Spurt var - og tilraun gerð til svars

Á dögunum vildi svo til að hæsti hiti dagsins á landinu mældist á höfuðborgarsvæðinu. Ritstjóri hungurdiska var í framhaldi af því spurður um það hversu oft þetta gerist. Ekki átti hann svarið á reiðum höndum en gat þó svarað því að þetta væri kannski ekki óskaplega óalgengt - og gat auðveldlega séð að síðast átti þetta sama sér stað seint í júní í sumar - það liðu ekki nema rúmir tveir mánuðir á milli atvika. 

Lengra var í ítarlegra svar, en með flettingum í gagnagrunni Veðurstofunnar var til þess að gera auðvelt að finna eitthvað nokkurn veginn. Reyndust þá að meðaltali um 25 dagar milli atvika af þessu tagi - einu sinni í mánuði það er að segja. En grunur var þó um að þetta kynni að vera árstíðabundið. Það sem hér fer á eftir er örlítið ítarlegra - sýnir aðallínu, en er samt ekki mjög nákvæmt. Við svona talningar koma alltaf fram einhverjar villur í gögnunum sem erfitt er að komast framhjá nema með töluverðri vinnu. 

w-blogg050925a

Myndin sýnir þetta grófa svar. Lárétti ásinn sýnir mánuði ársins en sá lóðrétti hversu stórt hlutfall allra daga það er sem hámarkshiti landsins þann daginn lendir á höfuðborgarsvæðinu. Það er algengast í nóvember, 7 dagar af hundrað - um það bil 13 dagar líða á milli atvika. Svipað er í febrúar. En í águst eru það ekki nema tveir hundraðshlutar daga sem þetta á sér stað, einn dagur af fimmtíu. Það er því greinilega ekki algengt að sumarlagi að hlýjasti staður landsins sé á höfuðborgarsvæðinu. Mun sjaldgæfara er að þessi stöð sem á hæsta hitann sé einmitt sú á Veðurstofutúni, það hefur gerst aðeins um einu sinni á ári síðustu 30 árin. Það eru Skrauthólar á Kjalarnesi sem standa sig best, sérstaklega yfir vetrartímann, sú ofanhlýindi sem vindsveipir Esjunnar draga til jarðar ná hins vegar ekki til aðalbyggðarinnar í Reykjavík. Af stöðvum sunnan Kollafjarðar er það Korpa sem stendur sig hvað best. Tíminn verður að leiða í ljós hvort aðrar (þá nýlegar) stöðvar geta keppt við hana. 

Til þess að hafa þennan pistil aðeins ítarlegri gerði ritstjórinn lauslega talningu á sama hátt fyrir öll hin hefðbundnu spásvæði landsins. höfuðborgarsvæðið er þar talið með Faxaflóa. Faxaflói í heild stendur sig betur í keppninni heldur en höfuðborgarsvæðið eitt og sér. Stöðvar eins og Húsafell í Borgarfirði (að sumarlagi) og Garðskagaviti (haust og vetur) eru býsna drjúgar að hala inn met. 

w-blogg050925b

Myndin hér að ofan sýnir þetta. Athugið að kvarðinn er annar en á fyrstu myndinni. Það er vegna þess að fleiri myndir (með þessum sama kvarða fylgja í kjölfarið). Hlutur Faxaflóa er blár á myndinni. Það er rúmlega einu sinni í viku á vorin og snemmsumars - og svo aftur í nóvember sem Faxaflóastöð nær efsta sætinu. Hinar súlurnar eru heldur aumingjalegar, þær brúnu sýna hlut Breiðafjarðarstöðva, hann er mestur í nóvember og desember, hiti er hæstur þar um það bil einu sinni í mánuði, af stöðvum má nefna Gufuskála að vetri og Ásgarð í Dölum að sumarlagi. Vestfirðir eru með grænar súlur, mjög sjaldan sem hæsti hiti dagsins á landinu er á Vestfjörðum, kemur þó aðeins fyrir. Þar má nefna Bíldudal.

Svipað er á Ströndum og Norðurlandi vestra, heldur rýr uppskera. Þó er hún heldur betri en á höfuðborgarsvæðinu einu, best í apríl þegar nærri þrír dagar í mánuði lenda á Norðurlandi vestra. Norðurland eystra er mun metasæknara, þar er mikil árstíðaskipting, einn dagur á um það bil tveggja mánaða fresti yfir háveturinn, en að sumarlagi einn dagur af fimm. 

w-blogg050925c

Á austanverðu landinu er mikil árstíðasveifla. Brúnu súlurnar sýna hlut Austfjarða. Í febrúar er hiti hæstur þar nærri fjórða hvern dag og mjög oft allt frá því í september og fram í mars. En að sumarlagi er uppskeran rýrari, þó betri heldur en á höfuðborgarsvæðinu á þeim árstíma. Bláu súlurnar taka til Austurlands að Glettingi, fimmti til sjötti hver dagur í maí til september lendir þar, en síður að vetrarlagi.

w-blogg050925d

Að lokum eru það Suðausturland og Suðurland. Mjög algengt er að hæsti hiti landsins sé á öðru þessara svæða. Suðausturland (bláar súlur) lætur aðeins undan um hásumarið þegar það grípur um tíunda hvern dag, á sama tíma er Suðurland með sitt hámark. Hér er rétt að benda á að spásvæðið Suðurland er ólíkt spásvæðum Austurlands að því leyti að þar eru bæði útnesjastöðvar (t.d. þær í Vestmannaeyjum) og innsveitir (t.d. Hjarðarland) - kannski nokkuð ósanngjarnt í svona metingi. 

Það er erfiðara að meta hlut einstakra stöðva á „réttlátan“ hátt vegna þess hversu mislengi þær hafa athugað. Byrja þyrfti á því að norma athugunartímann - eitthvað sem ritstjórinn gæti í sjálfu sér gert, en mun ekki gera. 

Að lokum má geta þess að það kemur fyrir að hæsti hiti landsins er á hálendinu. Það er helst yfir hásumarið, en þó eftir að snjó hefur tekið upp. Það er að meðaltali um einu sinni til tvisvar á ári sem stöð á hálendinu nær hæsta dagshita landsins. Þetta gerist nær eingöngu í júlí og fyrri hluta ágúst - og svo eru stök tilvik eins og þegar stöðin á Eyjabökkum náði í hámarkshita landsins fyrir febrúarmánuð - einstakt tilvik sem fékk sinn pistil á hungurdiskum á sínum tíma. 

Svipað hefur verið gert fyrir lægsta hita á hverjum degi - en við látum það má eiga sig að sinni. 


Bloggfærslur 5. september 2025

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg050925d
  • w-blogg050925c
  • w-blogg050925b
  • w-blogg050925a
  • w-blogg010925c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.9.): 21
  • Sl. sólarhring: 119
  • Sl. viku: 1422
  • Frá upphafi: 2496183

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 1215
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband