Meira af Stóra-Bola og afkomendum hans

Við lítum hér á enn eitt háloftakortið (æ-æ segja sumir sjálfsagt). Það er spá um ástandið við norðanvert Atlantshaf kl. 6 að morgni 2. febrúar 2011. Kortið er fengið úr brunni Veðurstofu Íslands.

w-h500-020211-hirlam06-12

Tvær háloftalægðarmiðjur eru merktar á kortið. Þá sem er við strönd Labrador hef ég til hægðarauka nefnt Stóra-Bola en sú sem er skammt suðvestan Íslands ræður veðri hér á miðvikudag og e.t.v. á fimmtudag líka. Jafnhæðarlínur eru sem fyrr svartar og heildregnar, en rauðu strikalínurnar eru jafnþykktarlínur. Tölurnar eru dekametrar (=10 m).

Stóri-Boli er álíka öflugur og hann var í fyrradag og hefur ekki hreyfst svo mjög. Við nánari athugun kemur í ljós að hann hefur grynnst um 60 til 80 metra, en innsta þykktarlínan sýnir 4680 metra - svipað og var í fyrradag. Ég hef óformlega kallað þykkt sem er minni en 4740 metrar ísaldarþykktina. Svo lítil verður þykktin ekki nema örfáa daga á hverjum vetri á því svæði sem þetta kort nær yfir og þá aðeins á takmörkuðu svæði í senn.

Ef við rýnum í kortið sjáum við að 5280 metra línan á að liggja yfir Íslandi. Sú lína er ekki langt frá því að skilja á milli frosts og þíðu á láglendi hér á landi. Blási hvass vindur af hlýjum sjó þarf þykktin þó að komast niður fyrir 5200 metra til að snjókoma sé nokkuð viss í stað rigningar. Á kortinu er 5220 línan yfir Vestfjörðum.

Á kortið hef ég dregið bláa línu. Þeir sem rýna í kortið ættu að geta séð að hún er sett þar sem snarpt horn er á rauðu línunum. Kaldur loftstraumur liggur frá stað sunnan við miðju Stóra-Bola og austur fyrir lægðina við Ísland. Þarna streymir heimskautaloftið óhindrað yfir opið haf. Undan ísjaðrinum við Labrador er þykktin um 4800 metrar. Þarna á sér stað æðisgengin upphitun á lofti. Ekki get ég sagt nákvæmlega til um það en líklega jafngildir hitunin um 1000-2000 wöttum á fermetra.

Orkan fer ekki öll í að hita upp loftið heldur gufar einnig talsvert upp af vatni úr sjónum og breytist í vatnsgufu. Vatnsgufan ber í sér dulvarma sem losnar í miklum éljaklökkum sem myndast á öllu svæðinu milli Nýfundnalands og Grænlands. Stundum mynda klakkarnir mikla slóða sem liggja reglulega um 1000 kílómetra leið eða meira, stundum verða til póllægðir og sveipir. Af gervihnattamyndum (vísað í mynd á síðu kanadísku veðurstofunnar) má sjá ótrúlega flókna sveipi og slóða á svæðinu. Þar má líka sjá að nærri íslaust er undan Labrador.

Kalda loftið mun um síðir berast til Íslands. Það verður ekki sérlega kalt eftir alla upphitunina en mikil spurning er alltaf í stöðu sem þessari hvers eðlis klakkakerfin verða þegar hingað er komið, stundum snjóar mikið - stundum lítið.

Við sjáum að á eftir lægðinni sem er skammt suðvestur af Íslandi er lítill hæðarhryggur og á eftir honum lítið lægðardrag (það nær á kortinu frá Hvarfi á Grænlandi til austsuðausturs). Lægðardragið stefnir í norðaustur á eftir lægðinni og kemur sennilega að landinu á aðfaranótt fimmtudags (3. febrúar). Gerir þá hríðarbyl?

Lægðardragið er í nokkru kapphlaupi við aðra smábylgju. Hana má með góðum vilja sjá þar sem rauða línan er merkt á kortið. Hún þekkist best á því að sjá má hlýtt aðstreymi af lofti á þessum slóðum. Framtíðarspár eru ekki sammála um örlög þessarar bylgju nema að nú virðist að hún fari alveg fyrir sunnan land og austur um til Noregs. Lægð myndast í bylgjunni og segja sumar spár að lægðin sú valdi ofsaveðri nyrst á Bretlandseyjum, í Vestur-Noregi eða í Danmörku á aðfaranótt föstudags. Bylgjan gæti líka tæst í sundur og ekkert orðið úr því veðri. Um það er of snemmt að segja.

En Stóri-Boli hrekkur nú til suðurodda Grænlands og grynnist um 100 metra næstu tvo sólarhringa. Þykktin í miðjunni vex hins vegar um 300 metra en það samsvarar um 15 stiga hækkun hita í neðri hluta veðrahvolfs. Spurning er síðan hvað gerist. Líklega hlýtur hann hægan dauða á nokkrum dögum til viðbótar. Þá ætti nýr ættliður Stórabolaættarinnar að vera kominn í viðbragðsstöðu yfir kanadísku heimskautaeyjunum.

Einar Sveinbjörnsson fjallar líka um veðraástandið í dag á veðurvaktinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Þakka þér fyrir þetta og undanfarandi pistla, einstaklega fróðlegar pælingar og gott ef veðurnördum fjölgar ekki við þessa pistla.

Höskuldur Búi Jónsson, 2.2.2011 kl. 08:18

2 identicon

Tek undir með Höskuldi Strandamanni - gríðarlega mikill fróðleikur og aðgengilegur hverjum sem er.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 2.2.2011 kl. 11:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 102
  • Sl. sólarhring: 160
  • Sl. viku: 2023
  • Frá upphafi: 2412687

Annað

  • Innlit í dag: 97
  • Innlit sl. viku: 1771
  • Gestir í dag: 91
  • IP-tölur í dag: 85

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband