Íslensk veðurfræðirit: Fyrsta íslenska veðurbókin

Íslenska lærdómslistafélagið sem starfaði undir lok 18. aldar gaf út fræðsluefni af ýmsu tagi fyrir almenning. Í þriðja árgangi rita félagsins (1782) er samantekt um veðurfræði eftir Magnús Stephensen (bls.122-192) sem hann nefnir: Um Meteora, eða veðráttufar, loftsjónir og aðra náttúrulega tilburði á sjó og landi.

 Margt er gott í þessu riti. Þekking á veðurfræði á þessum tíma var þó heldur rýr og því er margt missagt eða rangt. Nútímaáhugamenn um veðurfræði ættu að geta lesið ritið sér til ánægju en það er nú aðgengilegt á netinu á vefsíðunni timarit.is - undir Rit þess (konunglega) íslenska lærdómslistafélags. Það er með gotnesku prentletri. Einstakir bókstafir geta vafist fyrir mönnum, sérstaklega þó s og k sem oftast líta bæði út sem f. Þetta venst þó. Hástafirnir eru erfiðari en Magnús er mjög spar á punkta í texta sínum og langir kaflar eru því án hástafa. Latnesk heiti eru prentuð í latínuletri.  Í innganginum fjallar Magnús um að loftið sé til - eins og einhver efist um það - e.t.v. efast einhver enn (stafsetning er færð til nútímahorfs):

 

Loftið kalla menn í daglegu tali hið sama og himinn og meina með því, meðal þessa orðs annarra merkinga, það stóra og víðáttusama hvolf á hverju himintunglin ásamt stjörnum og plánetum sýnast föst að vera; ég vil eigi á þessum stað segja neitt á móti þeirri meiningu, það hlýðir ekki til efnisins; einungis vil ég minnast á þá aðra merkinu er þetta orð Loft hefir og er það sú er ég vil hafa undirskilið, allstaðar hvar ég nefni Loft á þessum blöðum; eftir henni er þá lofið; einn mjög svo þunnur gagnsær og rennandi lögur sem umkringir jarðarhnöttinn á alla vegu eins og haf; það gjörir dampa-hvolf jarðar og gefur öllum dýrum og kvikindum sem þurrlendið byggja, líf og andardrátt auk marga fleiri stórgæða er það veitir jarðarbúum.

 

Að loftið vissulega sé til, kann reynslan nóglega að sanna: því dragi maður flata hönd snögglega í gegnum loftið að andliti sér, annað hvert úti í logni eða inni í húsum, þá finnur maður þegar vind á andlitinu og enn þá langtum meir, haldi maður á breiðu spjaldi, pappírsörk eða öðru þesskonar. Vindurinn er ekki annað enn loftstraumur eður loft sem komið er á ferð og í hræringu; nú er vindarins kraftur og mótstaða stærri en svo að nokkur heilvita skyldi halda hann fyrir ekki og því hlýtur loftið og svo að vera nokkurt eður: loftið má vera til. [þ.e. hlýtur að vera til]

 

Náttúruspekingar kalla suma rennandi hluti elastíska (fluida elastica), það er þvílíka, sem hafa skælingar- eða fjaðrarkraft og fergja má saman í minna rúm með útvortis krafti eður þunga en sem gefa sig þó jafnsnart út aftur þegar á farginu linar; þvílík er gufan af sjóðanda vatni og eins loftið. Að loftið hafi skælingar- eða fjaðrarkraft er hægt að sjá á vel uppblásinni nautsblöðru því styðji maður fingri sínum þétt að henni kemur laut í blöðruna og loftið í henni þrýstist saman í minna rúm: taki maður þá fingurinn af verður blaðran ávöl aftur og loftið þenur sig út í sitt fyrra rúm. Þessi skælingar-kraftur eykst mjög við hitann; lofið fær þá langtum meiri krafta og breiðir sig því út í miklu stærra rúm; en gagnstætt þessu skeður í kulda. Taki maður deiga nautsblöðru í hverri er nokkuð lítið af lofti, bindi fast fyrir ofan og haldi svo við eld þá þenst hún svo út sem væri hún hart uppblásin; sé hún þá strax látin út í kulda dregst hún saman aftur að litlum tíma liðnum og er þá eigi meiri fyrirferðar enn áður var hún. Bólurnar sem koma upp af sjóðandi mjólk eður vatni eru fullar af lofti sem hitinn af þeim útrekur og sem áður var í mjólkinni eður vatninu fólgið.

Í textanum að ofan vekur fyrst athygli að Magnús virðist telja fullvíst að einhverjir telji víst að plánetur og stjörnur séu fastar á festingu - en finnst ekki ástæða til að fjalla um þá skoðun frekar - hún sé einfaldlega annað mál. Fróðlegt væri að vita til hverra hann er að tala.  

Hér er nefndur til sögunnar „skælingarkraftur“, af samhengi þarna og síðar virðist mega ráða að hér sé um það að ræða sem við köllum nú þrýstikraft. Nokkru síðar verðum við vör við að textinn er ritaður fyrir meir en 200 árum:

 

Ofangreind náttúra loftsins eykst þá langmest af heitum dömpum; í byssupúðri er mikið loft saman fergt og inni byrgt: hinn mesti hluti þess er saltpétur sem hefir í sér vætu mikla og verður sú að heitum dömpum þegar kviknar í púðrinu við það eykst mjög stælingarkraftur loftsins af hverjum púðrið hefir sinn feikna kraft. Náttúruspekingar hafa reiknað og sannað með mörgum tilraunum að einn kúbik-þumlungur púðurs (það er svo mikið púður sem kemst í þann mæli er þumlungur sé að lengd, dýpt og breidd) innihaldi hérum 240 kúbikþumlunga lofts.

 

Þetta síðasta hefur Magnús eftir dr Kratzenstein nokkrum og nýlegum fyrirlestrum hans útgefnum í Kaupmannahöfn 1781, en í framhjáhlaupi má geta þess að sumir telja að hann sé raunfyrirmynd hins frægari dr. Frankenstein.

 

Þótt þetta með loftið í saltpétrinum sé ekki eftir bókinni í dag má hins vegar geta þess að gríðarlega orku þarf til að búa til saltpétur (eða amóníak). Það er nú gert við háan hita og þrýsting í áburðarverksmiðjum þar sem þannig séð er verið að troða lofti (jarðgasi og nitri) inn í saltpéturinn. Orkan í byssupúðrinu er ekki orðin til úr engu.

 

Síðar mun verða fjallað um fleiri íslensk veðurfræðirit


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 36
  • Sl. sólarhring: 147
  • Sl. viku: 1957
  • Frá upphafi: 2412621

Annað

  • Innlit í dag: 36
  • Innlit sl. viku: 1710
  • Gestir í dag: 35
  • IP-tölur í dag: 34

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband