Hvaðan kemur loftið í dag?

Bandaríska veðurstofan veitir hverjum sem er margskonar aðgengi að gögnum. Þar á meðal er forrit sem reiknar leiðir lofts um lofthjúpinn. Ekki er alveg auðvelt fyrir óinnvígða að fletta sig í gegn um valmyndirnar - en hver sem er getur reynt. Ég spurði nú forritið um hvaða leiðir loftið sem yfir Reykjavík síðdegis miðvikudaginn 17. ágúst hefði farið síðustu fjóra daga. Niðurstöðuna má sjá á mynd.

w-blogg180811a

Efri hluti myndarinnar er kort af norðaustanverðu Atlantshafi. Lituðu ferlarnir sýna leiðir þess lofts sem var kl. 18 í 300 m (rauður ferill), 1500 m (blár) og 5000 m (grænn) hæð yfir Reykjavík. Hér er allt skýrt og greinilegt. Neðsta loftið var fyrir fjórum dögum yfir Grænlandi (enginn asi þar), loftið í jöklahæð (1500 m) var fyrir fjórum dögum yfir Skandinavíu og loftið í 5 km hæð var norðvestur af Skotlandi. Síðastnefndi ferillinn hefur skrúfast í lykkjum í átt til landsins.

Þrátt fyrir ólíkan uppruna er síðasti spölur úr norðri í öllum tilvikunum þremur. Neðri hluti myndarinnar er miklu óskýrari. Lóðréttur ás sýnir þó greinilega hæð í metrum (tölur lengst til hægri) og lárétti ásinn sýnir tíma, þar má sjá daga að amerískum merkingarhætti, 08/17 myndum við vilja skrifa sem 17/8 eða 17. ágúst. Lokatíminn er lengst til vinstri á myndinni síðan eru fjórir sólarhringar til hægri. Fyrsti punktur er þann 13. kl. 18, síðan 14. kl. 00 og áfram til vinstri.

Sökum minniháttar fljótfærni minnar í valmyndavölundarhúsinu valdi ég að hæðarkvarðinn væri í metrum yfir yfirborði jarðar eins og það er í líkaninu, en ekki sjávarmáli - sá valmöguleiki er líka til. Það skiptir nánast engu máli nema yfir Grænlandi. 

Ekki er alveg allt sem sýnist í reikningunum því gefinn er kostur á þrenns konar merkingu þeirra loftböggla sem ferlarnir eru reiknaðir fyrir - niðurstaðan er ekki alveg sú sama fyrir alla möguleika - því meiru munar eftir því sem fleiri dagar eru valdir.

Neðri hluti myndarinnar sýnir að loftið í 5 km hæð (grænt) hefur á undanförnum fjórum dögum hækkað um nærri 3 km (lengst til hægri byrjar græni ferillinn í rúmlega 2 km). Á þessari leið er væntanlega búið að kreista mikinn raka úr loftinu - hann hefur á meðan fallið til jarðar sem regn.

Blái ferillinn byrjaði mjög lágt, hækkaði síðan í tveimur áföngum upp í rúma tvo kílómetra, en seig síðan lítillega. Rauði ferillinn sýnist hafa byrjað í 300 metrum - en það er í þessu tilviki 300 metra yfir Grænlandi eins og það lítur út í líkaninu.  

Velta má vöngum yfir því hvað þetta merkir - of langt mál er að fara út í það. En myndin má vera áminning um það að yfir okkur eiga sér sífellt stað stefnumót lofts sem komið er úr ýmsum áttum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg231124-kosningaspa-ec b
  • w-blogg23124-kosningaspa-ec a
  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 25
  • Sl. sólarhring: 223
  • Sl. viku: 2323
  • Frá upphafi: 2413987

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 2138
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband