Smá lopi vegna veðursins í dag

Norðanveðrið sem nú er að ganga yfir fellur í stórum dráttum í þann flokk veðra sem ég fjallaði um fyrir nokkrum dögum. Ekki veit ég vel hvaða nafn mundi falla best að þessum veðrum. Auðvelt er að búa til tæknilegt nafn en vægjum oss við því að sinni. Kannski ættum við bara að segja norðanáhlaup upp úr hlýindum eða fyrirstöðuhæð hörfar til vesturs.

Eins og ég rakti í fyrri pistli byrjar kast af þessu tagi með skyndilegu hitafalli. Ef mikið magn af köldu lofti fellur skyndilega yfir landið úr norðri er auðvitað um kalt aðstreymi að ræða. Við vitum að í köldu aðstreymi snýst vindur andsólarsinnis með vaxandi hæð. Norðanátt er við jörð en norðvestan- eða jafnvel vestanátt er við veðrahvörfin. Í tilviki núlíðandi veðurs var vindur þar uppi meiri en 70 m/s. Vegna vindsnúningsins er ekkert samband á milli vindsins uppi og vindsins niðri.

Í upphafi núlíðandi veðurs var ekki hvasst, það kólnaði hins vegar rækilega. Í sumum veðrum af þessari gerð getur verið mjög hvasst strax í upphafi veðursins. Þá er sá vindur mestur í neðstu 1-3 km lofthjúpsins. Síðan koma hitahvörf og aðalvindröstin talsvert þar fyrir ofan. En það gerðist ekki núna.

Núna fór að hvessa þegar vindur í háloftunum var að mestu orðinn samsíða vindröstinni í háloftunum. Þá næst gott samband milli efri og neðri vinds. Þrýsti- og jafnhitalínur liggja nokkurn veginn samsíða.

Þriðji þáttur fer síðan af stað þegar vindur snýst til austlægari áttar í háloftunum en norðanáttin heldur áfram næst jörð. Þá er hlýtt aðstreymi komið í gang. Í hlýju aðstreymi snýst vindur sólarsinnis með hæð. Meðan á þessum þætti stendur verða vindur í jaðarlaginu og í háloftunum sambandsminni og vindstrengir við jörð færa sig til. Þá snjóar stundum sunnanlands.

Síðan verða vindar uppi og niðri aftur samsíða að mestu og þrýsti og jafnhitalínur samsíða að nýju. Áttin er þá breytt. Að þessu sinni verður hún úr austnorðaustri eða norðaustri. Vindstrengir færa sig í samræmi við það. Algengt er að vind lægi fyrst í háloftunum og vindátt þar þá orðið nánast hver sem er, en vindur í jaðarlaginu haldist lítið breyttur. Þá fær kalt aðstreymi aftur möguleika. Í stöðunni í dag virðist að vindur minnki í háloftunum en aðeins niður í það að verða svipað og í neðstu lögunum.

Komi nýtt illviðri á næstu dögum verður það af annarri tegund en þessari sem nú hefur gengið yfir. Dreifa má meiri lopa um það þegar að því kemur. Það skal tekið fram að ekki er von á neinu sérstöku illviðri. Veðurnörd gætu þó spennt sig aðeins upp þegar snarpur kuldapollur aflagast undan Norðaustur-Grænlandi og skellur suður yfir landið á þriðjudaginn. Vonandi snjóar ekki mikið sunnanlands og helst ekki neitt.

Fylgjast má með kuldapollum og háloftastrengjum á brunni Veðurstofunnar. Kuldapollurinn ætti að birtast á litskrúðuga þykktarkortinu seint á laugardag eða sunnudag (kortið nær aðeins 60 klukkustundir fram í tímann.

Ég þakka þeim sem hafa enst til að lesa þennan texta til enda.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þórðarson

Þakka þér, Trausti. Þetta var skemmtileg lesning.

Hörður Þórðarson, 18.12.2010 kl. 08:55

2 identicon

Þakka þér enn og aftur, Trausti, fyrir þessa fróðlegu pistla. Jafnvel lítið menntað fólk eins og undirritaður lesa þá sér til gagns vegna þess á hve góðu og skýru máli þeir eru. Það er ekki lítils virði þegar vísindamenn hafa jafn góð tök á tungumálinu eins og þú hefur. - En nú spyr ég enn einu sinni; Koma þessir pistlar ekki einhverntíma út á bók?

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 18.12.2010 kl. 09:55

3 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Mig langar bara að taka undir orð þessara herramanna hér að ofan, fróðlegir pistlar og skemmtilegir.

Sveinn Atli Gunnarsson, 18.12.2010 kl. 15:25

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Afhverju bloggar þú Hörður aldrei um veðrið en ýmislegt annað, verandi sjálfur veðurfræðingur?

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.12.2010 kl. 16:09

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ekki erfitt að endast þennan lestur. Takk

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.12.2010 kl. 16:36

6 Smámynd: Hörður Þórðarson

"Afhverju bloggar þú Hörður aldrei um veðrið en ýmislegt annað, verandi sjálfur veðurfræðingur."

Vegna þess að ég starfa á Nýja Sjálandi og geri ráð fyrir að fólk á Íslandi hafi ekki mikinn áhuga á veðrinu þar.  Ég kem aðallega hingað til að fylgjast með fréttum og skoðunum fólks. 

Hörður Þórðarson, 18.12.2010 kl. 17:27

7 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka góðar undirtektir. Mér finnst eins og Sigurði að Hörður ætti að segja okkur af veðurviðburðum á Nýja-Sjálandi - alla vega þeim stærstu. Þetta með bókina Þorkell. Ég á til eina, tvær eða þrjár veðurbækur, en útgáfa þeirra er erfið, nánast enginn les svona rit nema svæsnustu veðurnörd og enn færri kaupa. Flestir hlaupa undan eins og fætur toga þegar þeir sjá óskiljanleg orð framundan.  

Trausti Jónsson, 19.12.2010 kl. 00:14

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Um bækur: Það hafa engar umtalsverðar íslenskar bækur um veðrið komið út  síðan Markú Á. var að gefa út sínar bækur fyrir 20-30 árum fyrir utan ágæta bók nýlega um gróðurhúsaáhrifin. Það vantar sárlega almennilega bók sem væri bæði almenn veðurfræði og um veðurfar á Íslandi. Þessi bók mætti alveg vera nokkuð ýtarleg og ekki neitt blaður, reyna soldið á almennan lesanda eins gróðurhúsabók Halldórs Björnssonar, bara enn lengri pg viðameiri. Skil ekkert í útgefendum ef þeir geta ekki gefið ut svona bækur. Þeir gefa út handbækur um fugla, skordýr og blóm, jafnvel fiska,  og ýmis konar bækur (misgóðar) um jarðfræði og landslag og bók eða bækur um jökla. Blogg veðurfræðinga bætir úr þessu bókarleysi en eykur hana samt jafnframt. Óskiljanleg orð og hugtök er hægt að gera fólki skiljanleg svo hræðslan hverfi. Þú ert. t.d. búinn að útskýra mjög nettlega hlýtt og kalt aðstreymi. Nýrrar veðurbókar eftir íslenskan mann bíður það hlutverk að gera þetta nokkuð kerfisbundið. Útgefendur verða að fara að skilja að það er skammarlegt að ný svona bók komi ekki út á íslensku, miðuð við íslenskt veður.

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.12.2010 kl. 17:22

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ó, ó, gleymdi náttúrlega að nefna Veður á Íslandi í 100 ár (1993) sem þarf að koma út aftur eða önnur í hennar stað allt til okkar tíma. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.12.2010 kl. 17:28

10 Smámynd: Trausti Jónsson

Bókarleysið á við um fleiri greinar raunvísinda. Þrátt fyrir að mestallt ytra líf okkar byggi nú á raunvísindum eru þeir sárafáir sem nenna að lesa um þau - e.t.v. fletta í gegnum flottar myndir en það er allt og sumt. Hversu margir skyldu t.d. hafa lesið Haffræðibækur Unnsteins Stefánssonar? Þar er mjög mikið af veðurtengdu efni - að vísu ekki mjög aðgengilegt - á mjög góðri íslensku - en fullt af erfiðum orðum og hugtökum, aftur á móti engar flottar myndir. Í haust kom út mjög gott og flott greinasafn eftir íslenska vísindamenn um Darwin og kenningar hans. Salan bendir til þess að enginn nenni að lesa það - enda eru myndirnar fáar og engin í lit.

Trausti Jónsson, 19.12.2010 kl. 22:47

11 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég hef a m.k. marglesið Hafið frá 1999 eftir Unnstein og svo einkennilega vill til að ég á meira að segja eintak höfundarins sjálfs! Mér finnst nú samt að útgefendur ættu að geta notað áhuga manna á gróðurhúsaáhrifunum til að auka áhuga á veðurfræði en þetta er jú á hennar sviði. Þá skortir bara áhuga og hugmyndaflug.

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.12.2010 kl. 23:25

12 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mætti einmitt koma svona bók um lofthjúpinn og veðrið á Íslandi eins og Unnsteinn skrifaði um hafið. En mætti vera meira af skýringarmyndum. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.12.2010 kl. 23:32

13 Smámynd: Trausti Jónsson

Sigurður veit örugglega (það sem aðrir lesendur vita ef til vill ekki) að ég átti ekki við Hafið eftir Unnstein heldur Haffræði þá sem hann gaf út sjálfur í tveimur bindum 1991 til 1994. Þær bækur hafa fengist fyrir slikk á bókamörkuðum undanfarin ár ásamt því stóra og góða riti eftir Jón Jónsson um Hafrannsóknir við Ísland (2 bindi). Ég mæli mjög með þeim bókum líka. Bók Unnsteins, Hafið, kom upphaflega út árið 1961 á vegum Almenna bókafélagsins. Sama ár kom út hjá sama forlagi bókin Náttúra Íslands, mjög merkt rit og feitt á sínum tíma. Hún var endurútgefin 1981, því miður allt of lítið endurskoðuð. Ágætur en stuttur veðurkafli Jóns Eyþórssonar fékk t.d. að standa nær óbreyttur með minniháttar viðauka eftir Hlyn Sigtryggsson.

Trausti Jónsson, 20.12.2010 kl. 00:01

14 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Haffræðibækurnar eru samtals upp á 950 bls. og mætti það vera alger lágmarkslengd fyrir íslenskar veðurfræðibækur í framtíðinni.

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.12.2010 kl. 04:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 400
  • Sl. sólarhring: 405
  • Sl. viku: 2179
  • Frá upphafi: 2347913

Annað

  • Innlit í dag: 353
  • Innlit sl. viku: 1885
  • Gestir í dag: 334
  • IP-tölur í dag: 324

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband