Mikið lægðakerfi á síðustu snúningum

Dauða lægðakerfa ber að með ýmsum hætti. Það kerfi sem bjó okkur illviðri síðustu viku er farið að sýna ellimerki og við lítum á þau á gervihnattamynd frá því kl. 22 í kvöld (mánudag 14. febrúar).

w-seviri-140211-22

Myndin er fengin af vef Veðurstofunnar, en ég hef bætt inn nokkrum örvum og bókstöfum. Ísland er ofarlega fyrir miðri mynd. Bleiku beltin eru leifar lægðakerfa, það sem er fyrir norðan land var tengt lægð sem sendi okkur hógvært hvassviðri á laugardaginn. Það sem er langt suður í hafi er tengt síðustu bylgjulægð illviðrakerfisins - hún komst aldrei hingað. Leifar hennar eru sveipur þar sem merkt er með gulu L-i. Það má taka eftir því að skýjasveipurinn í kringum hana er ekki lengur hringlaga heldur eins og klesstur hringur eða sporaskja. Mig minnir að ég hafi í fyrri pistli nefnt hana B6.

Stóri bókstafurinn F sem er efst til hægri á myndinni er þar sem er fyrirstöðuhæð við Svalbarða. Hún er ein af drjúgöflugum fyrirstöðum sem stundum myndast langt norðan heimskautarastarinnar.

Heimskautaröstin er nú langt suður í hafi, liggur til austnorðausturs við Asóreyjar, þar sem stóra, gula örin er á myndinni. Svona lítur skýjakerfið sem fylgir röstinni venjulega út á hitamyndum, þykkur hvítur borði þar sem stundum má greina örmjó reipi eins og sjá má vestast á myndinni, ofan gulu örvarinnar eða mjög fínar þverbylgjur og fleiri form. Það er enn nokkur kraftur í þessum hluta kerfisins.

Á myndinni má einnig sjá bókstafinn K á tveimur stöðum. Við þann syðri hef ég sett langa, bláa ör sem stefnir til Spánar. Þetta er reyndar kunningi okkar sem við kölluðum B5 fyrir helgina (minnir mig) og hélt aftur af B6. Hér sést lítill lægðasnúningur í augnablikinu en hann er falinn í allstórum kuldapolli sem nú hreyfist hratt í austsuðaustur (bláa örin). Þetta kerfi mun grípa B5 og snúa því sem eftir er af henni í kringum sig. Allt mun síðan enda í krappri lægð við norðvestanverðan Spán eftir 1 til 2 daga. Spænska veðurstofan spáir þar bæði miklu brimi og hvassviðri. Ég veit ekki hvort þetta er nægilega slæmt veður til að þess verði getið hér í fréttum - varla er það nú.

Hitt K-ið á myndinni sunnan við Ísland er klesst á milli bleiku kerfanna og markar kuldapoll eða fyllu sem gefur smásveipum tækifæri til að myndast í hlýrra lofti norðaustan við. Einn sveipurinn er á leið til landsins og á að ganga vestur yfir Suðurland annað kvöld (þriðjudagskvöld).

Öll þessi samsuða kerfa er á fallanda fæti nema fyrirstaðan við Svalbarða. Ýmsir möguleikar eru svo á framhaldi en um það má e.t.v ræða síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Þetta er að valda snjókomu og frosti hérna í Danmörku. Þetta virðist ná alveg niður til Þýskalands (norðasta hluta Þýskalands), en ég bý ekki langt frá Þýskalandi.

Jón Frímann Jónsson, 15.2.2011 kl. 13:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.1.): 36
  • Sl. sólarhring: 709
  • Sl. viku: 3785
  • Frá upphafi: 2428616

Annað

  • Innlit í dag: 29
  • Innlit sl. viku: 3378
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 27

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband