Veðurfréttir úr heiðhvolfinu

Í dag (5. apríl) komust veðurfréttir úr heiðhvolfinu inn í fjölmiðla. Það er óvenjulegt en gerist samt stundum. Eins og vill verða þegar fréttir berast úr mjög ókunnugum löndum var umfjöllunin heldur einkennileg. Sannleikskorn var í fréttinni en aðallega var hún samt ónákvæm og að sumu leyti villandi.

Fyrir nokkrum dögum gaf Alþjóðaveðurfræðistofnunin (alltaf gaman að skrifa nafn hennar) út fréttatilkynningu með yfirskriftinni: Record stratospheric ozone loss in the arctic in spring of 2011. Hvernig er best að þýða þetta? Metósonrýrnun í heiðhvolfinu yfir norðurslóðum vorið 2011. Eða aðeins skárra: Óson hefur aldrei verið jafn rýrt í heiðhvolfinu á þessum tíma árs á norðurslóðum.

Það kemur hins vegar hvergi fram að á þessum tíma árs er ósonmagn venjulega í hámarki eftir að hafa vaxið mjög ört á tveimur mánuðum. Heiðhvolfskuldapollur vetrarins hefur verið óvenjusnarpur og þrálátur þessa tvo mánuði. Hann hefur eins og bræður hans í veðrahvolfinu sullast fram og aftur um heimskautasvæðið og miðja hans (fyrirferðarlítil) hefur verið með kaldasta móti á þessum tíma árs. Fyrir um það bil viku fór kaldasta svæðið yfir Ísland til suðausturs eins og sjá má á þessari mynd:

h30hPa-dorn-ecmwf270311-00

Myndin er fengin af frábærri heiðhvolfssíðu Andreas Dörnbrack þar sem hann teiknar greiningar Evrópureiknimiðstöðvarinnar á kort.  Myndin sýnir norðurhvel allt norðan 40 breiddarbaugs. Hún kemst ekki mjög vel til skila hér á blogginu en þeir sem þekkja landaskipan ættu samt að vera fljótir að átta sig. Ég hef sett inn ör sem bendir á Ísland og aðra sem bendir á Japan.

Skárra eintak myndanna er í pdf-viðhengi.

Þykkdregnu línurnar eru jafnhæðarlínur 30 hPa-flatarins í dekametrum. Tölurnar byrja á 22 og 23 og af því má marka að við erum í 22 til 23 kílómetra hæð. Ég hef sett L þar sem er miðja heiðhvolfslægðarinnar. Litirnir tákna hita í Kelvingráðum. Þar er talan 182 lengst til vinstri (ljósblátt), 182K eru -91°C. Svæði austan Íslands nær nærri því niður í þennan hita. Hæsta talan (svart) er 238 stig svartlituð svæði eru því hlýrri en -35°C (næsta mynd).

Ósoneyðing er hröð þar sem frostið er meira en 80 stig. Raunar ætti að segja að ósoneyðing sé hraðari en venjulega því að vart má á milli sjá hvort hefur betur myndun eða eyðing. Svona mikið frost er eingöngu á ákveðnu hæðarbili (ég veit ekki nákvæmlega hverju í þessu tilviki), en hlýrra er bæði ofan og neðanvið. Þar er venjulegt ósonástand. Gatið - ef gat skyldi kalla er því innan í ósonskildinum, talsvert magn af ósoni er bæði ofan og neðan við - samtals meira heldur en heildarmagnið er á dimmasta tíma ársins þegar árstíðasveifla ósons er í lágmarki.

Seinni myndin er aðeins tveggja sólarhringa gömul (4. apríl kl. 00).

h30hPa-dorn-ecmwf040411-00

Hér sjáum við að bláa svæðið er nærri því horfið og mikið svart (hlýtt) svæði komið yfir Austur-Asíu og mun hlýrra er yfir Íslandi en áður. Vonandi hefur ósonmagnið aukist aftur við þá breytingu.

Hvers vegna er óvenju kalt í heiðhvolfinu?  Hvers vegna er venjulega mest af ósoni ofan Íslands á þessum tíma árs? Hvers vegna eyðist óson örast í ægikulda? Hvaða tengsl eru á milli ósoneyðingar og hinnar hættulegu útfjólubláu geislunar? Hver er árstíðasveifla útfjólublárrar geislunar á Íslandi? Hverju breytir ósonrýrnun þar um? Og svo framvegis. Þessum spurningum verður varla svarað öllum á hungurdiskum - það er helst þær tvær fyrstu sem við gætum e.t.v. skoðað betur síðar. Nokkrar upplýsingar um óson má finna á Vísindavef HÍ.

Í apríl verða gríðarlegar breytingar á hringrás heiðhvolfsins um leið og hiti hækkar að mun. Lægðin mikla sem nær nú yfir stóran hluta norðurhvels eyðist og i hennar stað kemur mikil heiðhvolfshæð, austlæg átt tekur við af vestlægri. Áttaskiptin eru mest áberandi aðeins ofar heldur en við sjáum hér en gætir einnig neðar. Raunar má rökstyðja það að áhrifanna gæti alveg niður að jörð. Að meðaltali á þessi umsnúningur sér stað mjög nærri sumardeginum fyrsta. Rétt eins og forfeður okkar hafi fylgst með meðalástandinu í heiðhvolfinu þegar þeir ákváðu að merkja daginn. Á haustin er viðsnúningurinn órólegri og smyrst út á öllu lengri tíma.

Nú er auðvitað spurningin hvort umskiptin miklu verði á réttum tíma í ár eða hvort kuldinn heldur áfram að þvælast fyrir - við bíðum spennt eftir því.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Trausti

Áhugaverð frétt er um þetta er á vefsíðu ESA (European Space Agency). Þar er m.a. hreyfimynd sem sýnir breytingar í marsmánuði  frá því árið 1979 til 2011.

Á vefsíðunni segir m.a:

" 4 April 2011
ESA’s Envisat satellite has measured record low levels of ozone over the Euro-Atlantic sector of the northern hemisphere during March.
 
This record low was caused by unusually strong winds, known as the polar vortex, which isolated the atmospheric mass over the North Pole and prevented it from mixing with air in the mid-latitudes.

This led to very low temperatures and created conditions similar to those that occur every southern hemisphere winter over the Antarctic..."

 http://www.esa.int/esaCP/SEMIF24SZLG_index_0.html

Ágúst H Bjarnason, 6.4.2011 kl. 07:00

2 identicon

Sæll Trausti

Takk fyrir mjög góð skrif um veðurfar.

Úr því að minnst er á kulda og árið 1979 hér í þessari færslu, langar mig að vita hvort að þið veðurfræðingar hafið einhverjar skýringar á veðurfarinu 1979?

Eins og margir vita, eða vita ekki, var árið 1979 kaldasta árið á öldinni sem leið hér á landi.

Var svona kalt árið 1979 víðar en á Íslandi?

Sigurgeir F. Ólafsson (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 11:24

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka þér fyrir Ágúst. Sigurgeir: Árið 1979 var kalt víða - má teljast síðasta kalda árið á norðurhvelsvísu áður en mikil hlýnun tók við. Ég þekki ekki ástandið í heiðhvolfinu það ár en hægt er að fletta því upp - ég læt það samt bíða. Ástæða kuldans hér á landi voru óvenju tíðar norðlægar vindáttir auk þess sem hafís var með meira móti fyrir norðan land. Ég hallast að því að sú staða hafi verið tilviljun, veðrið er mjög tilviljanakennt. Alla vega voru vindáttir og loftþrýstingur innan þeirra marka sem tilviljunarlögmál stika.

Trausti Jónsson, 7.4.2011 kl. 00:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 844
  • Sl. sólarhring: 898
  • Sl. viku: 2639
  • Frá upphafi: 2413659

Annað

  • Innlit í dag: 790
  • Innlit sl. viku: 2390
  • Gestir í dag: 767
  • IP-tölur í dag: 749

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband