Illviðrið í dag (10. apríl 2011)

Lægðin snarpa sem hungurdiskar fjölluðu um í gær olli svo sannarlega usla um landið vestanvert nú síðdegis og í kvöld (sunnudaginn 10. apríl 2011). Lægðir af þessari ætt koma sjaldan við sögu hér á landi í apríl. Norðan- og norðaustanveður eru þá mun algengari. En sé litið á söguna má þó finna allmörg dæmi. Við bíðum með það. En lítum nú á þrjár myndir.

Sú fyrsta sýnir þrýstigreiningu hirlam-líkansins frá því kl.18. Ekki er annað að sjá en að hún falli vel að raunveruleikanum. Þetta líkan spáði veðrinu vel strax í gær. Almennt má segja að tölvuspánum hafi tekist vel til að þessu sinni. Margir dagar eru síðan illviðrið kom fyrst fram sem möguleiki í spánum en síðan gekk úr og í með snerpu þess. Það er eðlilegt sérstaklega vegna þess að lægðin var ekki mjög stór um sig. Hefði lægðin farið aðeins aðra leið hefðum við ekki svo orðið vör við hörkuna í henni.

w-blogg100411-1

Greiningin setur lægðina skammt vestur af Snæfellsnesi kl. 18, 965 hPa í lægðarmiðju (af brunni Veðurstofunnar). Vel sést hversu kröpp lægðin er og að þrýstilínurnar austan við hana eru gríðarlega þéttar. Þar sýna vindörvarnar mest um 30 m/s sýnist mér. Í þeirri tölu er búið að reikna með þeim helstu þáttum sem hafa eiga áhrif á vindhraðann. Það eru þrýstibrattinn, núningur við jörð, sveigja þrýstilínanna og hraði og stefna lægðarmiðjunnar.

Hungurdiskar hafa fjallað um samband vinds og þrýstibratta, en lítið hefur verið minnst á hin atriðin þrjú. Að þeim kemur vonandi síðar en geta má þess að núningur hægir á vindi og snýr vindáttinni til lægri þrýstings, lægðasveigt þrýstisvið dregur úr vindi (miðað við þrýstibratta) og sé lægðin hraðskreið hefur vindur tilhneigingu til að verða meiri hægra megin við hreyfistefnu lægðarinnar. Áður en tölvuspár fóru að geta vindhraða sérstaklega þurftu veðurfræðingar að taka tillit til allra þessara þátta þegar vindi og vindátt var spáð.

Við skulum líta á bút úr Íslandsþrýstigreiningunni (af vef Veðurstofunnar) á sama tíma og kortið hér að ofan gildir.

w-blogg100411-3

Ég biðst afsökunar á því hversu loðin myndin er. Hér eru jafnþrýstilínur dregnar fyrir hvert hPa.  Gömul hjálparregla veðurfræðinga er sú að telja fjölda þrýstilína yfir eitt landfræðilegt breiddarstig og áætla þrýstivind út frá því. Fyrir þrjátíu árum, þegar ég var í spánum, hafði maður þessar talningar í hendinni en nú eru tölvuspárnar búnar að spilla henni svo að grípa þarf til þess að hugsa við mælinguna.

Rauða línan á kortinu sýnir lengd eins breiddarstigs og við talningu kemur í ljós að hún spannar 12 þrýstilínur. Það þýðir að þrýstivindurinn er 120 hnútar eða um 60 m/s. Þá tölu notar maður til að áætla mestu vindhviður. Síðan margfaldar maður 60 m/s með 0,7 (70%) til að fá hámarksvind yfir sjó. Útkoman er um 40 m/s. Það er kannski vel í lagt í þessu tilviki því ekki hefur verið reiknað með sveigju þrýstisviðsins. Mesti vindur yfir landi er gjarnan talinn 50% af reiknuðum þrýstivindi. Í þessu tilviki væri hann þá um 30 m/s.

Mesti 10-mínútna meðalvindhraði á Keflavíkurflugvelli í veðrinu var 30,1 m/s og 31,2 m/s á Garðskagavita. Mesta vindhviða dagsins sem ég hef enn frétt af mældist 55,5 m/s á Miðfitjahól á Skarðsheiði. Af þessu má sjá að gömlu þumalfingursreglurnar standa vel fyrir sínu í þessu tilviki. Ég kíki betur á vindhraðatölur á morgun eftir að ég hef komist í gagnagrunn Veðurstofunnar.

Síðasta myndin í dag er tekin af gervihnetti rétt fyrir kl. 15 í dag.

w-blogg100411-2

Örin sem merkt er með tölustafnum 1 sýnir þurru rifuna sem fjallað var um hér á hungurdiskum í gær. Ýmsir munu hafa tekið eftir því þegar hún birtist í dag. Skil fóru yfir með gríðarlegum vatnsgangi uppúr kl. 13 hér á höfuðborgarsvæðinu, þá snerist aðeins á áttinni og öll háský hreinsuðust burt á augabragði. Í þurru rifunni hefur mjög hlýtt og þurrt loft að ofan náð að blandast neðra lofti. Á myndinni má sjá að hér hefur það náð að hringa sig umhverfis lægðarmiðjuna og mynda einskonar hlýjan kjarna í lægðinni og eykur afl hennar að mun.

Bláu örvarnar (2) benda á þau svæði í lægðinni þar sem vindhraði er langmestur. Sumir kalla þessi svæði ýmist snúð, brodd eða afturbeygð skil lægðarinnar. Ég kýs fyrri nöfnin tvö frekar heldur en það síðasta. Mér finnst það orðalag villandi - en smekkurinn er misjafn og ég hef engin dómararéttindi.

Þriðja örin bendir á mikla bylgju, sennilega svokallað straumstökk. Það einkennist af dökku svæði (þar sem sér til jarðar) og mjög skörpum jaðri á fannhvítum háskýjum. Oftast tengjast straumstökkin miklum fjallabylgjum en sjást víðar. Form af þessu tagi sjást mjög oft yfir landinu og ættu áhugasamir lesendur að gefa þeim gaum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Aldeilis ljómandi að fá svona greiningu á eðlisfræði óveðursins. Við,  lesendur hungurdiska,  þökkum fyrir hana.  Hér fóru hviður ansi hátt á flugvellinum, en ég veit svo sem ekki hversu áreiðanleg veðurstöðin þar er. Mig grunar líka að hún sé sett skv. segulstefnu, en vinnureglur í fluginu gera ekki ráð fyrir öðru. Á Bergsstöðum er ekki hviðumælir held ég, en mesti 10 mín. meðalvindhraði fór í 32 m/s í gær sýndist mér. Það er líka veðurstöð á höfninni sem hægt er að komast í á Netinu, þekki hinsvegar ekki hvernig og hvort hún er "calibreruð", en henni virðist oftast bera saman við stöðina á flugvellinum.  

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 11.4.2011 kl. 05:12

2 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Tek undir með Þorkeli. Þessi pistill er eins og hressandi andblær eftir óveðrið í Icesaves-kviðu (hviðu) undanfarinna daga.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 11.4.2011 kl. 11:01

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Þorkell. Veðurstöðin á Sauðárkróksflugvelli er alveg eins og aðrar sem Veðurstofan rekur og talin áreiðanleg. Vel má þó vera að þar sé önnur stöð sem ég ekki veit um (þær eru víða á flugvöllum). Hafnarstöðina fáum við ekki. Vonandi hefur henni verið betur haldið við en öðrum hafnarstöðvum á landinu, en þær virðast vera í óttalegri niðurníðslu og eru flestar dottnar út úr reglubundinni gagnasöfnun Veðurstofunnar. Þakka hrósið Benedikt.

Trausti Jónsson, 12.4.2011 kl. 00:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1046
  • Sl. sólarhring: 1112
  • Sl. viku: 3436
  • Frá upphafi: 2426468

Annað

  • Innlit í dag: 933
  • Innlit sl. viku: 3089
  • Gestir í dag: 905
  • IP-tölur í dag: 838

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband