Meir af þurrkunum

Ég hef nú kíkt lauslega á stöðuna á þurrkunum á landinu. En það sem hér fer á eftir er samt sem áður ekki vísindaleg úttekt - aðeins gróft mat.

Dagar þar sem engin úrkoma mælist á landinu öllu eru óvenjulegir - en ég fjalla e.t.v. um þá síðar. Á einstökum veðurstöðvum eru þurrar vikur ekki óalgengar, alveg þurrir mánuðir eru hins vegar mjög óvenjulegir og margir mánuðir í röð þar sem úrkoma er undir meðallagi eru líka óvenjulegir. Við lítum fyrst á þurrkana í sumar. Ég hef gert mjög grófa mynd af hlutfalli úrkomu júní og liðins hluta júlímánaðar af meðaltalinu 1971 til 2000. Kortið má þó ekki taka allt of bókstaflega.

w-blogg210711a

Úrkoma 1.júní til 20. júlí 2011 - hlutfall af meðalúrkomu sama tíma. Kortagrunnurinn er eftir Þórð Arason. Við sjáum að úrkoma er um eða yfir meðallagi á svæðinu austan Eyjafjarðar og suður í Hornafjörð. Ekki ná allar stöðvar á svæðinu þó meðallaginu. Á litlu svæði á Austfjörðum er úrkoma langt yfir meðallagi, jafnvel meiri en tvöföld meðalúrkoma. Suðaustanlands er úrkoma um helmingur til 80% af meðallagi.

Á vesturhluta landsins hefur úrkoma verið miklu minni en í meðalagi, víðast hvar á bilinu 15 til 30% meðallagsins, en neðar á nokkrum stöðvum. Minnst að tiltölu á Lambavatni á Rauðasandi og í Hænuvík á svipuðum slóðum. Annað lágmark er við innanvert Ísafjarðardjúp og í Skagafirði og á fáeinum öðrum stöðvum á víð og dreif um svæðið.

Það telst mjög óvenjulegt ef úrkoma tveggja mánaða saman er minni en 20% meðalúrkomu sama tíma. En alvarlegastir eru þurrkar sem eru langvinnir. Ég hef líka búið til ámóta kort fyrir þann tíma sem liðinn er af árinu.

w-blogg210711b

Hér má sjá svipaða skiptingu landsins. Langmest hefur úrkoman verið austast á landinu og austurhlutinn sem heild er ekki langt frá meðallaginu. Svæði við Faxaflóa og í Vestur-Ísafjarðarsýslu eru það líka en annars staðar á vestanverðu landinu er úrkoma innan við meðallag - þrátt fyrir óvenju stríða úrkomu síðla vetrar og fyrst í vor. Í Skagafirði og þar um kring er úrkoman það sem af er árinu ekki nema um 70% meðalúrkomu sama tíma. En hversu óvenjulegt er það?

Ég veit það ekki nákvæmlega fyrir þetta landsvæði, en á allraþurrustu 7-mánaða tímabilum í Reykjavík er úrkoman rétt innan við 50% meðalúrkomu. Mér þykir trúlegt að þetta eigi líka við Skagafjörðinn. Þannig að í fljótu bragði kann að virðast að þurrkurinn þar sé ekki svo mjög afbrigðilegur. En það er ekki þannig, því úrkoman síðasta eitt og hálft ár er ekki nema um 60% af meðalúrkomu - og það er mjög óvenjulegt og úrkoman síðustu tvö og hálft ár er aðeins um 70% af meðalúrkomu og sömu óvenjulegheit blasa við ef litið er á síðustu þrjú og hálft ár (80% meðalúrkomu). 

Þurrkarnir í Skagafirði eru því orðnir mjög óvenjulegir. Svipað virðist eiga við um fáeina aðra staði um landið norðvestanvert - en ástandið er samt misjafnt eftir svæðum. En nú er spáð rigningu á vestara þurrkasvæðinu, því við Breiðafjörð og þar sunnan við, en óljósara er hvort sú gusa gagnast eitthvað í Skagafirði né hversu hún endist á öðrum stöðum.

Í algjöru framhjáhlaupi langar mig að minnast lítillega á hitabylgjuna vestanhafs. Þar rugla fjölmiðlar mjög saman mældum hita og „álagshita“ hins vegar. Í þurru lofti eru hiti og álagshiti ámóta. Í miklum hita kælir líkaminn sig með uppgufun vatns - úr lungum eða svita. Því þurrara sem loftið er því léttari er kælingin (þótt ofþurrkun geti orðið). Í miklum raka gufar minna upp og þá vex álag á lungu, hjarta og æðakerfi líkamans. Álagshitinn er mat á sameiginlegum áhrifum hita og raka. Í 35 stigum á mæli getur reiknaður álagshiti verið yfir 50 stig sé rakastig yfir 75%. Þegar talað er um 50 stiga hita eða meira í fréttum frá Bandaríkjunum er langlangoftast átt við álagshitann. Spáð er um 40 stiga hita næstu daga í Washington og þar um kring.

Við skulum til gamans líta á þykktarspána fyrir þetta landsvæði á föstudaginn.

w-blogg210711c

Á myndinni má þekkja austurströnd Bandaríkjanna frá Norður-Karólínu og norður til Nova-Scotia í Kanada. Hafið er blátt, en landið grátt. Þykku lituðu línurnar eru jafnþrýstilínur en jafnþykktarlínur eru svartar og heildregnar. Við sjáum að 5820 metra jafnþykktarlínan myndar sporöskjulagaðan poka á myndinni. Þar sem örvar benda sker hún 1008 hPa-jafnþrýstilínuna. Þar er 500 hPa hæðin um 5880 metrar.

Samkvæmt gögnum þeim sem ég hef við höndina er metþykkt á þessu svæði ekki fjarri 5850 metrum. Þannig að þetta er óvenjulegt ástand sem við sjáum. Hér á landi erum við að berjast við að slefa upp í 5500 metra og höfum í sumar strögglað við 5400 metra.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Athyglisvert í meira lagi að sjá það svona staðfest sem óljós tilfinning hefur verið fyrir varðandi þurrk hér á þessu svæði, sem undirritaður býr á. Fór hringferð um héraðið á sunnudaginn og sá þá með eigin augum hvernig tún eru á stórum svæðum orðin gul og allur gróður að því er virðist visnaður. Bændur, sem hafa þó aðgang að vatni, t.d. úr Héraðsvötnum, eru að reyna að nýta haugsugurnar til að aka vatni á túnin en það virðist lítið hrífa. Merkilegt þótti mér að sjá túnasléttur í jaðri Eylendisins, t.d. á bökkum kvíslarinnar neðan við Langholtið, þar sem maður skyldi ætla að grunnvatnsstaða sé frekar há, vera orðnar heiðgular. Líklega er hér um að kenna að jarðvegur er frekar sendinn á þessu svæði. Uppgufun verður sýnu meiri úr landi sem hefur verið slegið. Horfur á seinni slætti rýrna því hratt með hverjum þurrum degi.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 21.7.2011 kl. 06:24

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Það er vonandi að haustrigningar bregðist ekki á þessu ári.

Trausti Jónsson, 22.7.2011 kl. 01:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1067
  • Sl. sólarhring: 1106
  • Sl. viku: 3457
  • Frá upphafi: 2426489

Annað

  • Innlit í dag: 954
  • Innlit sl. viku: 3110
  • Gestir í dag: 925
  • IP-tölur í dag: 857

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband