Kuldinn úr suðvestri

Kuldaköst sem koma úr vestri eða suðvestri eiga venjulega erfitt uppdráttar á leið hingað til lands. Bæði er að Grænlandshafið er mjög hlýtt og hitar kalt loft sem yfir það berst (kælir reyndar mjög hlýtt loft) og ekki síður að venjulega myndar Grænland varnarvegg sem hindrar Kanadaloftið í framrás þess til austurs.

Stöku sinnum ber hins vegar svo við að kalda gusan er svo háskreið að hún flæðir yfir vegginn. Þótt loftið hlýni um 20 til 25 stig við að falla niður Grænland austanvert er það samt heljarkalt þegar niður er komið. Kl. 21 í kvöld (mánudaginn 14. mars) var 15 stiga frost í Tasilaq (þar sem áður hét Ammasalik) og þrýstingur 956 hPa. Ef trúa má tölvugerðum kortum var þykktin aðeins 4860 metrar um 200 km þar suðvestur af. Þetta er lægri þykkt en nokkurn tíma hefur mælst yfir Íslandi. Hæð 500 hPa flatarins á þessum slóðum var ekki nema 4660 metrar, ég hef sárasjaldan séð svo lága tölu austan Grænlands.

Mikið hvassviðri gekk yfir landið síðastliðna nótt og í morgun, en nú dúrar á milli veðra. Við skulum í þessu hléi kíkja á tvær gervihnattamyndir frá því í kvöld (14. mars). Þetta eru svonefndar hitamyndir. Á þeirri svarthvítu sem fengin er frá móttökustöðinni í Dundee eru ský og land því kaldari eftir því sem liturinn er hvítari.

w-ch5-dundee-140311-21

Miðja kuldapollsins er við K-ið á myndinni. Hann er ekki alveg sammiðja upp í veðrahvörf og er því er hann ekki orðinn kyrrstæður - hreyfist til norðausturs. Meginskýjaeinkenni svona öflugra kuldapolla er óljós hvít slikja þar sem smáatriði greinast illa. Við sjáum svæði af þessu tagi sunnan við pollinn (ör sem merkt er með tölustafnum 4 bendir á þetta).

Talan 1 er sett við halann úr hlýja færibandinu sem gekk yfir okkur fyrr í dag. Vestast í því eru kuldaskil. Talan 2 er sett við gráa skýjabreiðu vestan kuldaskilanna, þar hafa éljaklakkar varla náð að myndast. Þó var dálítið haglél hér í Reykjavík um kl. 23 - kannski erum við þegar komin undir það svæði sem merkt er 3. Þar eru éljaklakkarnir orðnir greinilegir en eru ekki orðnir það háreistir að þeir skáki hvítu breiðunni við örina áðurnefndu. Talan 5 er sett yfir éljasvæðið suðvestur af Grænlandi. þar má m.a. sjá örsmáa (öfugsniða-) pólarlægð. Mikið hríðarveður gerði í Nuuk þegar meginéljagarður kuldapollsins gekk þar hjá og fréttist af bílum á kafi í snjó.

Nú er ekki alveg gott að segja hvað gerist - tölvuspár eru þó ákveðnar í því að miðja kuldapollsins fari norðaustur með Grænlandi. Það þýðir að hvíta svæðið nálgast og á að fara yfir landið vestanvert á morgun. Spurningin er hversu slæmt veðrið verður - tölvuspárnar segja að það verði verst á Vestfjörðum síðdegis eða undir kvöld á morgun (þriðjudag). Þykktarspár gera ráð fyrir því að þykktin fari niður undir 5000 metra. Loftið verður því mjög kalt, en sjórinn kyndir undir. Það er alltaf ógæfulegt þegar saman fara mikið frost, mikill vindur og lágur loftþrýstingur, þetta þrennt. Þeir sem ætla að leggja í ferðalög meðan þetta ástand gengur hjá ættu að fylgjast sérstaklega vel með veðurspám og veðurathugunum á heiðavegum og hálendi. Munið að hungurdiskar spá ekki.

Síðan gengur veðrið niður og næsta lægð nálgast. Hvernig fer með hana er harla óljóst enn. Lítum á aðra hitamynd - í þetta sinn frá Kanadísku veðurstofunni.

w-goes-env-can140311-2215

Þar sýna gulrauðu og gulu svæðin köldustu skýin. Við sjáum það sama og á fyrri mynd en lægðin sem ég hef kallað B2 er miðsvæðis. Ef vel er að gáð má sjá lokaðan hring lægðarinnar um það bil þar sem örin endar. Þetta er merki um að bylgjan gangi ekki alveg heil til skógar. Lokaðar hringrásir eru tregar í taumi og sitja stundum eftir á nærbuxunum þegar aðrir hlutar lægðakerfisins spretta úr spori.

Að öðru leyti en þessu er talsverður kraftur í kerfinu, við sjáum hausinn og sæmilega greinilegt hlýtt færiband og mikinn aukaskammt af mjög röku lofti í innra færibandi (II). Spár eru enn ekki sammála um það hvernig kerfið kemur til með að þróast. Í morgun var það látið tætast í sundur og þá reiknað með því að það gerði lítið vart við sig hér á landi nema að slá á útsynninginn rétt í bili. Síðdegis og í kvöld er lægðarmiðjunni spáð vestar þá yrði austanvert landið fyrir henni að einhverju leyti. En það kemur í ljós á næstu 36 stundum eða svo.

Síðan taka fleiri bylgjur við, þær eru þegar orðnar til vestur í Ameríku, en ég veit ekki hver þeirra verður fyrst hingað. Spár eru líka mjög á reiki. Aukabylgja sem nú er ekki til gæti líka skotist á milli númer 2 og 3 strax á fimmtudaginn. En þetta er athyglisverð vika fyrir þá sem fylgjast með veðurspám.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Dagurinn eftir morgundaginn. Nú koma ragnarökin!

Sigurður Þór Guðjónsson, 15.3.2011 kl. 01:51

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Svona, svona

Trausti Jónsson, 16.3.2011 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 294
  • Sl. sólarhring: 324
  • Sl. viku: 1868
  • Frá upphafi: 2350495

Annað

  • Innlit í dag: 219
  • Innlit sl. viku: 1668
  • Gestir í dag: 208
  • IP-tölur í dag: 207

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband