Stuggað við kalda loftinu?

Áður hefur verið hér um það fjallað að þótt besta veður hafi verið á mestöllu Suður- og Vesturlandi síðustu daga hefur loftið samt ekki verið sérlega hlýtt. Enda varla að hiti hafi náð 20 stigum nema á vænstu stöðum. Höfuðborgin fær svo sjaldan 20 stig að hún má mjög vel við una í sínum 16 til 18 stigum. Í dag var þykktin yfir Suðvesturlandi um 5470 metrar - heldur lág. Til morguns á hún heldur að lækka og á síðan að fara niður í 5360 metra norðaustanlands á aðfaranótt miðvikudags. Þá fer enn einn kuldapollurinn þar hjá. Þá er best að skýjað sé. Hér suðvestanlands helst þykktin hærri.

En lítum nú á norðurhvelskort og ræðum það lítillega. Þetta er spá um hæð 500 hPa-flatarins um hádegi miðvikudaginn 20. júlí og er úr smiðju evrópsku reiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg190711

Fastir lesendur kannast við kortið, en aðrir verða að vita að höfin eru blá, löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en sú þunna sýnir hæðina 5820 metra.

Nokkuð þröngt er um 5460 metra línuna eins og jafnan á þessum tíma árs. Hún umlykur þó þrjá nokkuð kröftuga kuldapolla. Sá langöflugasti er yfir Norður-Labrador og er innsta jafnhæðarlínan í honum 5280 metrar - ekki á að gefast upp. Annar kuldapollur, minni, er fyrir norðaustan land. Það er hann sem slettir í okkur hala á morgun og miðvikudag eins og nefnt var hér að ofan.

Asóreyjahæðin hefur heldur linast síðustu dagana eftir að hafa komist í 6 kílómetra fyrir nokkrum dögum. Önnur mjög öflug hæð er yfir Norður-Rússlandi og gera spár ráð fyrir mikilli hitabylgju á þeim slóðum næstu daga. En öflugt lægðardrag skransar yfir Ítalíu og síðar Balkanlönd með öflugum þrumuveðrum og úrhelli.

Norður úr Asóreyjahæðinni gengur hæðarhryggur norður yfir Grænland. Kuldapollurinn mikli yfir Labrador á nú að þrýsta honum til austurs og þar með stuggar hann við kuldapollinum fyrir norðaustan land. Við eigum þá að lenda í suðvestanáttinni vestan hæðarhryggjarins. Alla vega tímabundið. Hvað þá gerist veit enginn enn með vissu. Breytingar eru sífelldar eftir því sem nýjar spár verða til. Kemst hlýja loftið nær? Fýkur það hjá án þess að nýtast okkur?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1065
  • Sl. sólarhring: 1108
  • Sl. viku: 3455
  • Frá upphafi: 2426487

Annað

  • Innlit í dag: 952
  • Innlit sl. viku: 3108
  • Gestir í dag: 923
  • IP-tölur í dag: 855

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband