Eru framandleg veðurfræðihugtök vandamál?

Ekki hefur mikið verið útgefið af veðurfræðilegu efni á íslensku. Sennilega hafa 40-ára sjónvarpsveðurfréttir þó komið í veg fyrir fullkomið þekkingarleysi annarra en æstustu áhugamanna. Það er trúlega sjónvarpinu að þakka að nokkur fjöldi fólks veit hvað hæðir og lægðir eru og að úrkoma getur bæði verið skúrakennd eða fallið úr úrkomusvæðum. Sumir vita meira að segja að landfræðileg dreifing veðurs í hæðum og lægðum er furðu kerfisbundin. Þeir fróðari vita að lægðir og hæðir fæðast og deyja og að til er auðlæranlegt kerfi sem segir til um þróun kerfanna og algengustu dreifingu veðurs í þeim. Þar með fylgja upplýsingar um þau tengsl úrkomu og hitafars sem lýst er með veðraskilum (hitaskilum, kuldaskilum og samskilum). Sömuleiðis að samband er á milli loftþrýstings og vinda og að vindur leitar sólarsinnis kringum hæðir og andsólarsinnis í kringum lægðir.

Það sem talið er hér að ofan er þó nokkuð. Ég þekki það hins vegar vel að hlustendur og lesendur tapa fljótt þræði ef farið er mikið út fyrir það sem nefnt er hér að ofan. Í dag ætlaði ég t.d. að byrja að fjalla um svonefnda innri mótunarþætti veðurfars í söguslefspistlaröðinni. Uppkast að örstuttum pistli um landrek og veðurfar jarðar gerði hins vegar ráð fyrir því að lesendur könnuðust við bæði Hadley- og Walkerhringrásirnar. Jú, ef ég gúggla orðið walkerhringrás fæ ég þó tvær niðurstöður. Í annarri er vísað í pistil um El ninoeftir sjálfan mig á Vísindavefnum og í hinni í bloggpistil eftir Einar, félaga okkar i blogginu, Sveinbjörnsson. Á ensku eru tilvísanirnar hins vegar margar - en dugar það?

Ég á sumsé skrif um bæði Hadley- og Walkerhringrásirnar á lager, en ef ég gaumgæfi þau finn ég að þar er fjallað um bæði mættishita og votinnræna hitafallið (VIH) auk þess sem talað er um svigkraft jarðar eins og sjálfgefinn hlut. Ég verð líklega að tala aðeins um þessar hringrásir á næstunni og jafnvel minnast á mættishitann líka. Langur verður lopinn.

Lærifaðir minn sagði mér á dögunum að svona kvein væri ámótlegt - það væri alltaf hægt að einfalda mál sitt svo að allir sem á annað borð lesa geti skilið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er strax farinn að hlakka til að lesa.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 25.2.2011 kl. 05:42

2 identicon

Ég bíð spenntur eftir framhaldinu og tek undir með læriföðurnum.
Þar ert þú reyndar þegar á heimavelli með vel skiljanlegan texta...

kv, Jón Gauti

Jón Gauti Jónsson (IP-tala skráð) 25.2.2011 kl. 09:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband