Af vorinu 1811 - í tilefni 200 ára fæðingarafmælis Jóns Sigurðssonar

Ekki hef ég frétt af neinum veðurathugunum af Vestfjörðum vorið 1811. Danski strandmælingaflokkurinn sem hafði fast aðsetur á Akureyri árin 1807 til 1814 gerði hins vegar ágætar veðurathuganir. Þær veita góða innsýn í veðurfar þessara ára. Óhætt er að segja að það hafi verið laklegt á okkar mælikvarða - sérlega slæmt. Óljósar fréttir eru af athugunum enskra kaupmanna í Reykjavík um svipað leyti, vonandi finnast þær um síðir ef til eru.

En lítum á hitann á Akureyri.

w-ak-1811

Línuritið nær fyrir tímabilið 1. apríl til og með 30. júní. Jón Sigurðsson fæddist þann 17. sem kunnugt er. Mikil kuldatíð var þetta vor. Frostið fyrir fór í -27,4 stig á miðvikudag fyrir páska (10. apríl) og hefur vart orðið mikið meira á þeim árstíma. Mesta frost í apríl síðari tíma er -18,2 stig og mældist þann 1. árið 1968. Allgóður kafli kom um miðjan apríl, en annað kuldakast gerði um mánaðamótin apríl/maí, mældist -13,8 stig að kvöldi þess 2. Mesta frost á Akureyri á síðari tímum mældist -10,4 stig þann 1. árið 1968. Meðalhiti í apríl var -6,0 stig og í maí 1,5 stig.

Þann 5. maí skánaði veður að mun, hiti komst í 11,3 stig þann 6. og svo í 12 stig þann 17. Eftir það harðnaði aftur á dalnum og þann 3. júní fór frostið í -5,6 stig. Það mesta í júní á síðari tímum er -3,0 stig þann 5. júní 1943. Talsverðar sveiflur voru í hita fram eftir júní, m.a. þann 17. en þá komst hiti um miðjan dag í 14,8 stig. Lægð virðist hafa farið til norðausturs vestan og norðan við land þann 17. Vindur var af suðri bæði að morgni og um hádegi, en logn var um kvöldið í rúmlega 2 stiga hita. Hiti fór niður fyrir frostmark þ. 18. og 19. Þá snjóaði bæði og rigndi.

Þann 20. lagaðist veðrið loksins og hiti var lengst af yfir 10 stigum til mánaðamóta, komst hæst í 20,4 stig þann 28. Meðalhiti í júní var 5,9 stig - ansi lágt á Akureyri.

Ekki er það fýsilegt vor sem tók við ungbarninu Jóni. Svona þegar á heildina er litið hefur veðurfar farið skánandi síðan. En hvað segir Þorvaldur Thoroddsen um þetta vor í Árferði á Íslandi í þúsund ár?

Þar segir í texta um árið 1811:

„... síðan gerði miklar hörkur með einmánuði. Hláka kom nyrðra um páska og kom upp jörð, en það stóð eigi lengur en í 11 daga, þá byrjuðu harðindin aftur og stóðu fram á sólstöður. Vorið var líka kalt syðra með krapajeljum og norðanköstum. Þá var bjargleysi mikið og voru skinn etin víða og varð hvarvetna fellir á lömbum og öðrum fjenaði. Á Austurlandi voru hin mestu harðindi og ljetti þar aldrei kulda og hríðum fyrr en 8 vikur voru af sumri, þá fjell fólk af bjargarleysi á Austfjörðum og var þar hið mesta harðæri.“

Einmánuður byrjar seint í mars og við sjáum vel þau harðindi. Þorvaldur segir að hláka hafi komið nyrðra um páska í 11 daga. Mælingamenn segja hláku að mestu frá 13. til 24. apríl, það gengur vel upp. Síðan segir að harðindi hafi staðið fram á sólstöður. Mælingarnar segja að batinn hafi komið 20. júní. Þetta gengur vel saman. Austanlands létti harðindum þegar 8 vikur voru af sumri, það er 20. júní.

Mælingum og texta ber hér sérlega vel saman og mynda fyllri heild heldur en sitt í hvoru lagi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Trausti .

Smá villa. Einmánuður byrjar eftir 20. mars og þarna hafa páskar verið í apríl .

Kv. K.A.

Konráð Andrésson (IP-tala skráð) 15.6.2011 kl. 11:04

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka ábendingu Konráð. Upphaf einmánaðar sést ekki á myndinni (ég biðst afsökunar á því). Ég held að sumardagurinn fyrsti 1811 hafi verið 25. apríl (annan fimmtudag eftir 11.apríl) og einmánuður byrjað 26. mars. Í textanum hér að ofan stendur greinilega að páskar hafi verið 14. apríl þannig að ekki er það vitlaust. En 14. apríl er rétt eftir miðjan einmánuð.  

Trausti Jónsson, 15.6.2011 kl. 22:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg231124-kosningaspa-ec b
  • w-blogg23124-kosningaspa-ec a
  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 262
  • Sl. sólarhring: 395
  • Sl. viku: 2560
  • Frá upphafi: 2414224

Annað

  • Innlit í dag: 243
  • Innlit sl. viku: 2358
  • Gestir í dag: 239
  • IP-tölur í dag: 236

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband