Brot frá árinu 1997 - hret í júníbyrjun

Við rifjum í stuttu máli upp hret sem gerði snemma í júní 1997. Sumir kenna það við smáþjóðaleikana sem haldnir voru um þær mundir. Eftirminnilegur dagur þegar sleit snjó úr lofti á Laugardalsvelli. Þótt þetta hret standist engan samjöfnuð við páskahretið mikla 1963 (enda nærri tveimur mánuðum síðar að vori) var aðdragandinn svipaður og þannig að hitabreyting milli daga varð óvenjumikil og víða metmikil. 

Dagana 2. og 3. júní var hlýtt háþrýstisvæði nærri landinu og skammt sunnan við það. Vestan- og suðvestanátt var ríkjandi með mjög hlýju og björtu veðri á Norðurlandi. Aðfaranótt 4. ruddist kalt heimskautaloft suður með austurströnd Grænlands og suður til Íslands og hélst kuldinn í marga daga um land allt. Hitabreytingin frá 3. til 4. er með þeim mestu sem þekkist á milli daga hér á landi og varð sérlega áberandi vegna þess að hér hjálpuðust bæði ákveðin suðvestanátt og sólskin við að ná upp hámarkshitanum 3. júní og hitafallið varð óvenju hastarlegt vegna þess að kalda loftið kom að landinu um miðja nótt.

w-blogg020624_hret-1997a

Fyrsta mynd pistilsins sýnir hitabreytingar á Möðruvöllum í Hörgárdal þessa daga. Dægursveiflan er mikil í hlýja loftinu, yfir 16°C á sólarhring 2. júní, greinilega er varmatap að nóttu mjög mikið, en sólin sér um að halda dagshitanum uppi. Ef nánar er að gáð, má sjá stökk í hitanum milli kl. 8 og 9 að morgni þess 3., hitinn hækkar þá um 6,6°C á einni klukkustund, samtímis jókst vindur niður dalinn og greinilegt að niðurstreymi hefur aukið hitann (loft í niðurstreymi hlýnar um 1°C á 100 m hæðarlækkun).

Hitinn náði hámarki milli kl 16 og 17 (24,1°C), en síðan féll hann að meðaltali um 1,1°C næstu 8 klukkustundirnar (fram til kl.1 þ.4). Þetta heldur minna en vænta má ef útgeislun réði ein ferðinni enda sjáum við talsvert „hik” í fallinu rétt fyrir miðnættið. Niðurstreymisloft hefur því enn verið á ferðinni. Eftir kl.1 snerist vindátt og hiti fór að falla verulega, 13,3°C frá kl.1 til kl.4 og þar af 6,1°C frá 3 til 4. Kalda loftið úr norðri ruddist yfir landið. Þá varð tímabundnum botni náð. Svipað átti sér stað á flestum veðurstöðvum um landið norðan- og austanvert. Á Suður- og Vesturlandi kólnaði líka, en þar hafði ekki verið nærri því eins hlýtt dagana áður. 

Við tökum nú eftir því að þann 4. bælir aðstreymi með skýjum dægursveifluna niður í 2,4°C (sem þó er mun meiri en er á meðaldegi í Seley). Daginn eftir er dægursveiflan aftur hrokkin í lag þó kalt sé. Frá því kl.16 þann þriðja til kl.4 þann fjórða féll hiti um 22,4¨C. Mikil umskipti urðu í veðri, frá hásumri yfir í einskonar haust.

Við lítum nú á fáein veðurkort.

Slide1

Hinn 3.júní var hlýjasti dagurinn fyrir norðan. Kortið sýnir mjög mikla háloftahæð fyrir suðvestan land. Henni fylgir mjög hlýtt loft, þykktin er vel yfir 5550 metrum. Mjög snarpt lægðardrag nálgast hins vegar óðfluga úr norðvestri. Það hvessir fyrst af vestri í háloftunum en aðeins fáeinum klukkustundum síðar snýst vindur til norðurs og mun kaldara loft (blár litur) rennur suður yfir landið. 

Slide2

Það má sjá á kortinu sem gildir síðdegis þann 4. Hæðin er komin til Vestur-Grænlands og kalt lægðardrag liggur suður um Ísland. Þykktin í ljósasta bláa litnum er á milli 5220 og 5280 metrar. 

Slide3

Tveimur dögum síðar, þann 6., má segja að hretið sé í hámarki. Enn kaldara loft hefur borist úr norðri, þykktin yfir miðju landi komin niður í 5160 metra, en það er með því lægsta sem sést í júní. En taka má eftir því að austan lægðardragsins er mjög hlý sunnanátt. 

Slide4

Þann 7. er háloftalægðin komin suður fyrir land og er um það bil að beina hlýrra lofti úr austri inn yfir landið. Broddurinn var úr hretinu. Þó hlýnaði ekki að neinu ráði, mikið vantaði upp á fyrri hlýindi. 

Þetta er afskaplega svipuð atburðarás og var í páskahretinu mikla 1963. Þá skall norðanáttin á landinu um miðjan dag, en í þessu tilviki aftur á móti um miðja nótt. Mesta kuldanum 1963 lauk á sama hátt og hér - vindur snerist úr norðri í suðaustur í háloftunum. Úrkomusvæði fór vestur yfir landið.

Nú snjóaði víða um land - meira að segja á Suðurlandi. Alhvítt varð á Önnuparti í Þykkvabæ, á Hellu og Lækjarbakka að morgni 8. Jörð var hálfhulin snjó á Eyrarbakka. Þetta er ekki algengt í júní. 

Slide5

Sjávarmálskortið sem gildir að kvöldi laugardagsins 7. sýnir hlýrra loft úr austri þrengja að kalda loftinu. 

w-blogg020624_hret-1997b

Myndin sýnir breytingar á þrýstispönn yfir landið fyrstu þrjár vikur júnímánaðar 1997. Spönnin reiknast sem munur á hæsta og lægsta þrýstingi á landinu á hverjum athugunartíma (3 klst fresti). Rauði ferillinn sýnir lægsta þrýstinginn. Hæðin mikla réði ríkjum þann 1. og 2., en síðan féll þrýstingur talsvert þegar háloftalægðardragið kom úr norðvestri. Þá hvessti að mun og þann 4. fór þrýstispönnin upp í nærri 20 hPa, en það er mikið í norðanátt í júní. Þetta hvassviðri gekk fremur fljótt yfir, en spönnin jókst aftur þegar hlýja loftið nálgaðist úr austri og lægðin gróf um sig fyrir sunnan land. Náði hún aftur nærri 20 hPa þegar mest var, einmitt um það leyti sem sjávarmálskortið hér fyrir ofan sýnir. Þann 9. var komið skaplegt veður og hélst þannig næstu daga - þótt svalt væri áfram. 

En kuldapollurinn var ekki dauður úr öllum æðum. Mikil furða hvað þannig fyrirbrigði geta verið þrálát ef ekkert er að þeim þrengt. Hann hringsólaði tiltölulega aflítill fyrir sunnan land en mjakaðist svo norður fyrir. Þann 15. var svo komið að hann krækti í meira kalt loft við austurströnd Grænlands og gat beint því til Íslands. Þrýstispönnin varð þá um 12 hPa þegar mest var - sem er ekki sérlega mikið en þó nægilegt til að menn finna fyrir því. Úrkoma varð talsverð um landið norðanvert og talsvert snjóaði inn til landsins. Alhvítt var í Möðrudal og í Svartárkoti þann 14. og þann 15. varð alhvítt í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, meira að segja á Blönduósi. Mest snjódýpt mældist í Litlu-Hlíð í Vesturdal í Skagafirði að morgni 15., 15 cm. Daginn eftir, þ.16. var enn alhvítt á allmörgum stöðvum og þann 18. varð alhvítt við Hvannstóð í Borgarfirði eystra.

Slide6

Kortið sýnir þetta síðara hret - þegar snjókoman nyrðra var í hámarki. Nokkuð kröpp lægð er við Norðausturland og vefur úrkomusvæði utan um sig. 

Slide7

Við sjáum á hæðar- og þykktarkortinu sem gildir kl.6 að morgni 16.júní að pollurinn var þá enn öflugur, þykktin um eða innan við 5210 metrar í miðju - skýrir snjókomuna. Þetta er langkaldasta loftið á öllu kortinu. 

Kuldakastið olli ekki mjög miklu tjóni eða vandræðum, en þó sá víða á gróðri. Ófærð var á heiðum og fé fennti, fuglar urðu illa úti. Tímabundinn hálkuvandi var einnig á fáeinum vegum á láglendi.

Kuldinn var mikill, fjölmörg met voru sett á veðurstöðvum. Ekki hefur mælst meira frost í Vestmannaeyjum í júní, en mælingar hófust þar 1877 (-1,4 stig). Hiti mældist 3,6 stig í Reykjavík kl.15 þann 7. Það er lægsti hiti á þeim tíma dags í júní í Reykjavík frá 1949 a.m.k. Jafnkalt var þó 9. júní 1986 kl.15. Kl.18 var hámarkshiti frá kl.9 í Reykjavík 4,1 stig. Það er það lægsta sem vitað er um í júní í Reykjavík. Landsdægurlágmarksmet lifa fjögur úr þessu hreti (5., 6., 7. og 8.). Þrjú þau fyrstu sett á Gagnheiði en það síðasta í Sandbúðum. Lægst er talan -9,4 stig á Gagnheiði þann 7. og er það næstlægsta lágmark í júní í safni Veðurstofunnar (utan hájökla). [Enn kaldara var í Nýabæ í hvítasunnuhretinu mikla 1973, -10,5 stig þann 11.júní]. 

Hugsanlegt er að fleiri upplýsingum verði bætt við þennan pistil síðar. Svo bíða fleiri hret umfjöllunar. Minnt er á að lítið vantar nú upp á að pistlar hungurdiska um öll árin 1801 til 1974 séu tilbúnir (örfá ár vantar). Þar má finna upplýsingar um helstu vorhret. Árin frá 1975 og áfram verða meðhöndluð með öðrum hætti - endist þrek ritstjórans. 


Smávegis af maí

Maímánuður var að sumu leyti óvenjulegur. Háloftavindar voru nokkru sterkari en að meðallagi, sérstaklega sunnanáttin. Við vitum aðeins um sterkari sunnanátt þrisvar í maí síðustu 80 árin. Það var 2018, 1978 og 1947. Maí 2018 er sérlega minnisstæður fyrir leiðindi um landið sunnan- og vestanvert. Hin tvö ártölin eru meira fallin í gleymsku og dá. Textahnotskurn hungurdiska segir um maí 1978: „Fremur óhagstæð tíð. Úrkomusamt, einkum á Suður- og Vesturlandi. Hiti var yfir meðallagi“ og um maí 1947 er textinn öllu óræðari: „Hlýtt og hagstætt í innsveitum, en svalara við sjóinn. Fremur úrkomusamt“.

Tilfinningin er sú að skoðanir séu nokkuð skipar um nýliðinn maí, við sjáum til hvað Veðurstofan segir.

w-blogg020624a

Hér má sjá hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) - af þeim ráðum við vindátt og styrk. Jafnþykktarlínur eru daufar og strikaðar, en þykktarvik eru sýnd í lit. Hlýindi eru sýnd í gulu, brúnu og rauðu, en blái liturinn sýnir svæði þar sem þykktin er undir meðallagi. Þar var mánuðurinn kaldur. Mikil hlýindi voru ríkjandi fyrir austan land en kalt var á Grænlandi. Ísland er þarna á milli. 

Eins og áður sagði var vestanáttin líka nokkuð sterk í mánuðinum, vel inni í efsta fimmtungi síðustu 80 ára. Sé leitað að svipuðu finnast maí 2018 - sem áður var minnst á, en einnig maí 1992. Þótt staðan hér við Ísland hafi verið svipuð og nú - og hlýindin austan við sömuleiðis var kuldinn vestur af miklu stórgerðari í þessum fyrri mánuðum heldur en nú, þegar hann hélt sig aðeins við Grænland. 

Kortið sýnir að í neðri hluta veðrahvolfs er munur á hitavikum vestan- og austanlands. Hlýrra er eftir því sem austar dregur - nær meginhlýindunum við Noreg. Þetta kemur vel fram í röðunarskránni hér að neðan.

w-blogg020624b

Það eru 24 maímánuðir í röðinni. Hiti var í meðallagi við Faxaflóa - raðast í 9 sæti af 24. Hiti á öðrum spásvæðum lendir í efsta þriðjungi (8. sæti eða ofar) og á landinu austanverðu í efsta fimmtungi. Þetta var fjórðihlýjasti maímánuður aldarinnar (sem af er) á því svæði.

Þetta segir ekkert um sumarveðrið - það er frjálst og óháð. 

Við þökkum BP að vanda fyrir kortið. 


Bloggfærslur 3. júní 2024

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.1.): 39
  • Sl. sólarhring: 704
  • Sl. viku: 3788
  • Frá upphafi: 2428619

Annað

  • Innlit í dag: 31
  • Innlit sl. viku: 3380
  • Gestir í dag: 30
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband