Meira snjóar (því miður?)

Nú virðist sem mesta hvassviðrið samfara kuldapollinum nafnlausa sem ég hef pistlað hér um undanfarna daga sé að ganga hjá. Hann þokast í norðurátt og lengra verður á milli bæði þrýsti- og jafnhæðarlína. Nú tekur við mjög flókin staða - ég þyrfti sjálfsagt að skrifa langa pistla á þriggja til sex tíma fresti til að ná því að fylgjast með henni þannig að gagn megi hafa af. Ég læt vera að gera það - en við skulum samt líta á nýja tunglmynd og meta stöðuna. Myndin er af óskýrari gerðinni tekin af vef Veðurstofunnar en þangað kom hún kl. 00:15 þann 16. mars (seint á þriðjudagskvöldi) frá jarðstöðuhnetti yfir miðbaug.

w-seviri1603110-0000

Í gær höfðu spár gert ráð fyrir því að lægðin (sem við í gær kölluðum B2) tættist í sundur í skotvindum heimskautarastarinnar. Það hefur sést í dag. Bláa punktalínan er jaðar blikukápu lægðarinnar (kalda færibandið). Nyrðri endi þess er kominn langt norður fyrir kerfið sem á eftir kemur og nýtist því ekki lengur. Hlýja færibandið, útjaðar þess er merktur með rauðri punktalínu, virðist líka ætla að skilja lægðina eftir. Hún mjókkar og e.t.v. má sjá nokkrar smálægðir skjótast út úr henni að framan.

En meðan lægðin fer hjá hörfar útsynningurinn hvassi sem bar með sér þétt élin í dag (þriðjudag). Mikið illviðri var á fjallvegum um vestan- og norðanvert landið mestallan daginn. Spár eru ekki sammála um hvernig lægðin fer hjá Suðausturlandi. Má sjá ýmis tilbrigði, en líklega mun landið þó sleppa við sunnanrokið undir hlýja færibandinu, komi það inn á land munu austfirðingar heyra gust á glugga. Mikil úrkoma er þar sem hlýja og kalda loftið mætast - þar eru einhvers konar skil sem vita ekki almennilega hvort þau eru köld eða hlý, þau hörfa og sækja fram á víxl þar til meginlægðin rasssíða er komin hjá. Ekki veit ég hversu langt vestur úrkoman mun ná, né hvort hún verður rigning eða snjókoma. Spár Veðurstofunnar nefna það sem líklegast þykir hverju sinni.

Meðan lægðin fer hjá verður óræð átt á Vesturlandi og trúlega úrkomulítið. Venjan er sú að þegar lægðir af þessu tagi eru komnar hjá fellur éljabakki úr vestri inn yfir Vesturland um leið og útsynningurinn nær sér upp aftur. Bakkinn sést misvel í tölvuspám en þar er yfirleitt stungið er upp á aðfaranótt fimmtudags (17. mars). Algjörlega óljóst er hvort eitthvað snjóar að ráði. Snæsinnar geta haldið í vonina en við hin horfum mæðulega á. Við óttumst að fleiri éljabakkar og smálægðir nuddi sér upp að okkur næstu daga - algeng melta mikilla kuldapolla. Við fylgjumst hér með ef tilefni gefst til - þó hvorki á þriggja né sex klukkustunda fresti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Trausti og takk fyrir frábæra, fræðandi og skemmtilega pistla.

Ég var að velta því fyrir mér hvort það væru til endanlausir kuldapollar?  Kannski fáránleg spurning hjá mér, en þetta virðist vera endalaust.

Maður fer að velta fyrir sér hvort að fyrirbærið "Global Warming" hafi runnið sitt skeið á enda, enda hafa verið kaldir vetrar á mest-öllu norður hveli Jarðar undanfarna 2-3 vetur. 

Annað sem mig langar til að spyrja þig um, en það er að það virðast oft vera veðrahvörf um og upp úr áramótum.  T.d. geta verið frekar mild og róleg tíð fram í Desember, en strax í byrjun janúar breytast veður oft til hins verra, það kólnar og það verður úrkomusamara og meiri risjótt tíð það sem eftir lifir vetrar.

Er þetta tilfellið, og hvað veldur þessu?

Kveðja:

Sigtryggur M. Björnsson

Sigtryggur M. Björnsson (IP-tala skráð) 16.3.2011 kl. 10:40

2 identicon

....ekki meiri snjó takk ! Samfarir kuldapolla og hlýju Línu eru orðnar þreytandi og

börnin þeirra svo skolli óþekk og kaldlynd . Er ekki til dvalarheimili aldraðra kuldapolla ?  Td. væri Íshafið norðan Svalbarða eða norður Grænland fínn staður.

Rúðusköfurnar eru orðnar bitlausar og bustarnir sköllóttir, en þetta styrkir

upphanleggsvöðvana. Legg til að svona kuldapollar fái nafnið " MORRI" eftir

yndislegri teiknimyndapersónu í Múmínálfateiknimyndunum. Morrinn er tákngerfingur alls sem kalt er - ofurkalt.

Fín kort - skemmtilegt spjall !   Takk.

                                                Óli Hilmar Briem

óli Hilmar Briem Jónsson (IP-tala skráð) 16.3.2011 kl. 11:27

3 identicon

Ekki veit ég hvað spárnar frá Wetterzentrale eru áreiðanlegar, en þær spá kuldapollinum, sem verið hefur að rótast í veðrinu hér brogaðri framtíð, fyrst skipti hann sér en skríði svo aftur saman norður af Síberíu. En undir lok næstu viku gera þau líka ráð fyrir að annar pollur myndist vesturundan, á svipuðum slóðum og hinir fyrri. Það á svo sem eftir að koma í ljós hvort þetta rætist.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 16.3.2011 kl. 13:03

4 identicon

Í framhaldi af því sem að Sigtryggur sagði,þá er gamla bændareglan :Dagene længes-vinteren strænges. Ætli að það gildi ekki enn þá. Jörðin er lengi að kólna og lengi að hitna.

En hvenær ætlar þú Trausti að fara að spá vori ?

Ólafur

Ólafur Stefánsson (IP-tala skráð) 16.3.2011 kl. 16:27

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Sigtryggur:

Ætli það séu ekki full djúpt í árina tekið (eða bara rangt) að segja að "enda hafa verið kaldir vetrar á mest-öllu norður hveli Jarðar undanfarna 2-3 vetur". Þess má geta að það hafa komið kaldir kaflar bæði staðbundið í Bandaríkjunum og staðbundið Evrópu einhverja vetur (jafnvel hægt að tína fleiri staði til með góðum vilja), t.d. þann sem er að líða núna, en það er þó alls ekki altækt.

En margir hafa haldið fram fullyrðinum, út frá fréttaflutningi (sem er vissulega mikill) af kuldaköstum að "Global Warming" hafi runnið sitt skeið á enda (eins og þú velur að orða það) - en ætli það sé ekki einhver óskhyggja falin í þessu orðalagi. Síðasta ár var eitt það heitast frá því mælingar hófust og þetta ár er í sjálfu sér ekkert óvenju kalt á heimsvísu, þó vissulega megi finna stöku staði þar sem hefur verið kalt - þó að Ísland sé ekki einn af þeim.

En betra er að skoða heildina og þá hugsanlegar skýringar á kuldaköstum, sem vissulega geta átt sér stað þrátt fyrir hlýnandi loftslag á heimsvísu.

Sveinn Atli Gunnarsson, 16.3.2011 kl. 20:32

6 Smámynd: Trausti Jónsson

Sigtryggur. Jú, kuldapollarnir eru endalausir, jafnt sumar sem vetur. En undanfarnar 6 vikur hafa þeir stóru verið með ágengara móti á okkar slóðum. Ég hef hugsað mér að fjalla einhvern tíma um tilurð þeirra en það er erfið saga sem þarfnast nokkurs aðdraganda - fyrst er að menn átti sig á því að þeir eru til og eru á hreyfingu. Þeir eru hluti af norðurslóðaveðrinu sem ég hef reynt að kalla svo og segir yfirleitt lítið af í veðurfréttum. Í þeim er varla að finna nema eina gerð veðurkerfis - Björgvinjarlægðina - og þá aðallega klámútgáfur af henni.

Óli Hilmar. Morrinn er eftirminnileg persóna - ég rugla öllum öðrum persónum Múmínálfanna alltaf saman - og sannarlega eru kuldapollar norðurslóða morralegir. Þegar fyrsta vinsældabylgja álfanna reið hér yfir var ég kominn á þann aldur að telja barnabækur lummó. Ég hef síðar kreist mig í gegnum allmargar bækur - en eiginlega án árangurs - nema hvað morrinn situr í mér.

Þorkell. Spárnar sem þú átt við á Wetterzentrale eru sennilega þær amerísku (gsf) litamynstrið sem þessi síða notar sýnir kuldapolla prýðilega, en erfitt er að fá kort í sæmilegri upplausn sem sýna báðar hliðar norðurhvels. Ég horfi mikið á kanadísk kort sem ná Síberíu reyndar illa. Ástæðan þess að ég leita í þau er sennilega sú að þau eru eins teiknuð og fyrstu háloftaspákortin sem ég kynntist fyrir nærri 40 árum.

Ólafur. Bændareglan danska sem þú nefnir lýsir vel því sem gerist fyrst eftir sólstöðurnar, þá lengjast dagarnir en á meginlöndunum kólnar áfram - að minnsta kosti fram í byrjun febrúar. Hér er mjög lítill munur á hitafari við sólstöður og í marslok, hér á ef til vill við: Dagur lengist biðlund engist.

Varðandi aukin gróðurhúsaáhrif get ég endurtekið enn einu sinni að ef ekki skiptust á hlý og köld ár meðan á hlýnun stendur heldur hækkaði hiti samfellt frá ári til árs mættum við aldeilis fara að vara okkur.

Trausti Jónsson, 16.3.2011 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 48
  • Sl. sólarhring: 144
  • Sl. viku: 1969
  • Frá upphafi: 2412633

Annað

  • Innlit í dag: 48
  • Innlit sl. viku: 1722
  • Gestir í dag: 47
  • IP-tölur í dag: 46

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband