Veðrahvarfakort (ekki alveg auðvelt dæmi - aðallega ætlað nördum)

 Veðurnörd vita að til er ógrynni af alls konar veðurkortum. Við skulum líta á eina sjaldséða gerð sem sýnir hita í veðrahvörfunum. Almenn regla er að því hærri sem þau eru því kaldara er við þau, því neðar sem þau eru því hlýrra er í þeim. Ekki er það þó þannig að hægt sé að lesa af kvarða hver hæðin er með því að nota hitann eingöngu. En breytileiki hæðarinnar kemur mjög vel fram á kortunum.

vedrahvorf-091210

Myndin er fengin af síðu (hér)þar sem finna má fjölbreytileg kort um ástandið í neðri hluta heiðhvolfsins. Eini gallinn er sá að kortin sýna rúmlega sólarhrings gamla stöðu. Ég hef lengi haft áhuga á að svona nokkuð verði aðgengilegt á síðum Veðurstofunnar - en viðurkenni fúslega að það er ekki forgangsatriði. En hver veit? Ég legg kort í skárri upplausn í pdf-skjal í viðhenginu.

En hvað sýnir kortið? Sjá má hita við reiknuð veðrahvörf fyrir um tveimur sólarhringum síðan. Kvarðinn er hiti í Kelvinstigum. 0°C eru um 273,2K. Gulu svæðin (og þau rauðu) sýna svæði þar sem veðrahvörfin eru hlý og þar með tiltölulega lág. Þar er hiti á bilinu 230 til 250 K - eða -20 til -40 stiga frost á Celsíus-kvarða.

Blái liturinn er einráður í jaðri myndarinnar, þ.e. í hitabeltinu. Þar liggja veðrahvörfin mjög hátt. Norður úr þessu kalda miðbaugssvæði má sjá einskonar poka, græn svæði með blárri ígerð þar sem er 70 til 80 stiga frost. Eitt þessara svæða er nærri Íslandi þar sem fyrirstöðuhæð hefur ráðið ríkjum undanfarnar vikur. Undir fyrirstöðuhæðum með háum og köldum veðrahvörfum er mjög hlýtt loft ríkjandi í veðrahvolfinu. Á þessu korti er annar poki (og fyrirstaða) nærri austurströndum Síberíu. Dálítið blátt svæði er einnig við Svalbarða.

Lægðasvæðin (gul) eru flest mjóslegin og löng en ef vel er leitað má finna fáeina hnúta þar sem veðrahvörfin eru sérlega lág. Þar er mjög kalt undir. Kuldapollarnir sjást þó betur á annarri gerð af veðrahvarfakortum. Ég fjalla ekki um þau að sinni.

Ef farið er inn á slóðina sem þessi mynd er tekin af birtist langur listi yfir kort af ýmsu tagi. Flest þeirra eru jafnframt hreyfimyndir sem sýna stöðuna síðastliðinn hálfan mánuð. Þar má greinilega sjá fyrirstöðuhæðirnar myndast og hvernig öll hringrásin er samsett úr einskonar þráðum sem togast og teygjast á ýmsa vegu. Hreyfist þræðirnir til norðurs mynda þeir hæðabeygjur (bogi með kryppu að norðurskauti og köld veðrahvörf innan bogans), en ef þeir fara til suðurs snúast þeir í lægðabeygjur (kryppan sveigð í átt til miðbaugs og hlý veðrahvörf innan bogans).

Háloftavindrastirnar eru þar sem bratti veðrahvarfanna er mestur, en það er einmitt þar sem hitamunur er mestur. Nyrðri mörk dökkbláu svæðanna mynda hvarfbaugsröstina, en heimskauta- eða pólröstin er þar sem skörpust skil eru á milli gulra og grænna svæða. Hún er sérstaklega öflug þar sem rauður litur er í lægðabeygjuþráðum. Þannig er ástandið á myndinni yfir Mexíkóflóa og suðvestur af Aljúteyjum. Rastirnar sterkastar þar sem lægðabeygju- og hæðabeygjuþráðum lendir saman á leiðum sínum. All þetta er í vinsamlegu boði snúings jarðar.

Ef vel er að gáð má sjá rauðan flekk í örlitlu lægðabeygjusvæði í námunda við Thule á Grænlandi. Hægt er að fylgjast með slíkra smábylgja á venjulegum háloftakortum.

Meir en nóg að sinni - en skoðið viðhengið - það þolir nokkra stækkun.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg080125a
  • w-blogg070125hb
  • w-blogg070125ha
  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.1.): 18
  • Sl. sólarhring: 175
  • Sl. viku: 3424
  • Frá upphafi: 2430743

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 2785
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband