Mikil rigning - hversu mikil er hún?

Ekki er auðvelt að svara þessari spurningu. Flestir miða við það sem þeir eru vanir. Mér er minnisstætt þegar ég dvaldi um hríð á Akureyri á unglingsárunum hversu lítilmótleg rigningin var þar miðað við Borgarnes. (Nóg var hins vegar af öðrum illviðrategundum). Sömuleiðis þótti mér mikið rigna á Laugarvatni er ég dvaldi þar um vetrarskeið, mun meira heldur en ég var vanur.

Það flækir hugsanlegar skilgreiningar að ákefð úrkomunnar skiptir mjög miklu máli, með því er átt við hversu mikil úrkoma fellur á tímaeiningu. Þetta sést strax og farið er að meðhöndla tölurnar, 1 mm af úrkomu er það sama og 1 lítri á fermetra, 10 mm eru þá 10 lítrar á fermetra, það gengur e.t.v að missa niður 1 lítra af vatni á eldhúsgólfið, en heil þvottafata af því skapar hálfgert neyðarástand.

Mikil úrkomuákefð getur skapað stórvandræði í niðurföllum og frárennsliskerfum og millimetrarnir 10 verða fljótt að tugum tonna þurfi þéttir fletir eins og  t.d. þök eða bílastæði að taka við. Gróin svæði jafna hins vegar rennsli.

Úrkoma á Íslandi er mismikil, um 300 mm á ári þar sem minnst er og yfir 3000 þar sem mest fellur í byggð. Til fjalla mun ársúrkoman sumstaðar vera enn meiri.

Þumalfingursregla segir að falli meira en 6 prósent af meðalársúrkomu á einum sólarhring sé hætta á ferðum í bröttu landslagi. Þetta er gróf ágiskun sem má ekki taka allt of hátíðlega Á þurrustu svæðum landsins eru þetta ekki nema 20 mm, en um 200 mm þar sem úrkoma er að jafnaði mest.

Tuttugu millimetrar á sólarhring eru gróflega 1 mm á klukkustund. Ólíklegt er að það sé allt jafndreift. Á úrkomusömustu stöðunum er meðalákefðin því um 10 mm/klst.

Ákefðarmælingar hafa lengi verið gerðar í Reykjavík en sjálfvirkar úrkomumælingar síðustu 10 til 12 árin hafa verið að bæta miklu við þekkingu okkar á því hvað má telja mikla ákefð hér á landi. Úrkomu er gjarnan skipt upp í nokkrar tegundir sem hafa misjöfn ákafamynstur. Úrkoma sem verður til þegar loft er þvingað upp fjallshlíðar er þannig miklu jafnari heldur en sú sem fellur úr skúra- og éljaklökkum. Ég hef hugsað mér að fjalla meira um þetta efni síðar.

En getum við komið okkur upp einhverri reynslutengingu við ákefðina? Fyrir nokkrum árum kom út í Bretlandi ágæt bók sem heitir Great British Weather Disasters. Þessi bók er býsna fróðleg og margt skynsamlegt er þar sagt um veður - meira en algengt er í bókum af þessu tagi. Í bókinni er listi þar sem reynt er að tengja úrkomuákefð reynslu vegfarenda. Ég leyfi mér að þýða listann lauslega:

0,1 mm/klst: Lítilsháttar súld, lítil þörf á regnhlíf. Vegir og gangstígar blotna ekki, ökumenn kveikja endrum og sinnum á rúðuþurrkum - þær þurrka of oft séu þær í gangi.

0,2 mm/klst: Súld eða slitrótt rigning, stöku maður spennir upp regnhlíf, flestir hraða sér heldur á milli húsa þótt þeir blotni ekki að ráði. Rakir fletir á vegum og stígum, ökumenn láta rúðuþurrkur ekki iðja samfellt.

0,5 mm/klst: Ákveðin súld eða lítilsháttar rigning. Flestir bretar nota regnhlífar (varla landinn), skyrtur blotna - þó ekki skyndilega. Pollar byrja að myndast á vegum og stígum. Ökumenn vita varla hvaða stillingu á að hafa á rúðuþurrkum, samfellda eða ósamfellda iðju.

1,0 mm/klst: Rigning - slagrigning ef hvasst er, frakkaklæddir hraða sér, þeir á skyrtunni leita skjóls, pollar á stígum og vegum, rennur í niðurföll við götur og stæði. Rúðuþurrkur stöðugt í gangi.

4 mm/klst Hellirigning, regn slettist af gangstígum þannig að þeir sem ekki eru í stígvélum blotna, frakkaklæddir leita skjóls, stórir pollar myndast. Rúðuþurrkur á fullu, ökumenn hægja á sér (vonandi).

10 mm/klst. Úrfellisrigning, flestir leita skjóls, rúðuþurrkur hafa varla við, ökumenn þurfa að hægja mjög á sér vegna slæmra bremsuskilyrða, illa hreinsuð niðurföll hafa ekki öll við og vatn safnast fyrir í dældum.

25 mm/klst. Meiriháttar úrfelli sem veldur staðbundnum flóðum ef það stendur lengur en í 10 til 30 mínútur. Skyggni minnkar og umferð hægir á sér eða stöðvast tímabundið.

100 mm/klst. Hér á landi stendur úrkomuákefð af þessu tagi í mesta lagi í örfáar mínútur, skyggni fer niður fyrir 50 metra, hallandi vegir verða að fljótum, niðurföll hafa vart undan.

Á Veðurstofutúninu í Reykjavík er mest vitað um 4,7 mm úrkomu á 5 mínútum. Það samsvarar ákefðinni 56 mm/klst. Úrfellið var mjög staðbundið og stóð stutt. Engu að síður flæddi í fjölmarga kjallara þar sem skúrin fór yfir. Um þetta tilvik fjallaði ég í pistli um úrkomumet á vef Veðurstofunnar fyrir nokkrum árum.

Bókin: Philip Eden (2008), Great British Weather Disasters, Continuum, 351s.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Gaman væri nú að sjá einhvern tíma lýst á íslensku hvernig úrkoma myndast í skýjum og fer að falla.

Sigurður Þór Guðjónsson, 10.5.2011 kl. 01:31

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Kjarnann úr einfaldari gerðinni af svari við spurningunni á ég á lager - hver veit nema hann birtist hér um síðir.

Trausti Jónsson, 10.5.2011 kl. 02:12

3 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Mjög fræðandi og skemmtileg grein. Það væri gaman að lesa eftir þig eitthvað um rakastig, daggarmark með tillit til hitastigs og loftþrýstings. Ertu kannski eitthvað búinn að skrifa um slíkt?

Sumarliði Einar Daðason, 10.5.2011 kl. 08:03

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Væri ekki hægt að fá flóknari gerðina - og helst sem allra flóknasta!

Sigurður Þór Guðjónsson, 10.5.2011 kl. 10:13

5 identicon

Skemmtileg nálgun hjá Bretum varðandi skilgreininguna á úrkomuákefðina. Minnir á aðra skilgreiningu, frá þeim komna, þ.e. lýsingar Beaufort-kvarðans á áhrifum vinds á sjó.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 10.5.2011 kl. 10:27

6 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég man eftir þessari dembu í Reykjavík á ágústkvöldi 1991. Setti meira að segja út dollu til að safna regninu í en kunni síðan ekki að umreikna magnið yfir í millimetraúrkomu að hætti Veðurstofunnar.

Emil Hannes Valgeirsson, 10.5.2011 kl. 10:40

7 identicon

1.ágúst 1993 gekk mikil demba yfir Heimaey með þrumum og í Herjólfsdal féll hagl. Á Stórhöfða mældist úrkoman 10 mm á 20 mínútum kl. 17:40 - 18:00.

Óskar J. Sigurðsson (IP-tala skráð) 10.5.2011 kl. 16:18

8 Smámynd: Trausti Jónsson

Ég þakka athugasemdirnar. Sumarliða get ég upplýst um það að fyrir nokkrum árum skrifaði ég níu pistla á vef Veðurstofunnar um raka og rakahugtök. Ég vísa hér í einn þeirra. Ég er þó í vafa um hvort ég mæli með lestri pistlanna því þeir voru klipptir í sundur á heldur ruglingslegan hátt eftir þeirri (einkennilegu?) reglu að ekki megi ofbjóða lesendum með lengd. Kannski tíni ég þá saman í framtíðinni og birti sem viðhengi hér á hungurdiskum? Þorkell, mun skárri er pistill sem ég skrifaði um nöfn vindstiga og greiningu veðurhæðará veðurstofuvefinn - og mæli ég með honum. Flestir eiga (matar-)mæliglös sem greina frá rúmmáli í sentiílítrum eða einhverju ámóta. Ef sett er út dolla til að mæla úrkomu er nóg að mæla það sem í dolluna kemur í slíku glasi og jafnframt mæla flatarmál opsins á dollunni. Þá er auðvelt að fá út úrkomuna í millimetrum. Óskar, þakka áminninguna um Heimaeyjardembuna, í þeirri ákefðareiningu sem ég nefni að ofan hefur hún þá verið um 30 mm/klst - sennileg hefur 5-mínútna ákefðin verið enn meiri. Flóknasta gerð sögunnar um það hvernig úrkoma myndast er svo flókin og svo löng að sumir eyða mestallri ævinni í að lesa hana (eða skrifa) - heildarskrif mælast sjálfsagt í hillukílómetrum, þannig að eitthvað styttra verður að duga.

Trausti Jónsson, 11.5.2011 kl. 01:04

9 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Takk fyrir svarið Trausti. Ég þykist nokkurn veginn skilja hvernig þetta virkar en þú virðist geta sett þetta fram á mannmáli svo aðrir skilji. Mér finnst ótrúlega erfitt að útskýra hitastig, þrýsting og rakastig fyrir öðrum - samt skiptir þetta höfuðmáli í daglegu lífi. Þetta með rigninguna ertu að útskýra vel með góðum dæmum.

Sumarliði Einar Daðason, 11.5.2011 kl. 01:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 736
  • Sl. sólarhring: 819
  • Sl. viku: 2531
  • Frá upphafi: 2413551

Annað

  • Innlit í dag: 689
  • Innlit sl. viku: 2289
  • Gestir í dag: 675
  • IP-tölur í dag: 658

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband