænlands hins vegar undirtökunum næstu daga. Í spám fyrir 1 til 2 dögum var hann talinn líklegur til að bjarga stöðunni með því að grafast svo mikið niður fyrir suðvestan land að hringrásin næði í hlýtt loft úr suðri handa okkur. En - í dag (fimmtudagskvöld)  á hann þess í stað að krækja í enn kaldara loft að norðan.

En við munum auðvitað að fyrst spárnar hafa breyst einu sinni geta þær breyst aftur og aftur þar til stund sannleikans rennur upp.

Þess má geta að föstudaginn 19. ágúst eru hungurdiskar eins árs. Fóru hægt af stað en hafa nú haldið skriði um hríð. Upphaflega hugmyndin var að reyna tveggja ára úthald. Ekki er víst að það takist - en nú er fyrra árið sum sé liðið undrahratt eins og oftast. Þakka lesendum góðar undirtektir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kommenta hér einungis til að þakka fyrir þetta ár, sem komið er af hungurdiskum. Vonast svo sannarlega til að framhald verði á þeim, ómenntað áhugafólk eins og undirritaður fræðist afskaplega mikið á því að lesa þessa skemmtilegu og fróðlegu pistla. Veður og veðurfar skiptir okkur Íslendinga líklega enn meira máli en margar aðrar þjóðir sem búa við stöðugra veðurlag. Þakkir enn og aftur.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 19.8.2011 kl. 05:31

2 identicon

Tek undir með Þorkel og þakka fyrir hungurdiska og allan fróðleikinn sem þar er að finna.

Gunnar Sæmundsson (IP-tala skráð) 19.8.2011 kl. 08:09

3 identicon

Frábær og ómissandi fróðleikur, kærar þakkir.  Ég vona að þú haldir lengi áfram

Ásmundur H. Jónsson (IP-tala skráð) 19.8.2011 kl. 09:14

4 identicon

Þakka liðið ár og segi með öðrum að ég vona að þú haldir áfram enda gaman fyrir leikmenn sem hafa áhuga á verðri að fræðast af fagmönnum. Ef það vex í augum að blogga mörgum sinnum í viku þá er um að gera að blogga 1x í viku, það er alla vega skárra en að þú hættir. :)

Ari (IP-tala skráð) 19.8.2011 kl. 10:56

5 identicon

Tek hressilega undir með síðustu ræðumönnum. Sérlega fræðandi og skemmtilegir pistlar. Ekki spillir fyrir að orðfærið er gott, eins og sæmir fyrrum nemanda Gísla frænda míns Jónssonar frá Hofi í Svarfaðardal.

Áskell Örn Kárason (IP-tala skráð) 19.8.2011 kl. 10:58

6 identicon

Hélaði á bílrúður í Hveragerði í morgun, 19.08.'11. Spámenn á Veðurstofu Íslands verða að fara að huga að hnattkólnun af mannavöldum. Þakkir fyrir að hafa áhyggjur af leiðinlegum kuldapollum miðað við árstíma.

Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 19.8.2011 kl. 20:55

7 Smámynd: Trausti Jónsson

Ég þakka vinsamleg orð í garð hungurdiska.

Trausti Jónsson, 20.8.2011 kl. 01:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg231124-kosningaspa-ec b
  • w-blogg23124-kosningaspa-ec a
  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 17
  • Sl. sólarhring: 218
  • Sl. viku: 2315
  • Frá upphafi: 2413979

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 2130
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband