Loftþrýstimet marsmánaðar

Loftþrýstimet marsmánaðar á Íslandi eru bæði orðin mjög gömul, háþrýstimetið frá 1883 en lágþrýstimetið frá 1913. Svo er endurgreiningu bandarísku veðurstofunnar fyrir að þakka að auðvelt er að búa til veðurkort fyrir þessa daga. Þau virðast trúverðug í þessum tilvikum (en eru það ekki alveg alltaf).

Háþrýstimetið er 1050,9 hPa og var sett í Stykkishólmi 6. mars 1883. Árið 1883 er þekkt í sögunni fyrir það að hafa verið eins konar hvíldartími í harðindunum miklu á árunum 1881 til 1887. Ekki var veturinn 1882 til 1883 þó veðralaus, t.d. gerði eftirtektarverða útsynningsbylji seint í febrúar (kuldapollur yfir Grænlandi) og einnig gerði mikið páskahret í lok mars. Þeir sem lesið hafa AustantórurJóns Pálssonar þekkja það en Jóni varð illviðri þá dagana alveg sérstaklega minnisstætt.  

w-c20v2-0603-1883-00

Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins yfir N-Atlantshafi aðfaranótt 6. mars 1883. Þegar 1000 hPa flöturinn er í 400 metra hæð er þrýstingur við sjávarmál við 1050 hPa. Það er því 1050 hPa þrýstilínan sem liggur við strendur Íslands, þrýstingur í hæðarmiðju er lítillega hærri.

Jónas Jónassen læknir í Reykjavík hélt mjög fróðlega veðurdagbók á þessum árum og birti reglulega útdrátt úr henni í blöðum bæjarins (Þjóðólfi og Ísafold). Í pistlinum um marsmánuð 1883 segir hann um loftvogina þennan dag:

Í þessum mánuði hefur það viljað til, sem aldrei í mörg ár hefur að borið, að loptþyngdarmælirinn komst (h. 6.) upp fyrir 31 (31 enskir þumlungar eru = 29,1045 Parísar-þuml.) og á mínum mæli, sem er enzkt aneroidbarometer gat vísirinn eigi komizt hærra. (Jónas Jónassen í Ísafold 28. maí 1883).

Aneroidbarometer er dósarloftvog með vísi eins og algengar voru lengi á íslenskum heimilum. Loftvog Jónasar hefur ábyggilega verið af vandaðri gerð en náði ekki nema upp í 31 enskan þumlung (hver þumlungur er 25,4 mm). Það jafngildir 1049,8 hPa og vel má vera að þrýstingur í Reykjavík hafi orðið hærri heldur en í Stykkishólmi. Jónas nefnir Parísarþumlunga vegna þess að það var langalgengasta mælieining loftþrýstings hér á landi fram undir þetta og því verið mörgum veðurnördum þess tíma kunnugleg frekar eða jafnt og ensku tommurnar. Danska veðurstofan var þó farin að nota millimetraloftvogir.

w-c20v2-0403-1913-12

Veðurkortið lágþrýstimetdaginn 4. mars 1913 má sjá hér að ofan. Þá mældist þrýstingur í Vestmannaeyjakaupstað 939,0 hPa. Lægðin var um 932 hPa í lægðarmiðju. Hún dýpkaði mjög snögglega nóttina áður. Hún hefur valdið austanillviðri þá um nóttina og morguninn, áttin var norðaustlægari á Vestfjörðum og við Breiðafjörð. Ekki hef ég fundið heimildir um skaða í veðri þessu en um þessar mundir var mjög illviðrasamt og tjón varð í öðrum veðrum. Getið er um foktjón á Siglufirði fyrri hluta mars en ég er ekki viss um daginn. Reyndar er þetta veður dæmigert um þá veðraætt sem veldur sköðum á Siglufirði. Þetta upplýsist e.t.v síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú kætist Sigurður Þór! Efast þó ekki um að þetta er allt skráð í hans gögnum. Annað mál, sem mig langar að minnast á í sambandi við meðaltöl. Ég hef á tilfinningunni án þess að geta staðfest það með nokkrum hætti að ársúrkoma hafi farið ört minnkandi síðustu tíu-tólf ár eða svo. Jafnvel lengur. Vetrarsnjór hafi verið að meðaltali minni en lengi áður og sumarúrkoma sömuleiðis í minna lagi. Nú er þetta efalítið til skráð og tiltækt - ekki ólíklegt að Sigurður Þór eigi þetta í sínum skrám. Gaman væri ef einhver myndi spá í þetta (kannski er það búið og hefur farið framhjá mér?).

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 20.3.2011 kl. 10:42

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég tek nú ekki gleði mína fyrr en alla snjóa leysir og hitinn fer í a.m.k. 15 stig. En þá mun ég líka leika við kvurn minn fíngur eins og kýrnar!

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.3.2011 kl. 12:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 102
  • Sl. sólarhring: 160
  • Sl. viku: 2023
  • Frá upphafi: 2412687

Annað

  • Innlit í dag: 97
  • Innlit sl. viku: 1771
  • Gestir í dag: 91
  • IP-tölur í dag: 85

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband