Olli sunnanátt hlýindunum 2010?

Þegar ár er hlýtt má eðlilega spyrja hvort það sé vegna þess að sunnanáttir hafi verið algengari en venjulega. Stundum er það þannig - en stundum ekki. Við lítum nú á mynd - eða öllu heldur tvær gerðir sömu myndar. Sú fyrri er einskonar æfing til undirbúnings síðari myndinni.

t178-av(p)-1

Við lítum fyrst á ásana: Lárétti ásinn sýnir þrýstibratta ársins yfir landinu. Hann finnum við með því að draga meðalþrýsting á Vesturlandi frá meðalþrýstingi austanlands. Sé þrýstingur hærri eystra má gera ráð fyrir því að sunnanátt hafi verið ríkjandi á landinu en norðanátt sé ríkjandi sé þrýstingurinn hærri á Vesturlandi heldur en fyrir austan. Við sjáum að gildi vinstra megin við núllið benda til norðanáttar, en þau til hægri benda til sunnanáttar, því meiri eftir því sem tölurnar eru hærri.

Lóðrétti ásinn sýnir ársmeðalhita í Stykkishólmi. Litla kassadreifin sýnir gildi einstakra ára frá og með 1881 til og með 2010. Við sjáum að í einhverjum aðalatriðum er tilhneiging til þess að hlýrra sé þegar sunnanáttin er sterk og meðalhiti í norðanáttinni er greinilega eitthvað lægri heldur en í sunnanáttinni. Rauða línan sýnir reiknað línulegt samband - það er ekkert sérlega gott, en slæðingur af því sem ég nefni spilliár eru langt frá línunni. Ef við hendum 8 til 10 þeim verstu burt batnar sambandið talsvert.

Spilliárin hegða sér illa í þessu sambandi. Verst eru þau sem ég hef sett rauðan og bláan hring utanum. En lítum nú á síðari myndina - þar hef ég bætt ártölum inn á. Það veldur því að myndin verður talsvert ólæsilegri - en spilliárin eru ekki lengur í felum.

t178-av(p)-2

Þá upplýsist það hér með að það eru 1881 og 2010 sem eru verstu spilliárin á þessari mynd. Árið 1881 var sunnanátt að meðaltali ríkjandi á landinu en samt var árið það næstkaldasta á öllu tímabilinu. Köldu árin 1882, 1892, 1918 eru öll slæm spilliár og nokkur fleiri. Árið 2010, árið í fyrra er langmesta spilliárið á hlýja vængnum. Við sjáum að hlýjasta ár sögunnar, 2003, er hins vegar nokkurn veginn á sínum stað efst til hægri. Þar er líka draumaár norðlendinga, 1933.

Við sjáum að 1921 er mesta sunnanáttaárið. Úrkomusamt, ekki satt? En 1916 er mesta norðanáttaárið enda var þurrt.

En hver er svo skýringin á þessari illu hegðan spilliáranna? Talnaglöggir menn ættu að geta sett fram tilgátu sem gæti skýrt köldu spillinguna að nokkru leyti. Hlýja spillingin er heldur erfiðari viðfangs. Ég er ekki alveg viss, en ligg með höfuðið í bleyti.

Svarið við spurningunni í titli pistilsins er alla vega stórt NEI.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta er athyglisvert. Ég skoðaði þetta eitt sinn útfrá eigin bókum og varð fyrir vonbrigðum með hversu lítið samband væri á milli sunnanátta og hlýrra ára í Reykjavík. Hinsvegar sá ég meira samband á milli tíðni austanátta og hlýrra ára, sem getur vel verið rökrétt. Ég giska annars á að það skipti máli á hvaða árstíma viðkomandi vindáttir eru ríkjandi og einnig hvaðan loftið yfir okkur er upprunið, sunnanáttin er t.d. ekki alltaf að færa okkur loft af hlýjum uppruna.

Emil Hannes Valgeirsson, 23.2.2011 kl. 10:19

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Trausti.  Bestu þakkir fyrir áhugaverða pistla og dugnaðinn við að fræða okkur

Ágúst H Bjarnason, 23.2.2011 kl. 10:21

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Það er ekkert samband á milli hita í Reykjavík og austanáttar sé hún skilgreind á þann hátt sem ég skilgreini sunnanáttina hér, það er að segja sem þrýstimun milli landshluta. Þessi háttur til að greina vindáttir er auðvitað ekki sá eini. Ég fylgist reglulega með 5-6 mismunandi skilgreiningum, samband hita við þær er misgott. Langt síðan er hinsvegar síðan ég athugaði hitann í Reykjavík og austanáttina á stöðinni sjálfri - vel má vera að það skili betra sambandi - en ég man það ekki. Það er öldungis rétt að árstíminn skiptir máli í þessu sambandi, sömuleiðis uppruni sunnan- eða norðanáttanna. Upprunans má leita með ýmsu móti og ég hef reynt nokkrar leiðir, mislangsóttar. Með því að líta á loftþrýstinginn getum við t.d. giskað á í hvaða beygju loftið kemur að landinu. Sunnanátt í lágþrýstingi er þannig líkleg til að vera í lægðabeygju - loftið gæti þá verið komið úr vestri fyrir sunnan Grænland, sunnanátt í háþrýstingi er líklegri til að vera í hæðarbeygju, þar með komið úr suðaustri, t.d. frá Bretlandseyjum.

Trausti Jónsson, 24.2.2011 kl. 01:02

4 identicon

Árið 2010 er mjög nálægt 0 ásnum, þýðir það þá ekki að tíðni sunnan- og norðanátta er mjög svipuð. Auðvitað hefði maður haldið að sunnanáttir gæfu meiri hlýindi en nú hefur það gerst aftur og aftur á Norðurlandi að rignir (að vetri til) í norðanátt sem einhverntímann hefði þótt óeðlilegt.

Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 25.2.2011 kl. 16:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 39
  • Sl. sólarhring: 105
  • Sl. viku: 2486
  • Frá upphafi: 2434596

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 2208
  • Gestir í dag: 34
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband