Af fyrri hluta ísaldar (söguslef 14)

Eins og kom fram í síðasta slefi (13) virðist ísmagn á fyrri hluta ísaldar (pleistósen) hafa sveiflast með svipaðri tíðni og möndulhallasveifla jarðar (hún tekur u.þ.b. 41 þúsund ár). Fyrir um 1,2 milljónum ára (sjá myndina hér að neðan) fór að bera meira á 100 þúsund ára sveiflu (hringvikssveiflutími jarðbrautarinnar) og fyrir um 600 til 700 þúsund árum varð hún, að því er virðist, ráðandi. En gallinn er sá að hringvikssveiflan getur ekki skýrt þær miklu breytingar á ísmagni sem orðið hafa síðustu nokkur hundruð þúsund árin. Sveiflusinnar leita þó lausna en við komum nánar að því máli síðar.

w-isold-1-Samsaetuvik

Myndin er enn fengin úr sömu grein og áður (Zachos og félagar, 2001). Hún sýnir að þessu sinni fyrri hluta pleistósen (ísaldar), frá því um 2,6 milljónum ára til 780 þúsund ára. Hentugt þykir að nota þá tímasetningu til að greina á milli ísaldarhluta vegna þess að þá umpólaðist segulsvið jarðar á 10 til 15 þúsund árum eða svo. Matuyama-segulskeiðið endaði og núverandi segulskeið, Bruhnes-skeiðið tók við.

Um þær mundir fór hiti lækkandi eftir að hafa verið hár meðan á sjávarsamsætuskeiði 19 stóð. Það er við jaðar myndarinnar. Um samsætuskeið má lesa í eldra slefi en við rifjum upp að oddatölur eru hlýskeið, en sléttar tölur jökulskeið. Ekki er alveg þægilegt að telja samsætuskeið aftur á bak til vinstri á myndinni en pleistósen er nú talið byrja við sjávarsamsætuskeið 103. Gömlu mörkin á milli plíósen og pleistósen eru nærri rauða punktinum á myndinni, þar er samsætuskeið 63.

Við sjáum að kuldaskeið virðast hafa verið væg fyrir um 2,4 til 2,2 milljónum ára. Þá telja menn að ís hafi einungis verið á háfjöllum Grænlands og á Norður-Grænlandi hafi skógar verið í fjarðarbotnum og á láglendinu inn til landsins í síðasta sinn.   Tökum myndina nú bókstaflega um stund. Rauða línan sýnir nokkurn veginn núverandi ísmagn en það er gróflega um 30 milljón rúmkílómetrar. Sjávarborð var lægst á mestu jökulskeiðunum, það samsvarar um það bil bláu línunni á myndinni og gefur til kynna að heildarrúmmál íss hafi þá verið um 80 milljón rúmkílómetrar. Gildið 2,3 súrefnissamsætuvik (munurinn á legu bláu og rauðu línanna) virðist því samsvara lauslega um 50 milljón rúmkílómetrum eða um 2 milljónir rúmkílómetra á 0,1 prómill í samsætuviki.   

 

Jökulskeiðin á þessari mynd eru þá rúmlega hálfdrættingar á við stóru kuldaskeiðin sem síðar komu. Þau vantar um 25 milljón rúmkílómetra upp á sama ísmagn. Nú skulum við vara okkur vel á því að hér er aðeins um slumpreikninga að ræða. Þeir eru hér einungis settir fram til að lesendur geti áttað sig á þeim stærðum sem um ræðir.   

Í grein sem birtist í tímaritinu Quarternary International 2007 (sjá að neðan) má lesa yfirlit hugmynda um útbreiðslu ísaldarjökla. Þar kemur m.a. fram að aðeins um þriðjungur kuldaskeiðanna á myndinni hafi skilið eftir sig ummerki um stórjökulhvel eins og þau eru oftast sýnd á myndum. Nákvæmlega hvar þeir jöklar voru veit enginn með vissu. Jöklar eyða flestum eldri jökulminjum þegar þeir leggjast yfir. Ég mæli með greininni, hún er fáanleg í landsaðgangi ár hvar.is.

 

Nú er spurt: Er beint samband á milli ísmagns á Íslandi og ísmagns í heiminum?. Við vitum af reynslu síðustu alda að ekki þarf mjög mikið að kólna til þess að jöklar skríði fram úr bólum sínum og gangi yfir landið. Ef myndin er tekin bókstaflega var oftast meiri ís á jörðinni á hlýskeiðum heldur en á því sem nú er í blóma. Hver var skerfur íslenskra jökla í þeim umframís? Hvers konar jökull er (eða var) íslenski ísaldarjökullinn? Var hálendi Íslands aðeins autt rétt endrum og sinnum - eða hvað?

Vitnað var til: 

Ehlers, J. and P.L. Gibbard (2007), The extent and chronology of Cenozoic Global Glaciation. Quarternary International, 164-165, s.6-20.  

Zachos, J., M. Pagani, L. Sloan, E. Thomas, and K. Billups.  2001. Trends, Rhythms, and Aberrations in Global Climate 65 Ma to Present. Science,  Vol. 292, No. 5517, pp. 686-693.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 37
  • Sl. sólarhring: 108
  • Sl. viku: 2484
  • Frá upphafi: 2434594

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 2206
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband