Nokkur nóvembermet, hæsti hiti

Þá er að búa sig undir metavaktina í nóvember. Ekki er það þó þannig einhver met séu í spánum næstu daga. Hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í nóvember er 23,2 stig, en sú ótrúlega háa tala kom fram á sjálfvirku stöðinni á Dalatanga 11. nóvember 1999. Mannaða stöðin á sama stað skráði hámarkið 22,7 stig í athugun kl.9 að morgni þess 12. En hiti var hæstur kvöldið áður eins og á sjálfvirku stöðinni. Á mönnuðum stöðvum er hámarkshiti nú athugaður tvisvar á dag, kl. 9 og 18.

Örfáum dögum eftir að metið var sett á Dalatanga, þann 19., gerði aðra hitabylgju og féllu þá stöðvamet víða um land og hiti komst yfir 20 stig á nokkrum stöðvum á Norður- og Austurlandi. Nóvembermet 59 sjálfvirka stöðva eru sett þennan dag. Nóvembermet Reykjavíkur eru frá þessum degi, sjálfvirka stöðin á veðurstofutúninu náði 13,2 stigum, en 12,6 stig mældust á mönnuðu stöðinni. Þennan óvenjulega dag mældist hámarkið í Bolungarvík 17,8 stig. Reykjavík á varla möguleika í það, en mér finnst að Reykjavík eigi að geta betur en 13 stig. Við eigum inni að minnsta kosti 14 stiga hámark í nóvember. - Hvenær sem það nú verður.

Á Akureyri er nóvemberhámarkið 17,6 stig, skrifað á 3. nóvember 1964. Sennilega varð hiti hæstur að kvöldi 2. Ég er ekki með gögn við höndina til að fastsetja það. Talan er í hærra lagi miðað við nálægar stöðvar þennan sama dag, en hiti fór þó lítillega hærra á metastaðnum Dalatanga. En við megum taka eftir því að hiti yfir 15 stigum í nóvember er óvenjulegur.

Gömul mæling er prentuð í Veðráttunni, 17,4 stig á Víðistöðum í Hafnarfirði 19. nóvember 1945. Þessi tala var slegin af í næsta ársyfirliti enda örugglega röng.

Áhugasamir geta fundið hæsta hita hvers dags í nóvember í textaviðhengi. Sennilega er hægt að opna það með excel, en sjálfgefið er oftast notepad eða wordpad. Þaðan er auðvelt að afrita í excel til nánari skoðunar.

Elsta metið í listanum eru 17,8°C þ. 17. og var sett í Fagradal í Vopnafirði 1933. Tími kominn á það, en tölurnar næstu tvo daga á undan, þ.15. og 16. eru lægri (15,2 og 15,5 stig) og þeir dagar eru því líklegri fórnarlömb nýrra meta.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Morgunhámarkið þ. 3. nóv. 1964 á Akureyri var skráð 15,5° en kl. 15 þann dag voru 11,8° (hæst á athugunartíma) en hámark kl. 18 skráð 17,6°. Er þetta svindl?

Sigurður Þór Guðjónsson, 31.10.2010 kl. 01:00

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þarfnast alla vega nánari skoðunar. Ég kíki betur á þetta eftir helgi.

Trausti Jónsson, 31.10.2010 kl. 01:52

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Tek eftir að á Seyðisfirði er í Veðráttunni mestur hiti 27. og 28. 1958 skráður 15,3° en þarna á listarnum eru 14,5° hæst á landinu þ. 28.

Sigurður Þór Guðjónsson, 31.10.2010 kl. 11:56

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Bestu þakkir Sigurður, ég athuga málið.

Trausti Jónsson, 31.10.2010 kl. 16:56

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Nú hef ég athugað Akureyrarmálið frá 1964 betur. Svo virðist að það þurfi að slátra meintu meti í beinni útsendingu. Talan 17,6 stendur í raun og veru í hámarksdálkinum í skýrslubókinni kl.17. Síritandi hitamælir var einnig í skýlinu á Akureyri, hann fór ekki upp fyrir 12,0 stig þennan dag. Metið er því nærri örugglega vitleysa, hámarkið er trúlega 12,5 stig. Svo vill til að næsthæsta nóvembertalan á Akureyri er nærri því hin sama, 17,4 stig, árið 2004, þannig að ekki ætti að setja hroll að Akureyringum við slátrunina. Einhver önnur stöð tekur þá trúlega metið fyrir þann 3. Hver það verður kemur bara í ljós. Þ. 27. september 1958 var 15 stiga hiti á Seyðisfirði kl.21, engin ástæða til að efast um það. Hámarkshitinn var á sama tíma lesinn 15,2 (leiðrétting +0,1°). Sami hámarkhiti var mældur kl. 8 næsta morgun. Þetta er því dæmi um svonefnt tvöfalt hámark og því leiðinlegt að láta það stela hæsta hitanum þ. 28. frá Akureyringum sem þegar eru í sárum vegna 17,6 stiganna sem nefnd voru hér að ofan.

Trausti Jónsson, 1.11.2010 kl. 23:07

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hlaut að vera. Aldrei fundist þetta Akureyrarmet sannfærandi. Ekki gaman núna hjá Norðlendingunum. Og nú fyllist ég sannri Þórðargleði. ''Skratti væri nú gaman að sjá, hvernig þeir taka sig út núna, greyin''. En mikil fádæma hugarfarsspilling er nú þetta í manni!  

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.11.2010 kl. 18:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 39
  • Sl. sólarhring: 105
  • Sl. viku: 2486
  • Frá upphafi: 2434596

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 2208
  • Gestir í dag: 34
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband