Hlýjustu og köldustu árin (og mánuðirnir)

Nú er fyrsta áratug 21. aldar lokið og tímabært að líta til baka. Hér verður hitinn fyrir valinu í óformlegri umræðu. Ég hef reiknað alls konar landsmeðaltöl þar sem ég nota mismargar stöðvar til að reikna meðalhita landsins alls. Útkoman fer tölulega eftir því hversu margar stöðvar eru notaðar en röð hlýjustu og köldustu ára helst í stórum dráttum svipuð.

Ekki er búið að reikna ársmeðalhita ársins 2010 á öllum mönnuðum stöðvum og því gríp ég til þess ráðs hér að nota óvegið meðaltal 7 stöðva til röðunarreikninga. Síðar verða þær vonandi fleiri. Hægt er með allgóðu móti að ná 11-12 heillegum stöðvum aftur til næstsíðustu aldamóta (1900). Séu meðaltöl reiknuð fyrir þann tíma er gripið til ýmissa reiknikúnsta - en látum það eiga sig að sinni. En ég nota ekki allar 11 í landsmeðaltalinu, heldur aðeins 7 þeirra eins og að ofan greindi.

Auk landsmeðaltalsins fyrir árin 1901 til 2010 hef ég einnig reiknað út landshlutameðaltöl. Í reikningana fyrir Suðvesturland nota ég 4 stöðvar, norðvesturlandsmeðaltalið er fengið með 2 stöðvum, það fyrir Norðausturland með 3 stöðvum og Suðausturland er einnig reiknað með 2 stöðvum.

Í viðhengi má sjá allan listann fyrir landshlutana, raðaðan frá hlýjasta ári til þess kaldasta. Neðst í þeim lista er upplýst hvaða stöðvar eru notaðar í hverjum lista fyrir sig.

Neðan við þennan lista eru áratugameðaltöl landshlutanna. Við fjöllum aðeins um þau hér að neðan. Neðstur í viðhenginu er mikill listi þar sem 7-stöðva meðaltölum landsins er raðað eftir mánuðum. Má þar sjá hlýjustu og köldustu mánuði þessara 110 ára fyrir landið. Þar þurfa þeir sem hnýsast í skjalið að athuga að forritið sem opnar skjalið (oftast notepad) beyglar enda hverrar línu yfir í næstu línu fyrir neðan. Þetta veldur því að þessi hluti töflunnar kann að virðast ruglingslegur. Þeir sem vanir eru töflureiknum á við excel ættu að geta komist auðveldlega yfir þennan hjalla.

En kíkjum fyrst á hlýjustu árin yfir landið allt (allar tölur í °C):

landiðhlýjast
20035,40
19395,15
19335,13
19415,11
2010

5,04

 

Hér er 2003 hlýjasta árið og 1939 næsthlýjast, 2010 er í fimmta sæti. Kaldast var 1979 (sjá viðhengið). Og landshlutarnir - fyrst er ártal, síðan suðvesturlandsmeðaltal og síðan landshlutarnir koll af kolli - Suðausturland í tveimur öftustu dálkunum:

sv-landm4svna-landm3nanv-landm2nvsa-landm2sa
20035,8420034,0620035,1820035,53
19395,6419334,0019415,0519605,52
19415,6219393,6620105,0119465,42
20105,6120043,6519334,9919725,40
19465,5619413,5819394,8720065,39
 

Árið 2003 er hlýjast í öllum landshlutunum, en suðaustanlands munar sáralitlu á því og árinu 1960, þar er 2010 í 17. sæti (hlýtt, en langt frá meti). Árið 2010 er í 4. sæti suðvestanlands og í 3. sæti á norðvestanverðu landinu. Norðaustanlands var það í 15. sæti (sjá viðhengið).

Þeir sem hafa fylgst með meðalhitaniðurstöðum frá nágrannalöndunum vita að í Færeyjum var hiti nærri meðallagi, en kalt var í Skandinavíu. Mjög hlýtt var á mestöllu Grænlandi, svo hlýtt að ég trúi ekki tölum sem ég hef reiknað sjálfur - vonandi koma þær réttu fljótlega. Við sjáum fyrir okkur 0°C-jafnvikalínuna liggja um Færeyjar - kalt fyrir austan - hlýtt fyrir vestan hana. Vesturland er lengra frá þessari línu (þar var tiltölulega hlýrra) heldur en Austurland.

Meðalhiti áratuganna er í viðhenginu en lítum hér á vikin miðað við 1961 til 1990, tölur enn í °C.

Vik
áratlandiðsv-lanna-landnv-landsa-land
1901-1910-0,41-0,25-0,42-0,41-0,41
1911-1920-0,46-0,32-0,55-0,40-0,35
1921-19300,220,170,310,240,40
1931-19400,690,660,850,620,86
1941-19500,600,580,650,510,73
1951-19600,600,530,710,640,57
1961-1970-0,010,11-0,24-0,100,00
1971-19800,070,060,140,110,09
1981-1990-0,07-0,170,090,00-0,09
1991-20000,330,210,480,330,25
2001-20101,141,131,240,961,21

Hér sést að nýliðinn áratugur er sá langhlýjasti í öllum landshlutum. Hann var að tiltölu hlýjastur norðaustanlands, en kaldastur á Norðvesturlandi. Einnig var mjög hlýtt áratugina 1931-1960 og er áratugurinn 1931-1940 hlýjastur nema á Vestfjörðum - þar er 1951-1960 jafnhlýr og sá fyrri.

Fyrstu tveir áratugir aldarinnar eru þeir köldustu í öllum landshlutum, en þó liggur við að 1981-1990 sé jafnkaldur suðvestanlands eins og þeir fyrrnefndu. Í kuldakastinu 1965 til 1995 var í upphafi kaldast að tiltölu norðaustan- og norðvestanlands, en sunnanlands var kaldast 1981-1990. Í mörgum tilvikum munar sáralitlu á meðalhita áratuga - það litlu að röðin breyttist hugsanlega væru aðrar eða fleiri stöðvar notaðar.  Þeir sem eru smámunasamir geta með smáfyrirhöfn séð þann mun sem verður á 7- og 11-stöðva meðaltölum (gaman?).

En viðhengið er fyrir nörd og jaðarnörd - fullt af tölum. Þeir sem vilja grúfa sig ofan í tölurnar geta t.d. afritað töflurnar fjórar hverjar fyrir sig og límt inn í excel.

Taka skal fram að þetta eru ekki endanlegar tölur á nokkurn hátt, sífellt er unnið að endurbótum á hitaröðum auk þess sem mismunandi samsuður gefa mismunandi niðurstöðu. Þess vegna er varað við því að menn noti tölurnar í vísindalegum tilgangi - þær eru hugsaðar til fræðslu og gamans.

Nítjándu öldina geymum við til betri tíma.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir góða pistla Trausti.

Það er fróðlegt að sjá hve góður nýliðinn áratugur var og við verðum bara að vona að sá nýbyrjaði verði ekki síðri.  Miðað við þessar tölur er þó því miður ekki hægt að treysta á það. Við sjáum til dæmis að síðasti áratugur nýliðinnar aldar var ekkert sérstakur miðað við þrjá áratugi frá 1931-1960. Svo ekki sé minnst á hina þrjá köldu áratugi 1961-1990,  - gætu þeir ekki komið aftur innan skamms...?

Hvað sem öðru líður, þá virðast þetta allt saman vera eðlilegar sveiflur í náttúrunni. Við skulum samt vona að næsti áratugur verði ekki síðri en sá nýliðni.

Ágúst H Bjarnason, 14.1.2011 kl. 08:47

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

En, ég hef áður velt því fyrir mér hvort undirliggjandi hlýnun (af mannavöldum?) sjáist ekki nokkurnvegin með því að bera saman nýliðinn áratug 2001-2010 og hlýjasta áratug síðustu aldar 1931-1940. Munurinn þarna er 0,45°C á 70 árum sem samsvarar 0,64°C hlýnun á 100 árum sem er ekki fjarri heimshlýnuninni.

Eins og Ágúst segir þá eru eðlilegar sveiflur í náttúrunni en ég held að okkur sé óhætt að bæta undirliggjandi langtímahlýnun við dæmið.

Sjálfur er ég lítið fyrir Excel og flokkast því varla sem nörd, mögulega kannski jaðarnörd.

Emil Hannes Valgeirsson, 14.1.2011 kl. 13:35

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Veisla fyrir nördin, jafnt venjuleg nörd sem jarðarnörd og ekki síst súprnördin sem eru nú alveg á jaðri alls venjulegs og mannlífs! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 14.1.2011 kl. 16:27

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Siðasti áratugur er nú ansi sérstakur. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 14.1.2011 kl. 16:36

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Ágúst og Emil. Í þeim heimshlutum þar sem 10-30 ára hitasveiflur eru stærri en tvöföld hugsanleg undirliggjandi hlýnun þarf sú að standa mjög lengi til að hún greinist frá náttúrulegum breytileika. Þetta á við t.d. bæði á Íslandi og Grænlandi. Mjög stórar sveiflur eru einnig á meginlöndunum en hátíðnisveiflurnar (einstök ár) valda þar stærri hluta af breytileikanum heldur en er hér á landi. Undirliggjandi hlýnun kemur betur fram þar - en aftur á móti skjótast þar inn á óreglulegan máta ógnarköld og hlý ár. En svo er annað mál að marktæk hlýnun reiknast bæði á Íslandi og á Grænlandi því eins og Emil bendir réttilega á er nýliðinn áratugur ámóta hlýrri og fyrra hlýindaskeið sem nemur reiknaðri undirliggjandi leitni. Þetta var komið í ljós fyrir meira en 10 árum en þá ritaði ég smápistil í Lesbók Morgunblaðsins um þetta efni (og má lesa á tímarit.is) þar sem ég bentí á að munur á hlýindaskeiðum 19. og 20. aldar er um það bil jafn undirliggjandi hlýnun eins og menn hafa reiknað hana. Sama á við um muninn á kuldaskeiði 19. aldar og kuldaskeiði þeirrar 20. Ég benti einnig á þetta í fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar fyrir nokkrum árum. Þá hafði núverandi hlýskeið ekki náð þeim hæðum sem það hefur nú náð og síðasti áratugur er - eins og Sigurður bendir á ansi sérstakur.

Trausti Jónsson, 15.1.2011 kl. 01:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg231124-kosningaspa-ec b
  • w-blogg23124-kosningaspa-ec a
  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 99
  • Sl. sólarhring: 275
  • Sl. viku: 2397
  • Frá upphafi: 2414061

Annað

  • Innlit í dag: 93
  • Innlit sl. viku: 2208
  • Gestir í dag: 92
  • IP-tölur í dag: 91

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband