Kuldakast næstu viku?

Í dag gekk snarpt suðaustanveður yfir landið úr vestri. Þegar þetta er skrifað er það ekki komið alveg austur af en hér á Vesturlandi er bærilegt veður í bili á eftir kuldaskilunum, áður en útsynningurinn fer að byggjast upp - en það gerir hann væntanlega í nótt eða í fyrramálið. Við lítum nú á gervihnattarhitamynd (hér af vef Dundee-móttökustöðvarinnar í Skotlandi).

w-dundeech5050311-21

Ísland er í hægri jaðri myndarinnar - Grænland fyrir miðju. Myndin sýnir haf, land og skýjakerfi, því hvítari eftir því sem kaldara er. Hvíta röndin yfir Íslandi er skýjakerfi illviðrisins í dag. Lægðin sem tengist því er merkt sem rautt L yfir Grænlandshafi, hluti hennar fer hratt til norðausturs en eftir situr hægfara lægð eða lægðardrag til morguns.

Bókstafurinn Þ stendur þar sem er mjög stórt heiðríkt svæði í skjóli Grænlands. Tölustafurinn 1 er settur við éljagarð sem er að sækja í sig veðrið og berst hratt til Íslands, spár segja hann fara yfir milli kl. 2 og 4 í nótt (aðfaranótt sunnudags 6. mars).

Nýtt lægðakerfi er vestan Grænlands, við litla rauða L-ið er lítil lægð en hún hefur um sig furðumikið skýjabelti. Strikaði hringurinn sýnir hefðbundinn blikuhaus lægðarinnar. Sunnan lægðarmiðjunnar er mjög skörp norðurbrún á miklu skýjakerfi. Þegar við sjáum svona langa, snjóhvíta og skarpa brún getum við nærri því örugglega gengið að því vísu að þarna er að finna mikinn skotvind, hluta af heimskautarastarkerfi norðurhvels. Þetta er hlýja færiband lægðarinnar. Norðan hennar hef ég sett stórt rautt K. Þar er miðja mikils kuldapolls. Hann er ekki alveg jafn öflugur og þeir sem hungurdiskar fjölluðu um fyrir nokkrum vikum, en mikill samt. Þykktin í honum miðjum er undir 4800 metrum.

Nú vill svo til að hann er á hreyfingu austur eins og blástrikaða örin sýnir, en svo vill einnig til að vindröstin sunnan við hann sem ber með sér litlu lægðina hreyfist mun hraðar til austurs en hann sjálfur. Þegar svona stendur á er gjarnan sagt að bylgjurnar séu ekki í fasa. Lægðir eins og sú litla þurfa að fá kalda bylgju í bakið til að geta vaxið að ráði. Þessi flýtir sér svo að hún missir af fóðri kuldapollsins. En samt verður gaman að fylgjast með skýjakerfinu. Séu spár réttar á það að fara yfir Ísland annað kvöld. Kannski sjáum við blikubakkann síðdegis á morgun og kannski snjóar úr honum þegar lægðin misheppnaða fer hjá sem útflatt lægðardrag.

Líta má svo á að veðrakerfið á okkar slóðum felist í stefnumótum háloftalægðardraga og hryggja sem stundum ná saman og stundum ekki. Þegar stórir kuldapollar taka á skrið er eins gott að hafa varann á. Þeir gætu mætt einhverju hlýju færibandi og orðið að verstu veðrum.

Grænland er oftast nær góður varnarveggur gegn vondum sendingum úr vestri, en sá veggur vinnur síður á hringrás stórra kuldapolla heldur en öllu öðru, jú, við sleppum við kaldasta loftið undir pollinum, þetta með þykktina 4800 metra, en við sleppum ekki við veðrahvarfalægðina sem er meginstoð pollanna. Kostur er þó að sunnanátt er á undan pollunum og hún er sjaldnast köld - en norðanáttin sem fylgir á eftir er sérlega köld. Svo virðist að við þurfum aftur að taka fram kuldaúlpurnar í vikunni. Við vonum bara að það taki fljótt af. En hungurdiskar fylgjast með, eftir því sem tilefni gefst til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Geturðu ekki hætt að koma með þessi kuldaköst og skellt vorinu á?

Offari, 6.3.2011 kl. 14:35

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Vorið lætur stundum bíða eftir sér - ekki síst í mars.

Trausti Jónsson, 7.3.2011 kl. 00:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg231124-kosningaspa-ec b
  • w-blogg23124-kosningaspa-ec a
  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 8
  • Sl. sólarhring: 212
  • Sl. viku: 2306
  • Frá upphafi: 2413970

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 2121
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband