Vitlausar langtímavæntingar haustið 1981

Nóvember er sá síðari af tveimur mánuðum haustsins hjá Veðurstofunni. Talsverður vetrarbragur kemst þá á veðurlag. Lægsti hiti sem mælst hefur í mánuðinum er -30,4 stig. Sú afskaplega lága tala birtist á sjálfvirku stöðinni á Neslandatanga við Mývatn þann 24. árið 1996. Að meðaltali er mesta frost á landinu í nóvember um 20 stig. Kuldamet Reykjavíkur í nóvember er orðið gamalt, frá því síðasta dag mánaðarins árið 1893. Það er litlu minna en lægsta lágmark Akureyrar, en það er -18,5 stig, frá 19. nóvember 1981.

Ég man vel eftir haustinu 1981, meðalhitinn í Reykjavík í október og nóvember samanlagt var 0,0 stig og hafði ekki farið ámóta neðarlega síðan 1917 - þá var meðalhiti þessara mánaða 0,1 stig. Þar á undan var sami hiti haustið 1880. Á þessum árum hneigðist ég til þess sem á útlensku nefnist analógíuspár - við getum kallað það samsvörunarspár upp á íslensku. Þá er gert ráð fyrir því að sé veður ámóta í einhvern tíma og verið hefur áður, haldist það líka áfram svipað og það gerði áður.

Samkvæmt samsvörun hefði veturinn 1982 átt að verða óvenjulegur frostavetur, fádæma frostavetur, fyrst kunnustu frostavetur rúmra hundrað ára komu beint ofan í köldustu haustin. Og þessu bjóst ég reyndar við verð ég að játa, það ýtti meira að segja undir bábiljuna að í desember fór að mælast meir en 25 stiga frost á Bretlandseyjum og skömmu eftir áramót (10. janúar) var sett nýtt 20. aldar kuldamet í Skotlandi, -27,2 stig. En - svo varð ekki neitt úr neinu. Veturinn 1982 var bara frekar venjulegur.

Rannsóknir höfðu reyndar þá þegar sýnt að samsvörunarspár væru gagnslitlar, bábilja er ef til vill fullsterkt orð. Af þessu má læra að veðrið man bara sumt - það man greinilega eitthvað, en oftast er það misminni. Reynslan hefur alla vega kennt mér að veðrið virðist endalaust eiga ný spil uppi í erminni, jafnvel þau sem maður hélt að væru ekki til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Dr. Jakob Jónsson skrifaði doktorsritgerð sína um húmor og íróníu í guðspjöllunum. Trausti kemur með húmor og íroníu inn í vísindin. Svona nálgun gerir þessa pistla spennandi og skemmtilega aflestrar. Takk, Trausti.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 4.11.2010 kl. 07:56

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hefur eitthvað verið gert með rannsóknir Páls Bergþórssonar um langtímaspár hans um hitafar á Íslandi. Ef ég man rétt spáði hann þessum auknu hlýindum undanfarinna ára, dálítið fyrir aldamót og tengist þessi spá hitastigi sjávar við Svalbarða og Jan Mayen, ef ég man rétt.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.11.2010 kl. 09:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 198
  • Sl. sólarhring: 217
  • Sl. viku: 2119
  • Frá upphafi: 2412783

Annað

  • Innlit í dag: 187
  • Innlit sl. viku: 1861
  • Gestir í dag: 170
  • IP-tölur í dag: 164

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband