Veður í apríl - vont eða gott?

Ég get auðvitað ekki svarað spurningunni í fyrirsögninni. Sérstaklega af því að mánuðurinn er ekki búinn. Ljóst er þó að hitinn er í góðu lagi, en hvað með annað?

Eitt af því sem vekur athygli þegar litið er yfir veðurlag í apríl fram til þessa er hinn lági loftþrýstingur. Við liggur að met verði slegið - kannski verður það þannig? Lítum til gamans á stöðuna í veðrahvolfinu miðju - í 500 hPa-fletinum í rúmlega 5 kílómetra hæð frá sjávarmáli.

w-h5000411-0123

Myndin er fengin af teiknisíðum bandarísku veðurstofunnar og sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins fyrstu 23 daga aprílmánaðar í ár (heildregnar línur - metrar). Meðalhæðin yfir landinu er 5220 metrar. Þetta er ekki alveg met - en samt 130 metrum undir meðallagi á þessum árstíma. Þetta er svipuð hæð og finna má í nokkrum alþekktum skítaaprílmánuðum, 1949 og 1990 kannski þeirra þekktastir fyrir hríðarbylji og vetrarveðráttu, en líka 1943, 1947 og 2006. Við finnum meðalhæðina sem á að vera, 5350 metra, fyrir suðaustan land.

En lítum á meðalkortið líka.

w-h500-04-0123-m

Við sjáum strax að það er allt öðru vísi, jafnhæðarlínurnar ekki líkt því eins þéttar og hæðin 5220 metrar er sú sem að meðaltali er yfir Norður-Grænlandi. Við getum ímyndað okkur að við drögum þá línu til suðausturs eins og bláa örin sýnir, 5340 línan hörfar undan - en ekki lengra heldur en að stjörnunni á fyrri mynd. Við þessa ágengni 5220-línunnar og andstöðu 5340-línunnar herðir á brattanum og vindáttin snýst aðeins til suðlægari stefnu. Berið saman stefnu og lengd rauðu örvanna á myndunum báðum.

Þegar farið er í saumana á styrk og stefnu vindsins og hvort tveggja borið saman við fortíðina kemur í ljós að svona mikil sunnanátt hefur aðeins sárasjaldan orðið í apríl áður. Þar eru fremstir aprílmánuðirnir hlýju 1974 og 2003. Í apríl 1974 var meðalhæð 500 hPa-flatarins var uppi í hæstum hæðum, 5470 metrar og litlu lægri 2003. Þá mátti segja að 5460-línan sem er við Skotland á meðaltalskortinu hafi þrengt sér til Íslands, þrengt að kuldanum og úr orðið óvenjuleg sunnanátt. Nú þrengir kuldinn sér til austurs og býr til óvenjulega sunnanátt.

Það er þessi óvenjulega sunnanátt sem haldið hefur hitanum uppi þrátt fyrir ágengan kuldann í vestri. Kuldinn hefur verið mun ágengari allra vestast á landinu heldur en eystra.

En mánuðurinn er ekki búinn og ekki verður hægt að gera hann upp fyrr en eftir næstu helgi. Þá kemur í ljós í hvaða sæti meðalhitinn lendir, sunnanáttin hefur valdið óvenjumikilli úrkomu syðra og loftþrýstingur er eins og áður sagði nærri lágmarki allra tíma.

En ég vona að það sem sagt er hér að ofan varpi einhverju ljósi á hið tvískipta eðli aprílmánaðar 2011.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

http://www.wetterzentrale.de/pics/avnpanel1.html           Ekki veit ég hvaða spár er mest að marka, en svo er að sjá á þessari að um og upp úr helgi breytist staða hlýrri loftmassa hér á norðanverðu Atlantshafi. En þá er að sjá að gamalkynnug hæð fari að taka sér stöðu yfir Grænlandi og þá fara norðan og norðaustan vindáttir að verða meira ríkjandi ef að líkum lætur.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 26.4.2011 kl. 09:42

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þessar spár eru yfirleitt góðar - en nýjar útgáfur - einatt breyttar - berast fjórum sinnum á dag.  

Trausti Jónsson, 27.4.2011 kl. 00:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 921
  • Sl. sólarhring: 1112
  • Sl. viku: 3311
  • Frá upphafi: 2426343

Annað

  • Innlit í dag: 820
  • Innlit sl. viku: 2976
  • Gestir í dag: 801
  • IP-tölur í dag: 737

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband