Nokkur apríllandsmet

Fyrr í mánuðinum var hæsti hámarkshiti aprílmánaðar tilgreindur hér á hungurdiskum. Hann er 23,0 stig og mældist í Ásbyrgi í hitabylgjunni miklu í lok mánaðarins 2007 (þann 29.). Lægsti hiti sem mælst hefur í mánuðinum er -30,2 stig og stendur enn frá 1. apríl 1881. Hann mældist á Siglufirði sem nokkrum dögum áður greip kuldamet marsmánaðar og hefur haldið því síðan. Ég hef hugsað mér að gera þessum Siglufjarðarmælingum skil síðar.

1. apríl 1968 varð metkuldadagur víða um land og á apríllágmarksmet bæði í Reykjavík (-16,4 stig) og á Akureyri (-18,2 stig). Þá var kalt í gisnu menntaskólahúsinu man ég þennan óvenjulega dag.

Sólarhringsúrkomumetið, 157,0 mm, var sett á Kvískerjum í Öræfum 3. apríl 1984. Annars er ég aldrei viss um hvort heimamenn segja „í“ eða „á“ Kvískerjum - getur einhver upplýst mig um það?

Loftþrýstimetin tvö, hæsti og lægsti þrýstingur í apríl eru bæði tiltölulega ung. Lágþrýstimetið, 951,0 hPa, var sett á Bergstöðum í Skagafirði 11. apríl 1990, þeim afspyrnuvonda mánuði. Þennan dag fuku járnplötur af húsum og inn í hús á Akureyri. Ég er mest hissa á því að 21 ár skuli vera liðin síðan þetta var, ósköp flýtir tíminn sér. Hámarksþrýstimetið kom rétt rúmu ári síðar, þann 15. og 16. apríl 1991. Þá mældist þrýstingur bæði á Egilsstöðum og í Grímsey 1050,8 hPa.

Mesta snjódýptin í apríl mældist á Gjögri í Árneshreppi 17. apríl 1990 (já, sá vondi mánuður aftur), 260 cm (2 metrar og 60 cm). Ef til vill þarf þetta nánari skoðunar við, en mælingin er örugglega ekki mjög nákvæm. Reynið að fara um og mæla í tveggja metra snjó. Veturinn 1989 til 1990 var einn af mestu snjóavetrum síðari áratuga, úrkomumælirinn á Gjögri fór á kaf þótt reynt væri að moka frá honum þannig að ekki var hægt að mæla úrkomu þar um tíma.

Mesta snjódýpt í apríl í Reykjavík mældist 1. apríl árið áður (1989), 32 cm, en sá vetur var einnig eftirminnilegur snjóavetur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Er ekki einhver þumalputtaregla að nota "Í" fyrir framan kven og hvorukyns bóndabæjarnöfn, t.d "Jón í Kirkjulækjarkoti" en svo "Jón á Kirkjulæk". Samkvæmt þeirri reglu ætti að segja "í Kvískerjum"

En þetta er kanski mitt alfræga misminni

Gunnar Th. Gunnarsson, 14.4.2011 kl. 12:03

2 identicon

Sæll Trausti og þakk fyrir fróðlega og skemtilegt blogg. Það var alltaf talað um á Kvískerjum þegar ég vaar að alast upp í Öræfunum 

Guðlaugur Heiðar Jakobsson (IP-tala skráð) 14.4.2011 kl. 15:34

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Já, þakka ykkur fyrir. Tilfinning mín er frekar með „í“ heldur en „á“ - en við tökum auðvitað mark á heimamönnum.

Trausti Jónsson, 15.4.2011 kl. 01:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg231124-kosningaspa-ec b
  • w-blogg23124-kosningaspa-ec a
  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 181
  • Sl. sólarhring: 194
  • Sl. viku: 2503
  • Frá upphafi: 2413937

Annað

  • Innlit í dag: 169
  • Innlit sl. viku: 2310
  • Gestir í dag: 162
  • IP-tölur í dag: 160

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband