Vetur og vor takast á?

Svo virðist sem kuldapollurinn mikli sem ráðið hefur öllu veðri hérlendis nú um skeið hörfi í vikunni til Svalbarða. Sá staður er að vísu mjög óþægilegur fyrir okkur því þaðan getur hann beint til okkar leiðindum yfir Grænland. Við lítum á slíkt gefist tilefni til. Svo virðist sem Skandinavía eigi mjög leiðinlegt kuldakast fyrir höndum.

Undanfarna daga hefur heimskautaröstin ólmast fyrir sunnan og austan land. Við höfum lengst af verið inni í kalda loftinu á norðvesturhlið hennar. Samfelldur, sterkur vindstrengur hefur náð frá Nýfundnalandi til Norður-Noregs. Næstu tvo daga er gert ráð fyrir því að vindstrengurinn snúist sólarsinnis þannig að á miðvikudagsmorgun á hann að blása beint úr vestri yfir landið. Þetta má sjá á kortinu hér að neðan.

w-hirlam-300hPa-200311-60t-spa

Svörtu, heildregnu línurnar tákna hæð 300 hPa flatarins í dekametrum (dam = 10 metrar) og er hún á bilinu 8140 metrar þar sem lægst er nærri Svalbarða og upp í rúma 9340 metra yfir Írlandi. Vindur er táknaður með litum og má sjá litakvarðann til hægri á myndinni. Ljósgræni liturinn táknar vind á bilinu 25 til 50 m/s (50 til 100 hnúta). Vindstefnu og vindhraða má einnig sjá á vindörvunum. Yfir Íslandi er strengurinn um 75 m/s.

Á miðvikudaginn á að hafa byggst upp fyrirstöðuhæð við Bretland en slíkt hefur ekki sést í nokkrar vikur. Vestan við hana er sunnanátt langt sunnan úr höfum og ber vorið þaðan með sér. Það skal tekið fram að ég er ekki sérstaklega bjartsýnn á frekari framrás þess, en alla vega kemst það nær okkur heldur en verið hefur að undanförnu. Norðan vindstrengsins mikla er hörkuvetur.

Vegna þess að kalt loft er þyngra en hlýtt smeygir kalda loftið sér undir vindröstina þannig að við jörð eru mót milli kalda og hlýja loftsins sunnar en háloftavindröstin sjálf. Hér eru þau skil nærri 60°N. Framhaldsspár gera síðan ráð fyrir því að röstin snúist enn frekar og liggi þá úr norðvestri til suðausturs ekki langt fyrir norðaustan land.

Þegar vindur blæs úr vestri beint yfir Grænland í háloftunum er erfitt fyrir vind í neðri lögum að ná áttum. Vindur austan jökulsins leitar í stefnu samsíða fjallgarðinum frekar en þvert á hann. Þvervindur er þar undantekning. Þetta verður til þess að sífellt eru að myndast lægðardrög í skjóli við Grænland, þau rífa sig laus og berast austur yfir Ísland. Þetta er óþægileg staða - saklaus ef lægðardrögin eru grunn - en mjög fantaleg nái þau að dýpka. Hitasveiflur eru oft töluverðar í stöðu sem þessari, jafnvel þótt vel fari með veður.

Vorið sækir að en þegar það nálgast vindstrenginn mikla tætist sífellt úr því til austurs, vonin er sú að því takist að hreinsa vindstrenginn alveg norður af þannig að við komumst inn í sunnanáttina vestan fyrirstöðuhæðarinnar. En - því miður, alla vega verðum við að sýna þolinmæði enn um stund.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Oft hafa köldustu dagar ársin verið 18.-22. des., án þess að sérstök skýring hafi fundist á því..

Ég vona bara að sumarið verði hagstætt bændum og öðru lífríki á landinu okkar. Merkilega mörgum verður ekki hugsað til þess, að veðráttan er frekar óblíð hér á landi, sem takmarkar mjög möguleika okkar, t.d. varðandi landbúnað.

Aukið hitastig í andrúmsloftinu vegna hnattrænnar hlýnunar, getur skapað skilyrði (og möguleika) fyrir margfaldri framleiðni í landbúnaði á Íslandi.

Nú hafa víísindamenn komist að þeirri niðurstöðu, að aukið hitastig í heiminum, minnki framleiðslu matvæla, sérstaklega hvað varðar maís.

Maísrækt virðist þola illa örlítla hitastigshækkum, og við eina gráðu hækkum, minnkaði framleiðni maís-plantnanna verulega. Plantan virðst þola illa ef hitastigið hækkar úr 30 gráðum í þrjátíu og eina.

Ég efsat samt ekki um að mannlegt sanfélag finni lausnir á þessu vandamáli.

"You win some.... You loose some"

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.3.2011 kl. 06:53

2 identicon

Getur verið að eftir kalda vetur fáum við svöl og rök sumur?

Man eftir nokkrum dæmum;

Veturinn 1989 fer seint úr minni sökum mikilla kulda og snjóa sem entust langt fram í maí => Kalt og rakt sumar 1989.

Veturinn 1988 kólnaði skyndileg a um áramótin 1987-1988 og hélst kalt langt fram út apríl => Svalt og rakt sumar 1988.

Veturinn 1983 var ekki ósvipaður núverandi vetri, sífelldur útsynningur og éljagangur => Rigningarsumar sumarið 1983.

Allir muna eftir hinum rysjótta vetri eftir áramótin 1980/1981 => Sumarið kom seint 1981 og var þar að auki svalt og sólarlítið. 

Man einhver eftir kaldasta ári á öldinni?  Hér er ég að tala um árið 1979.  Eftir áramótin 1978/1979 kólnaði all verulega og fannfergi var gífurlegt langt fram í maí.  => Sumarið kom seint og var þar að auki kalt.

Eigum við kannski von á svölu og röku sumri nú í ár eftir þennan rysjótta vetur?

Sigurgeir F. Pálsson (IP-tala skráð) 21.3.2011 kl. 09:27

3 identicon

Sigurgeir, byggir þú þetta um "kaldasta ár á öldinni, 1979" á skýrslum Veðurstofunnar? Hélt að t.d. 1918 hefði verið kaldara, sem og 1969, en það getur hafa verið landshlutabundið.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 21.3.2011 kl. 10:00

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Á síðustu öld var árið 1979 var kaldasta árið víða um land og þar meðal í Reykjavík, en janúar 1918 var kaldasti mánuðurinn.

En nú má kannski að fara að huga að hafísnum út af Vestfjörðum enda ekki miklar austan- og norðaustanáttir í kortunum til að hindra framgöngu hans.

Emil Hannes Valgeirsson, 21.3.2011 kl. 13:21

5 identicon

Þorkell, þótt ótrúlegt megi virðast, þá var árið 1979 kaldasta ár á síðustu öld.  Allir mánuðir að undanskildum febrúar og desember það ár, voru undir meðaltals hita, sumir meira að segja langt undir, t.d. janúar og okt. 1979.

Vissulega var mjög kalt hér á landi í janúar-febrúar 1918, en svo tók að hlýna all verulega og til að mynda var sumarið það ár all hlýtt.  Það sem eftir lifði ársins 1918 var kringum meðallag á þeim tíma.

Sigurgeir F. Pálsson (IP-tala skráð) 21.3.2011 kl. 14:59

6 identicon

........já þetta er óttaleg kuldatíð og leiðindaveðrátta. Þó er þessi vetur ekkert

hjá verulegum frostavetrum eins og " Lurki" og fleirum fyrr á öldum . Einn

afar kaldur var 1881, en þá lagði sundin um allar eyjar í Faxaflóa og líki var ekið á sleða úr Engey og líkfylgdin gekk á eftir. En þar sem vísindin og tölvuspár þrýtur tekur  þjóðtrúin við: Og hún spáir hörðum vetri komandi , sem er ekki

beint upplífgandi eftir þessa óskemmtilegu rússíbanareið síðustu vikna. Sumsé

svo vitnað sé í kaflann um veðurfar í bók Jónasar frá Hrafnagili;  þá þóttu

" sumarpáskar " vita á harðan vetur. Og nú eru " sumarpáskar ". Auðvitað eru þetta hégiljur einar,  en samt sem áður  var þetta Veðurstofa og langtímaspár forfeðranna og etv. ekkert verri en nútíma langtímaspár sem jafnvel öflugustu ofurtölvur ráða ekki við. Amk. ekki marga mánuði fram í tímann.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig næsti vetur artar sig og hvort þjóðtrúin

reynist sannspá. Vonum ekki. 

                                                      Óli Hilmar Briem

óli Hilmar Briem Jónsson (IP-tala skráð) 21.3.2011 kl. 20:00

7 Smámynd: Trausti Jónsson

Það tekur því varla að fara að minnast á kalda vetur eftir þetta smávægilega kuldakast sem yfir okkur hefur gengið nú í mars. Og þótt veður hafi nú verið með órólegra móti í 6 vikur eða svo er það langt í frá að vera samanburðarhæft við skítaár fyrri tíma. Það verður hins vegar nokkuð spennandi að sjá hvort mars nær því að verða kaldasti mánuður að tiltölu í Reykjavík frá því í febrúar 2002. Þá var mun kaldara að tiltölu (3,7 stig undir meðallagi) en verið hefur í mars fram að þessu (2,1 stig undir meðallagi). Í viðhengi við pistil hungurdiska 14. janúar síðastliðinn  er mikill listi þar sem árum og mánuðum er raðað eftir hita. Þar má m.a. sjá að 1979 er kaldasta ár frá aldamótum 1900 sé litið á landið allt. En þarna má einnig finna röð árshita í einstökum landshlutum. 1918 var kaldasta ár aldarinnar um landið norðvestanvert. Ekkert skýrt samband hefur fundist á milli kaldra vetra og kaldra sumra. En hvað sem því líður er núlíðandi vetur enn 0,7 stigum ofan við meðallag hér í Reykjavík. - En sumarið gæti orðið kalt þrátt fyrir það.

Trausti Jónsson, 21.3.2011 kl. 20:56

8 Smámynd: Trausti Jónsson

Já, sumarpáskar. Mér sýnist í fljótu bragði að sumarpáskar hafi síðast orðið árið 2000. Það sumar fékk eftirfarandi eftirmæli í veðurfarsyfirliti Veðurstofunnar: Sumarið var fremur hlýtt og sólríkt og ekki getur veturinn talist harður. Þessi trú sem Óli Hilmar minnist á gæti hafa fengist „staðfest“ vorið 1859 en þá voru páskar að því er ég held 23. apríl. Fádæma kuldar fóru á undan þeim páskum, en bati kom á páskadag. Hafa menn sjálfsagt kviðið næstu sumarpáskum á eftir en þeir voru að því er ég held 1886 (25. apríl). Veturinn á undan var mjög kaldur - mars þó skárstur og rosalega kalt var um mánaðamótin mars-apríl. Um páskahret má fræðast í pistli á vef Veðurstofunnar.

Trausti Jónsson, 21.3.2011 kl. 21:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 48
  • Sl. sólarhring: 147
  • Sl. viku: 1969
  • Frá upphafi: 2412633

Annað

  • Innlit í dag: 48
  • Innlit sl. viku: 1722
  • Gestir í dag: 47
  • IP-tölur í dag: 46

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband