Æskilegur hæðarhryggur

Til greina kom að kalla þennan pistil „kraftaverk yfir norðurpólnum“ - en við nánari umhugsun fannst mér það of langt gengið. Mér er ekki um að draga lesendur að á fyrirsögninni einni saman þótt hún sé ekki alveg úr lausu lofti gripin eins og sjá má á kortinu hér að neðan.

w-blogg050711

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins í spá reiknimiðstöðvar evrópuveðurstofa um hádegi  miðvikudaginn 6. júlí. Kortið sýnir norðurhvel langleiðina suður að hvarfbaug, höfin eru blá, löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar eru hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en sú þunna sýnir hæðina 5820 metra.

Við höfum undanfarnar vikur fylgst með því hvernig svæðin innan 5460 metra jafnhæðarlínunnar hafa þrengst eftir því sem hlýnað hefur á hvelinu. Innan hennar eru nú aðeins 4 þröngir hringir, einn er við Bretlandseyjar, annar nærri Svalbarða, sá þriðji nærri Beringssundi og sá fjórði, sem varla sést, er við Labrador.

Rauður hringur er líka nærri norðurpólnum - en inni í honum er H en ekki L. Þarna er 5820 metra jafnhæðarlínan á ferðinni, sú sem venjulega heldur sig suður við Miðjarðarhaf og við landamæri Kanada og Bandaríkjanna. Það er hálfgert kraftaverk að línan skuli birtast á þessum stað. Verra er að þetta er hálfgerð sóun á veðurblíðu, fáeinir staðir á heimskautaeyjum Kanada njóta að vísu óvenjulegra hlýinda þessa dagana en annars er hiti þarna (undir) bara við sitt venjulega frostmark. Hugsanlega er mikið sólskin sem þá bræðir ís baki brotnu en gæti líka verið þoka til verndar ísnum. Ekki vitum við um það, en betra hefði verið að fá þessi góðu hlýindi hingað til lands frekar en að eyða þeim engum til gagns við norðurpólinn.

En ástandið hér við land er þó talsvert betra en verið hefur, æskilegur hæðarhryggur á að vera yfir okkur á miðvikudaginn (6. júlí). Þeir sem sjá vel mega taka eftir því að söðull er í hæðarsviðinu við vesturströnd Íslands. Austan hans er loft af suðaustlægum uppruna, en fyrir vestan er loft frá Grænlandi - líka fremur hlýtt. Þykktinni er spáð í kringum 5500 metra á miðvikudaginn - það telst nokkuð gott miðað við ástandið að undanförnu.

Nú er auðvitað spurningin hvað kuldapollurinn við Svalbarða gerir af sér. Á þessu korti er hann á leið vestur. Framtíðarspár hafa verið afskaplega ósammála um framhaldið, sumar þeirra hafa af algjöru miskunnarleysi sent hann suður til Íslands - með kulda og skít, en í öðrum spám hefur hæðarhryggurinn sem á kortinu er á Grænlandshafi og þar suður af styrkst og bægt kuldanum frá. Á þessari stundu (mánudagskvöldi) er sú framtíð talin líklegri. En ástæða er til að fylgjast með.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Nú held ég að hafísinn þarna norðurfrá sé að bráðna sem aldrei fyrr í heiðríkjunni. Svona eindregið og þrálátt hæðarsvæði hefur ekki verið yfir Norður-Íshafinu í nokkur ár að sumarlagi. Kannski bara eitthvað 2007 ástand á ferðinni.

Sést ágætlega hér á gervihnattamyndamósaíkinni. http://rapidfire.sci.gsfc.nasa.gov/subsets/?mosaic=Arctic

Emil Hannes Valgeirsson, 5.7.2011 kl. 14:45

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Sumarið 2007 kom nokkurra daga tímabil um mánaðamótin júní/júlí þegar ísþekjan rýrnaði um 200 þúsund ferkílómetra á dag en slíkt er mjög óvenjulegt. Venjuleg rýrnun á þessum tíma árs er rétt innan við 100 þúsund ferkílómetrar á dag. Líkurnar á að slíkt tímabil komi í sumar fara minnkandi eftir því sem lengra líður frá sólstöðum. Hundraðþúsundferkílómetraádag rýrnunarskeiðið stendur þó að jafnaði út júlí en í ágúst dregur ört úr rýrnunarhraðanum. Úr því er spurning um endasprettinn í september, hversu lengi rýrnunin heldur áfram - þótt lítil sé. National Snow and Ice Data Center ætti að senda frá sér nýjan fregnmiða um ástandið á morgun eða á fimmtudag. Núverandi háþrýstisvæði er hvað öflugast þar sem ísinn er þykkastur.

Trausti Jónsson, 6.7.2011 kl. 00:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.1.): 71
  • Sl. sólarhring: 327
  • Sl. viku: 2838
  • Frá upphafi: 2427390

Annað

  • Innlit í dag: 53
  • Innlit sl. viku: 2541
  • Gestir í dag: 51
  • IP-tölur í dag: 51

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband