Gömul skrif mín um frostavetur og kulda

Kuldarnir í Evrópu og Bandaríkjunum valda því að ég er dálítið spurður um það hvort kuldar gætu aftur lagst yfir Ísland, svipað og 1918 og 1881. Svarið er auðvitað já, en meðan ís er svo lítill norðurundan sem raun ber vitni er ólíklegt að slíkir kuldar hefðust við hér á landi nema í einn til tvo daga í senn - eitthvað lengur inn til landsins.

En fyrir meir en 30 árum skrifaði ég grein um frostaveturinn 1880 til 1881. Greinin birtist í Náttúrufræðingnum og er nú aðgengileg um vefinn timarit.is. Bein tilvísun á greinina er hér.

Skömmu síðar (um 1980) var ég byrjaður á annarri grein, þá um frostaveturinn mikla 1918 og átti að birtast í tímaritinu Veðrinu. Það tímarit er reyndar líka aðgengilegt á timarit.is en endaði líf sitt í verðbólgubálinu mikla 1982 til 1983 (og af ónefndum þjóðfélagslegum ástæðum öðrum). Greinin komst því aldrei á prent - og var aldrei lokið nema yfirlitskaflanum um þann kalda janúar 1918. Hann er hér sköllóttur í viðhengi ef einhver skyldi vilja lesa.

Hefði ég skrifað Náttúrufræðingsgreinina nú yrði hún talsvert öðru vísi - sennilega ekki endilega læsilegri.

Um kuldaköst almennt hef ég ritað í langri greinargerð Veðurstofunnar: Kuldaköst og kaldir dagar. Þar má einnig finna ýmsan fróðleik um kulda, textinn nokkuð tyrfinn framan af en léttist þegar á líður. Hin sértæka umfjöllun um einstaka viðburði byrjar á bls. 16 (15. í pdf-skjalinu). Á blaðsíðu 19 er leitað svara við spurningunni: Hvað getur hiti orðið lágur á Íslandi? Síðan er fjallað um það hvar helst er að vænta dægurlágmarka (það er breytilegt eftir árstímum).


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Sæll. Það skiptir mig dálitlu máli hvernig veðrið verður um næstu helgi. Sigurður Þ. Ragnarsson sagði um hádegi í gær að veðrið yrði mjög slæmt hér frá og með föstudegi. Um kvöldið var sagt á Stöð 2 að veðrið yrði skaplegt og nokkru seinna hélt veðurfræðingur RUV því fram að hér yrði nánast fínasta veður. Er eðlilegt að spám veðurfræðinga beri mjög illa saman? Hvar eru spárnar bestar? Styðjast ekki allir við sömu gögn þegar spáð er? Með fyrirfram þökk fyrir svörin.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 14.12.2010 kl. 08:31

2 identicon

Reyndar sagði Einar Magnús (hægt að horfa á veðurfréttirnar aftur á ruv.is) að á föstudag mætti búast við vindi á bilinu 15-20 m/s víðast hvar, einna hvassast um landið norðanvert og töluverð ofankoma þar, en þurrt að kalla SV-til. Á laugardeginum væri vindur NA-lægari og kannski litið eitt hægari, en dregur mikið úr ofankomu fyrir norðan. Léttir líklega til syðra. Hægari norðaustanátt á sunnudag og mánudag með minnkandi úrkomu N- og A-lands.

Þannig að ég sé ekki í fljótu bragði hvernig þú getur haldið því fram að hann hafi sagt að það yrði "nánast" fínasta veður um helgina........

Góða helgi Óli 

Óli (IP-tala skráð) 14.12.2010 kl. 10:13

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Benedikt. Ég hef sagt það áður að ég hef að mestu látið af veðurspádómum. Við þá vinnur fjöldi manna dag og nótt og er spám þeirra því langoftast betur treystandi í þessum efnum heldur en mínum. Nú horfi ég á spárnar af varamannabekknum - er í besta falli einhvers konar línuvörður. Textaspár veðurstofunnar birtast á þessari síðu hér:

http://www.vedur.is/vedur/spar/textaspar/

Þegar þetta er skrifað er gert ráð fyrir hvössum norðanvindi austanlands á fimmtudag, aðfaranótt föstudags hvessir líka vestanlands og þar verður hvasst á föstudag. Ofankoma er samfara norðanáttinni fyrir norðan, en syðra slítur úr. Seint á föstudag snýst vindur meira til norðausturs og lægir talsvert þótt óvíða lygni alveg (nema helst hér í Reykjavík). Mér leiðist sjálfum afskaplega að keyra bíl í skafrenningi þannig að ég geri ráð fyrir því að aka úr Reykjavík upp í Borgarfjörð á fimmtudagskvöld í stað þess að fara i verra veðri á föstudag. Norðaustanáttinni á laugardag og sunnudag er spáð hægari heldur en norðanáttinni á föstudag - og heldur hlýrri líka. Laugardagur og sunnudagur eru því betri til ferðalaga heldur en föstudagurinn. Nú er bara þriðjudagur og föstudagsveðrið því ekki endanlega ráðið. Úrkomuspár breytast oft meira en aðrar, snjókomumagn er því enn mjög óvisst. Snarpt lægðardrag á að ganga suðvestur yfir landið á föstudag og því fylgir úrkomuhnútur og jafnvel blinda á vegum í nokkra tíma.

En best er að fylgjast reglulega með textaspá Veðurstofunnar. Kortin hjá Veðurstofunni og Belgingi eru líka gagnleg ef ferðalög eru ráðgerð. Þegar lagt er af stað er sjálfsagt að kíkja á athuganir Vegagerðar og Veðurstofu á vefjum þeirra. Það er afskaplega einstaklingsbundið hversu vel mönnum líkar að aka í skafrenningi, mér líkar hann illa þótt hann sé lítill, en öðrum er nákvæmlega sama svo lengi sem ekki verður ófært vegna snjósöfnunar og bíllinn fýkur ekki út af veginum - það hlýtur hver að gera upp við sig í hvorum flokknum hann er.

Trausti Jónsson, 14.12.2010 kl. 11:38

4 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Rétt hjá þér, Óli, orðalagið hjá mér var ónákvæmt. Þakka þér fyrir þetta, Trausti. Þú hefur greinilega fundið á þér að ég ætti erindi upp í Borgarfjörð. En öfugt við þig neyðist ég til að fara á föstudeginum og verð því að bíða og vona að spárnar breytist til hins betra.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 14.12.2010 kl. 12:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 77
  • Sl. sólarhring: 406
  • Sl. viku: 1902
  • Frá upphafi: 2350638

Annað

  • Innlit í dag: 74
  • Innlit sl. viku: 1702
  • Gestir í dag: 74
  • IP-tölur í dag: 74

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband