Af kuldapollinum litla

Kuldapollurinn sem ég minntist á í fyrradag er nú að komast inn á tveggja sólarhringaspárnar. Það er því e.t.v. fullfljótt að vera að ræða um hann því vel gæti hann gufað upp. Annað eins gerist nú í spánum. Myndin sýnir þykktina í kringum Ísland eins og HIRLAM spálíkanið reiknar hana kl. 6 á þriðjudagsmorgun.

hirlam-þykkt-211210-06

Litirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum eins og honum er spáð og heildregnu línurnar eru jafnþykktarlínur, dregið er á tveggja dekametra bilum. Lægsta talan er 492 dekametrar (= 4920 m). Þykktarvanir vita að svo lítil þykkt mælist nær aldrei hér á landi - hefur þó komið fyrir. Þetta kort er ekki mjög skýrt hér en áhugasamir eru hvattir til að líta á þykktarkortaröðina á brunni Veðurstofunnar. Kortin eru að jafnaði endurnýjuð á 6 tíma fresti og sýna spár 60 klst fram í tímann.

Þegar kortunum er flett kemur í ljós að þykktin í miðju kuldapollsins vex hratt þegar hann kemur út yfir hlýjan sjóinn fyrir norðan land. Eykst hún um það bil 1 dekametra á hverjum þremur klukkustundum. Það jafngildir um 0,5 stiga hlýnun. Þegar snarpir kuldapollar komast suður fyrir land þykkna þeir oft um það bil helmingi hraðar, um 1 stig á þremur tímum. Ég er ekki með á hraðbergi hversu mikið þetta er í orku, en gæti giskað á að minnsta kosti nokkur hundruð Wött á fermetra.

Erfitt er að spá hreyfingu svona fyrirbrigða og hlýnuninni í smáatriðum. Ekki er t.d. ljóst hvort miðja kuldapollsins muni fara beint yfir landið eða öðru hvoru megin við það. Miklu skiptir fyrir veðrið hver niðurstaðan verður. Hluti af upphituninni fer fram óbeint, vatn gufar upp úr sjónum, það lyftist síðan og eimurinn þéttist og skilar þá af sér varmanum. Þetta gerist mest og best í miklum skúra- og éljaklökkum. Úrkoma í þeim getur verið veruleg. Þannig að mikið gæti snjóað af völdum þessa kuldapolls, en hvar - það veit enginn með vissu sem stendur - kannski aðeins á hafi úti.

Núna í kvöld er spáin fyrir miðvikudagsmorgun (sólarhring síðar en kortið hér að ofan) býsna skemmtileg því í henni eru tvær smálægðir komnar fram í tengslum við pollinn. Þetta kort er einnig fengið af brunni Veðurstofunnar.

w-hirlam-vt-221210-06

Lægðin fyrir norðan land er með hlýjan kjarna - svokölluð pólarlægð (skárra orð hefur ekki komið fram). Hún hreyfist til suðvesturs. Hin, sú fyrir sunnan, er hins vegar riðasmálægð. Norðaustanáttin fyrir norðvestan hana nær ekki nema upp í tæplega 3 kílómetra hæð, þar fyrir ofan er suðvestanátt. Þessi lægð gerir eitthvað, hreyfist e.t.v. fyrst til norðausturs en síðan norðurs.

Mikið frost getur gert um tíma inn til landsins, hugsanlega 20 stig eða meira. En - þetta eru bara spár. Ólíklegt er að raunveruleikinn verði nákvæmlega þessi. Spennandi verður samt að fylgjast með kuldapollinum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það sagði mér Norðfirðingur í kvöld að veðrið í dag minnti sig á veðrið daginn fyrir snjóflóðið mikla 1974, en mikil snjókoma var þar í dag. Fólk á Norðfirði er farið að gjóa augunum upp í fjall.

Vonandi verða nú engir skaðar af þessu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.12.2010 kl. 03:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband