Kuldakast á Nýja Sjálandi (ekki veit ég margt um það)

Fréttir berast af kuldakasti með snjókomu á Nýja Sjálandi. Við sem lásum spennusögur Desmond Bagley fyrir um 40 árum vitum að þar snjóar reyndar heil ósköp á hverju ári í fjöllum Suðureyjar - mun meira en hér á landi. Bagley skrifaði spennu- og spillingarsögur og voru þær sumar með jarð- og veðurfræðilegu ívafi. Mig minnir að bók hans um snjóflóð á Nýja Sjálandi hafi heitið „Snow Tiger“ - ekki man ég íslenska heitið (og gegnir.is lokaður í dag).

Snjór mun einnig algengur á láglendi sunnan til á Suðurey en strjálast eftir því sem norðar dregur. Í Wellingtonborg sunnarlega á Norðurey snjóar mjög sjaldan, en samkvæmt bloggsíðu Nýsjálensku veðurstofunnar snjóaði þar nú niður í 100 metra hæð yfir sjó (svipað og hæð Breiðholts hér í Reykjavík). Einnig fréttist af snjóflyksum í Auckland, nyrst á Norðurey en þar munu þær sjást afar sjaldan. En lesendur geta auðvitað náð sér í áreiðanlegri upplýsingar þar syðra heldur en hungurdiskar bjóða upp á.

Tilefni þessa pistils er þykktarkort af svæðinu (þykktartrúboði hungurdiska er ekki lokið).

w-blogg160811a

Kortið er af vef COLA-IGESog sýnir loftþrýsting og 500/1000 hPa-þykkt á hádegi 15. ágúst (mánudag). Þá var komið kvöld á Nýja-Sjálandi. Þykku, lituðu línurnar sýna loftþrýstinginn. Allmikil hæð (1032 hPa í miðju) er suðvestur af Nýja-Sjálandi, en lægð (967 hPa í miðju) er heldur lengra suðaustur af. Milli lægðar og hæðar er mikil og köld sunnanátt úr Suðuríshafi.

Hér sést að vindur blæs öfugt kringum lægðir og hæðir miðað við norðurhvel. Vindur á norðurhveli blæs eins og hægrihandargrip (þumall upp) í kringum lægðir en í vinstrihandargripi (þumall upp) á suðurhveli. Sunnanátt er þar því vestan við lægðir. En samt blæs vindur þó „andsælis“ í kringum lægðir á báðum hvelum, hugsið nánar um það.

Jafnþykktarlínur eru heildregnar á kortinu og þær eru, eins og oftast, merktar í dekametrum. Þykktargildin eru okkur mjög kunnugleg. Kuldapollur með minni þykkt en 5220 metra hefur lokast inni yfir Nýja-Sjálandi. Rétt eins og hér á landi nægir það í snjókomu nema allra næst ströndinni. Ef úrkoman er mikil getur snjóað niður að sjó. Hugsanlega sést í 5160 metra línuna á kortinu yfir fjallgarði Suðureyjar.

Ég veit það ekki með vissu, en trúlega er fremur óvenjulegt að 5280 metra jafnþykktarlínan komist alveg norður fyrir Norðurey. Mér finnst ég hafa séð nokkru lægri tölur en þetta yfir Suðurey - en ekki man ég það með vissu. Vel má vera að talsvert lægri tölur sjáist þar.

Í Suður-Ameríku er kuldakast yfirvofandi. Þar á þykktin yfir Buenos Aires í Argentínu að fara niður undir 5200 metra á laugardaginn - en vonandi eru þær spár vitlausar.

En spár næstu daga gera ráð fyrir því að þykktin yfir Nýja-Sjálandi verði fyrir helgi komin upp fyrir 5400 metra - svipað og nú er hér. Þar er hins vegar vetur en hér er sumrinu ekki lokið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

The Snow Tiger kom út árið 1975 og hét Í fannaklóm á íslensku. Árið 1971 kom út bókin Út í óvissuna (Running blind) og gerðist hún á Íslandi. Bagley skrifaði 16 skáldsögur og hafa þær allar verið þýddar á íslensku. (Vísindavefurinn)

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 16.8.2011 kl. 07:24

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Fréttir frá því dag í New Zeeland Herald:

http://www.nzherald.co.nz/nz/news/article.cfm?c_id=1&objectid=10745421

Ágúst H Bjarnason, 16.8.2011 kl. 09:50

3 identicon

Þakkir fyrir að vekja athygli á óvenju köldum vetri hjá andfætlingum okkar; næst kaldasta degi í Christchurch frá 1918 og kaldasta hausti í Ástralíu frá 1950.

Miðstöð kolefniskirkjutrúboðsins á Íslandi, Veðurstofa Íslands, þarf væntanlega að fara að endurskoða boðskapinn, en vefur Veðurstofu Íslands er nánast einn samfelldur dýrðaróður um guðspjall kolefniskirkjunnar og ástandsskýrslu Milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar (IPCC) sem gefin var út árið 2007.

Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 16.8.2011 kl. 20:26

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Alltaf jafn fróðlegt að sjá menn eins og Hilmar mistúlka veður og blanda því við loftslag og breytingar á því...sjá t.d. ansi skemmtilega mýtu - Það er kalt á Klonke Dinke og því er engin hnattræn hlýnun af loftslag.is. Þessi mýta kemur reglulega upp þegar það eru slegin kuldamet einhversstaðar í heiminum, sem gerist reglulega, þó hitamet virðist vera slegin oftar nú um stundir, sjá t.d. Hitamet mun fleiri en kuldamet í Bandaríkjunum.  En þegar menn eru sannfærðir um samsæriskenningar þar sem Veðurstofan er "miðstöð kolefniskirkjutrúboðsins á Íslandi" sem leikur stórt hlutverk í að boða "dýrðaróður um guðspjall kolefniskirkjunnar" þá er víst ekki að spyrja að túlkununum sem dúkka upp á yfirborðið hjá mönnum eins og Hilmari  

Sveinn Atli Gunnarsson, 16.8.2011 kl. 23:14

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Benedikt: Þakka upprifjun á nafni snjóflóðabókar Bagleys - það er ansi langt síðan hana bar fyrir augu. Ég sá reyndar að söguþráður bókarinnar er rakinn á Wikipediu. Sá lestur bætti engu við minni mitt. Þetta er ágætt yfirlit Ágúst - ítarlegra heldur en ég sá í sama blaði í gær. Allskonar trúboð er stundað hér á hungurdiskum en þessi pistill er eins og getið var hluti af þykktartrúboðinu - en segir ekkert um hnattrænar umhverfisbreytingar af manna völdum. Það góða við þykktartrúna er að öllum er sama.

Trausti Jónsson, 17.8.2011 kl. 00:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 88
  • Sl. sólarhring: 235
  • Sl. viku: 1053
  • Frá upphafi: 2420937

Annað

  • Innlit í dag: 81
  • Innlit sl. viku: 930
  • Gestir í dag: 80
  • IP-tölur í dag: 79

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband