Síðasta jökulskeið í sjónhendingu (söguslef 17)

Söguslef heldur áfram. Við lítum nú á síðasta jökulskeið eins og það birtist undir sjónarhorni tveggja gerða veðurvitna. Annars vegar er það einn af mörgum ískjörnum frá Grænlandi (svokallaður grip-kjarni) en hins vegar fjölvitnasamantekt um sjávarstöðu. Vitnað er í þennan ákveðna ískjarna með því að benda á grein eftir Sigfús Johnsen og fjölda annarra 1997 (sjá hér að neðan). Upplýsingarnar um ágiskaða sjávarstöðu eru úr grein eftir Waelbroeck og margra annarra 2002 (sjá að neðan).

 w-s_jokulskeid_grip-rlsstg

Við minnum á að ískjarnaraðir eru fjölmargar og þeim ber auðvitað ekki nákvæmlega saman. Vonandi hafa hungurdiskar þrek til að sýna myndir af nokkrum þeirra í framtíðinni með viðeigandi texta. Það skal ætíð tekið fram að sá sem skrifar er veðurfræðingur en ekki annað og sjónarhornið er því úr þeim fræðaranni - aðrir kunna að líta öðrum og réttari augum á gögnin.

Í viðhengi sem fylgdi með söguslefi í haust var í nokkuð löngu máli fjallað um samsætumælingar og hitafar. Það verður ekki endurtekið hér - en þeir sem nenna því hefðu gott af því að rifja það upp . Þar var hugtakið sjávarsamsætuskeið (Marine Isotope Stage - MIS) kynnt til sögunnar.

Myndin sýnir tvo ferla. Sá bláleiti eru súrefnissamsætuvik úr grip-kjarnanum. Náð var í hann með borunum á hábungu Grænlands. Hann er talinn ná um það bil aftur á síðasta hlýskeið fyrir um 120 þúsund árum - eldri ís er í kjarnanum en hefur eitthvað aflagast. Því stærra sem samsætuvikið er því kaldara er talið hafa verið á Grænlandi. Núverandi hlýskeið er lengst til hægri á myndinni, en eem-hlýskeiðið er lengst til vinstri. Þar á milli eru gríðarlegar sveiflur. Ég mun síðar fjalla meira um þær.

Rauðleiti ferillinn á að sýna sjávarstöðu í aðalatriðum. Við sjáum að á eem var hún e.t.v aðeins hærri en nú á dögum, enda virðist fleira benda til þess að það hlýskeið hafi alla vega um tíma verið ívið hlýrra en það sem við nú upplifum. Síðan féll sjávarstaðan mikið, reyndar í nokkrum þrepum allt þar til lægstu stöðu var náð fyrir um það bil 20 þúsund árum. Þá segir ískjarninn líka hafa verið kaldast. Sjávarstaðan var lægst um 120 metra undir núverandi sjávarmörkum. Hér á landi þrýstu jöklar landinu niður með fargi sínu þannig að hér var sjávarborðið eitthvað allt annað. En þetta lága sjávarborð varð til þess að víða mynduðust landbrýr á milli meginlanda og eyjaklasa sem nú á dögum eru undir sjávarmáli. Nægir að minna á landbrúna yfir Beringssund milli Alaska og Asíu þar sem veiðimenn eru sagðir hafa farið yfir til Ameríku á þurrum fótum.  

Mjög athyglisvert er að sjá að hlýrri tímabil innan jökulskeiðsins og hærri sjávarstaða fylgjast að þótt sjávarborðið (jöklarúmmál) sveiflist ekki nærri því eins ört og hitinn. Mér (veðurfræðingnum) finnst þó líklegt að stærð jökla hafi sveiflast miklu meira heldur en þessi grófi sjávarborðsvísir getur sýnt.

Í næsta söguslefi (18) verða fleiri bráðnauðsynleg (?) hugtök kynnt til sögunnar.  

Vitnað er til: 

Johnsen, S.J., H.B. Clausen, W. Dansgaard, N.S. Gundestrup, C.U. Hammer, U.Andersen, K.K. Andersen, C.S. Hvidberg, D. Dahl-Jensen, J.P. Steffensen, H.Shoji, A.E. Sveinbjörnsdóttir, J.W.C. White, J. Jouzel, and D. Fisher. (1997). The d18O record along the Greenland Ice Core Project deep ice core and the problem of possible Eemian climatic instability. Journal of Geophysical Research 102:26397-26410.

Waelbroeck, C., L. Labeyrie, E. Michel, J.C. Duplessy, J. McManus,K. Lambeck, E. Balbon, and M. Labracherie. 2002. Sea-level and deep Water temperature changes derived from benthic foraminifera isotopic records. Quaternary Science Reviews, Vol. 21, pp. 295-305.

Einnig bendi ég á tvær greinar eftir Árnýju Sveinbjörnsdóttur í Náttúrufræðingnum 1993 og 1994. Í þeirri fyrri er á mjög greinargóðan hátt fjallað um samsætuhlutföll og samband þeirra við hitafar, en í þeirri síðari er sagt frá grip-kjarnanum góða og hvernig náð var í hann. Báðar greinarnar eru aðgengilegar á timarit.is.

Árný Erla Sveinbjörnsdóttir Fornveðurfar lesið úr ískjörnum. Náttúrufræðingurinn. 1993; 62 (1.-2.h.): s. 99-108.

Árný Erla Sveinbjörnsdóttir. Nýr ískjarni frá Grænlandsjökli. Náttúrufræðingurinn, 1994; 65(22): s. 83-96.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hver skyldi nú hafa verið júlímeðalhitinn á Haugi í Miðfirði á háskeiði jökultímams?!

Sigurður Þór Guðjónsson, 5.4.2011 kl. 13:46

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Trúlegt er að undir nokkur hundruð metra þykkum ísnum yfir Haugi hafi hiti í júlí verið um frostmark. En það er auðvitað hugsanlegt að jökullinn hafi verið botnfrosinn á þeim slóðum - það fer bæði eftir því hvernig jökulskeiðið bar að og sömuleiðis hvert varmaflæði að neðan hefur verið. Hver vetrarhitinn hefur verið á yfirborði jökulsins fer m.a. eftir því hversu hár hann var miðað við sjávarmál. Júlíhitinn hefur ekki verið hærri en núll stig og ekki er víst að hann hafi verið mikið lægri en það nema að jökullinn hafi verið því þykkari (hærri).

Trausti Jónsson, 5.4.2011 kl. 18:45

3 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Takk fyrir þetta - söguslefið er í uppáhaldi hjá mér :)

Höskuldur Búi Jónsson, 5.4.2011 kl. 19:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg080125a
  • w-blogg070125hb
  • w-blogg070125ha
  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 887
  • Sl. viku: 3492
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2881
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband